Merki SkógarkolefnisSkógarkolefni er gæðastaðall fyrir viðurkennt ferli vottunar á bindingu kolefnis með nýskógrækt.

Markmið Skógarkolefnis eru:

  • draga úr áhrifum loftslagsbreytinga með því að binda kolefni
  • bjóða landeigendum nýja kosti til að fjármagna skógrækt
  • bjóða fyrirtækjum og einstaklingum upp á kost til ábyrgrar kolefnisjöfnunar
  • efla skógrækt á Íslandi með öllum þeim kostum sem henni fylgja

Skógarkolefni tryggir:

  • raunverulega kolefnisbindingu með nýskógrækt
  • viðbót við fyrri kolefnisbindingu
  • mælda og staðfesta kolefnisbindingu
  • skilgreindan varanleika kolefnisbindingar
  • vottaða kolefnisbindingu
  • umhverfis- og samfélagslega ábyrgð

Tonn á móti tonni

Skógarkolefnisreiknir Skógræktarinnar gerir kleift að áætla bindingu í áformaðri skógrækt hvar sem er á láglendi Íslands þar sem skógrækt kemur til greina. Reiknivélin er byggð á áratuga mælingum Íslenskrar skógarúttektar á skógum á Íslandi. Mynd: SkógræktinEin skógarkolefniseining samsvarar einu tonni af koltvísýringi (CO2) í andrúmsloftinu sem bundið er í skógi. Til að jafna losun á einu tonni af CO2 þarf því að telja fram eina skógarkolefniseiningu. Til að slíkar einingar geti orðið til þarf að rækta nýjan skóg, fá kolefnisbindinguna vottaða og skráða í Loftslagsskrá Íslands. Einingarnar eru skráðar „í bið“ til að byrja með. Eftir fimm ár frá gróðursetningu er skógurinn metinn til að sjá hvort hann sé á réttu róli og muni binda það sem til er ætlast. Með óháðri vottun eru þessar úttektir staðfestar og þar með verða skógarkolefniseiningarnar fullgildar. Tíu árum seinna er skógurinn fyrst mældur og kolefnisbinding staðfest og vottuð. Þegar skógarkolefniseiningar eru notaðar til jöfnunar á losun er ekki hægt að nota þær aftur.

Kerfi mótað

Fyrstu drög að Skógarkolefni voru kynnt í árslok 2019 og í kjölfarið unnu aðilar utan Skógræktarinnar að því að koma á fót löggiltri kolefnisskrá til að halda utan um kolefniseiningar frá því að stofnað er til þeirra og þar til fullgildar, vottaðar skógarkolefniseiningar hafa verið notaðar á móti losun. Loftslagsskrá Íslands var sett á fót á árinu 2021 og fyrstu verkefnin skráð í sumarlok það ár. Loftslagsskrá er eins konar banki sem tryggir að einingar standist settar kröfur og að þær séu aðeins notaðar einu sinni á móti losun. Raunar er slík skrá um margt sambærileg við verðbréfaskrá eða kauphöll, fremur en banka. Einingarnar þarf að votta af til þess bærum vottunaraðila. Ekki er nauðsynlegt að ein tiltekin vottunarstofa sjái um slíka vottun heldur þarf hún aðeins að hafa alþjóðleg réttindi til vottunar og vera óháð þeim sem stofna til eða versla með einingarnar. Í vottuninni felst óháð staðfesting samkvæmt alþjóðlega viðurkenndu vottunarkerfi á því að farið hafi verið í einu og öllu að þeim leikreglum sem lagt var upp með. Leikreglurnar eru Skógarkolefni í þessu tilfelli og því má segja að Skógarkolefni sé gæðakerfi. Þetta gæðakerfi er nú tilbúið til notkunar fyrir aðila sem vilja búa til vottaðar, seljanlegar kolefniseiningar sem telja má fram á móti losun. Með slíku framtali næst fram ábyrg kolefnisjöfnun sem samræmist áliti Loftslagsráðs þar um.

Ríkið, einkageirinn og almenningur

Skógarkolefni inniheldur viðmið fyrir vottun og skráningu á kolefnisbindingu með nýskógrækt á frjálsum markaði. Almenningur, stofnanir og fyrirtæki sem vilja leggja sitt af mörkum til loftslagsbaráttunnar og binda kolefni fá þannig fullvissu um bindingu sína.

Skattafrádráttur vegna kolefnisjöfnunar

Í ársbyrjun 2021 tóku gildi breytingar á lögum um tekjuskatt sem ættu að freista lögaðila. Samkvæmt þeim má nota hluta tekna til kolefnisjöfnunar (allt að 0,85% árstekna) án tekjuskattsgreiðslu fyrir árið sem stendur yfir þegar framlögin eru greidd. Þetta á við aðgerðir í rekstri til kolefnisjöfnunar lögaðilans sem og fjárframlög til skógræktar, uppgræðslu og endurheimtar votlendis. Til þeirra teljast, auk framlaga til sjóða, stofnana, sjálfseignarstofnana og samtaka sem vinna að kolefnisjöfnun, verklegar framkvæmdir sem fyrirtæki taka að sér í samvinnu við sjóði, stofnanir, sjálfseignarstofnanir og samtök og taka ekki greiðslu fyrir. Frekari kynning er á vef Alþingis en einnig má fá upplýsingar hjá  Skattinum (s. 442 1000).