Hreinn Óskarsson skógfræðingur hlúir að efnilegu rauðgrenitré í HaukadalsskógiMisjafnt er frá einu landi til annars hvernig fólk vill hafa jólatré og eins hefur hvert og eitt okkar sína hugmynd um hið eina rétta jólatré. Hefðir eru ólíkar en tíðarandi og tíska breytist líka í þessu sem öðru. Í margra huga er rauðgreni hið eina sanna jólatré en ekki er óalgengt að fólk sem vanist hefur stafafuru líti ekki við öðru.

En hefðir og venjur eru eitt. Annað er hvað hagkvæmt er og heppilegt. Hið fullkomna jólatré er fallega grænt, heldur barrinu vel, hefur rétta lögun miðað við þá ímynd sem kaupandinn hefur í kolli sínum og kostar ekki of mikið. Allir þessir þættir spila inn í þegar fólk velur sér jólatré og hafa líka áhrif á það hvort fólk kaupir jólatré á annað borð og hvort fyrir valinu verður lifandi íslenskt tré, lifandi innflutt tré eða innfutt gervijólatré.

Grunnstofnar til ágræðslu fjallaþins í fræhöllinni á Vöglum í Fnjóskadal. Vonir eru bundnar við að ný yrki fjallaþins til jólatrjáaframleiðslu sem verið er að rækta á vegum Skógræktarinnar muni veita innfluttum nordmannsþin harða samkeppni á komandi árum.

Ræktendur jólatrjáa á Íslandi þurfa að kljást við alla þessa þætti en um leið þurfa þeir að velja til ræktunar jólatré sem henta aðstæðum á landi þeirra og tré sem líklegt er að hægt verði að selja. Sömuleiðis þurfa þeir að velja þá ræktunaraðferð sem hentar á hverjum stað, hvort sem það er fjöldaframleiðsla með akurræktun, ræktun undir skermi í grisjuðum skógi eða aðrar aðferðir. Jólatrjáaræktun á Íslandi er því langt frá því að vera einfalt mál. Hér eru upplýsingar um helstu trjátegundir sem nýttar hafa verið sem jólatré á Íslandi.

Staða jólatrjáaræktar og tækifæri

Sala jólatrjáa síðustu ár hefur verið stöðug og hlutdeild íslenskra trjáa á bilinu 7-11 þúsund tré. Fjöldi innfluttra jólatrjáa hefur verið á bilinu 40-50 þúsund. Innlend framleiðsla er einungis um 1/5 af heildarsölu jólatrjáa. Samkeppni við gervijólatrén hefur farið harðnandi. Hér fyrir neðan má sjá samanburð á fjölda íslenskra jólatrjáa og innfluttra á markaðnum.

Innfluttu trén eru fyrst og fremst nordmannsþinur (Abies nordmanniana) en stafafura er algengasta innlenda jólatréð. Nordmannsþinur er of suðlæg tegund til að henta til ræktunar á Íslandi.  Ef auka á framleiðslu íslenskra jólatrjáa er talið vænlegast að auka hlutdeild stafafuru með markaðsstarfi og hefja framleiðslu á fjallaþin (Abies lasiocarpa) til að keppa við innfluttan nordmannsþin. Hjá Skógræktinni er nú unnið að kynbótum á fjallaþin undir stjórn Brynjars Skúlasonar, sérfræðings hjá Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá. Markmiðið er að rækta fræ með því að para saman úrvalstré og gætu fyrstu fræin fengist þroskast kringum árið 2020 og fyrstu kynbættu þinirnir komið á markað sem jólatré áratug síðar ef allt gengur vel.

Innflutt jólatré frá Danmörku og jólatré framleidd á Íslandi frá 2006 til 2012. Upplýsingar frá Danske Juletræer, Danmörku 2006-2012, og úr Skógræktarritinu 2006-2012. Mynd: Else Møller.

Skógræktin og skógræktarfélögin hafa verið aðalframleiðendur jólatrjáa til þessa og síðustu ár hafa nokkrir skógarbændur bæst í þann hóp undir forystu Landssamtaka skógareigenda.  Ekkert bendir þó til að umfang þeirrar ræktunar muni auka hlutdeild íslenskra jólatrjáa verulega. Else Møller lauk vorið 2013 MS-ritgerð um akurræktun jólatrjáa við íslenskar aðstæður. Ritgerðin nefnist Hraðrækt jólatrjáa á ökrum: Lifun ungplantna og áhrif mismunandi áburðarmeðferðar. Þar kom í ljós að eiginleg akurræktun hérlendis að danskri fyrirmynd þarfnast meiri undirbúnings og rannsókna og ekki tímabært að hvetja bændur til slíkrar framleiðslu í stórum stíl. Hins vegar er löng reynsla hér á landi fyrir jólatrjáarækt í skjóli birkiskóga og annarra skóga og það með góðum árangri. Ungskógar skógarbænda og skógrækarfélaga henta vel sem skjólgjafi til jólatrjáaræktunar og þar er einnig komin reynsla fyrir skógrækt sem vert er að byggja á.

Í dálkinum hér til hægri má finna ýmsar upplýsingar um jólatré og jólatrjáarækt.