Ásbyrgi

Amennt um skóginn

Fjölbreyttur skógur í ægifögru og stórgerðu skeifulaga jarðsigi, Ásbyrgi í Kelduhverfi. Svæðið tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði. Jarðsig þetta er eitt mesta náttúruundur landsins. Byrgið er skógi vaxið, einkum af birki og víði, auk reynis. Nokkur þúsund barrtré voru gróðursett í byrginu á sínum tíma og dafna vel. Í Ásbyrgi er góð aðstaða til útivistar. Gönguleiðir eru margar, tjaldsvæði góð og náttúrufegurð mikil.

Margir hafa komið í Ásbyrgi, en færri vita að Byrgið og skógurinn í kring er eignarland Skógræktarinnar og þ.a.l. þjóðskógur. Ásbyrgi er hamrakví með allt að 100 m háum, þverhníptum veggjum. Í miðju byrginu rís klettur, Eyjan, og eru hamragöng báðum megin hennar, en innst er tjörn. Þvermál Ásbyrgis er um 1 km og lengdin 3,5 km. Mun það hafa myndast í hamfarahlaupum í Jökulsá á Fjöllum.

Staðsetning og aðgengi

Aðkoman að Ásbyrgi er frá þjóðvegi 85 innst í Kelduhverfi. Frá Austurlandi er styst að fara um Hólsfjöll og Hólssand en þar er malarvegur. Betri vegur er nú vestan Jökulsár mestalla leiðina og von á að þar verði vegur með bundnu slitlagi alla leið frá Hringveginum á Mývatnsöræfum niður í Kelduhverfi.

Aðstaða og afþreying

Í Ásbyrgi er góð aðstaða fyrir ferðalanga og áhugafólk um náttúru. Tjaldstæði á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs er rúmt og gott með fyrsta flokks aðbúnaði. Skammt frá tjaldstæðinu er golfvöllur og verslun sem selur allar helstu nauðsynjar. Inni í byrginu er gott bílastæði og stígakerfi. Þar er einnig grasflöt sem er nýtt ýmist sem íþróttavöllur eða tjaldsvæði og danspallur er þar skammt frá, enda hefur Ásbyrgi lengi verið samkomustaður Norður-Þingeyinga. 

Saga skógarins

Talið er að Ásbyrgi hafi myndast við að minnsta kosti tvö hamfarahlaup úr norðanverðum Vatnajökli, annað fyrir 8-10 þúsund árum en hið síðara fyrir u.þ.b. 3 þúsund árum. Síðan hefur Jökulsá fært sig til austurs. Þjóðsagan segir á hinn bóginn að hinn áttfætti hestur Óðins, Sleipnir, hafi stigið þar niður fæti þegar goðið var á yfirreið og þannig hafi Byrgið orðið til.

Skógræktin keypti jörðina Ásbyrgi árið 1927 og friðaði skógarleifarnar í Byrginu sama ár. Hákon Bjarnason skógræktarstjóri lýsir aðstæðum þannig 1936: „Friðunin í Ásbyrgi kom á elleftu stundu, því að gömlu skógarnir, Leirtjarnarskógur og Botnsskógur, voru á fallandi fæti. Nýgræðingur var þar lítill sem enginn, en land mjög notað til beitar. Gömlu trén voru að kveðja lífið fyrir elli sakir. En nú (1936) er nýgræðingurinn að færast óðfluga um allt Byrgið, aðeins átta árum eftir að friðun komst á.“

Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum var stofnaður 1973. Ásbyrgi var þá utan þjóðgarðs, en varð hluti af honum árið 1978 með samvinnusamningi milli þáverandi Náttúruverndarráðs og Skógræktar ríkisins. Hélst sá samningur óbreyttur er Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum færðist undir Vatnajökulsþjóðgarð árið 2008. Ásbyrgi tilheyrði þó Skógræktinni áfram og samstarf stofnunarinnar við þjóðgarðinn varðandi umsjón með svæðinu hélt áfram. Í janúar 2019 var undirritaður samningur á milli Skógræktarinnar og Vatnajökulsþjóðgarðs um umsjón Ásbyrgis. Samkvæmt samningnum færðist formleg umsjón jarðarinnar allrar og mannvirkja á henni frá Skógræktinni til Vatnajökulsþjóðgarðs.  Vatnajökulsþjóðgarður og Skógræktin eiga engu að síður áfram með sér samstarf um innri hluta Ásbyrgis og land Ásbyrgis norðan þjóðvegar.

Trjárækt í skóginum

Yst í Ásbyrgi er móagróður en innar er fjölbreyttur og þroskamikill birkiskógur með óvenjumiklu ívafi reyniviðar. Á árunum milli 1950 og 1980 var nokkuð gróðursett af innfluttum trjátegundum í Ásbyrgi, einkum rauðgreni, blágreni, hvítgreni, lerki og skógarfuru. Nú er stefnan hins vegar sú að gróðursetja ekki meira en viðhalda sem víðast fjölbreyttum blandskógi af birki, reyniviði og gróðursettu tegundunum. Með tímanum mun gróðursettu trjánum smám saman fækka við eðlilega grisjun.

Birki og reyniviður breiðast hægt út til norðurs og því mun skógurinn í Ásbyrgi halda áfram að stækka. Umhirða birkiskógarins og gróðursettu trjánna felst í því að viðhalda góðri aðstöðu til útivistar og sjá til þess að gott útsýni haldist frá völdum stöðum.  

Annað áhugavert í skóginum

Ásbyrgi er hluti Vatnajökulsþjóðgarðs sem  stofnaður var í júní 2008. Þjóðgarðurinn nær yfir um 12.000 km2 svæði eða um 12% af flatarmáli landsins og er þar með stærsti þjóðgarður Evrópu.

Botnstjörn innst í Byrginu er í leifum fosshylsins sem myndaðist í hamfarahlaupunum þegar Ásbyrgi varð til. Hún er tær og einstaklega falleg. Þar verpa rauðhöfðaendur ár hvert. Vestan við tjörnina er útsýnisklettur þaðan sem sér yfir allan skóginn. Talsvert fýlavarp er í klettunum og nokkur gauragangur í þeim yfir sumarið.

Í Ásbyrgi er mikið af sveppum síðsumars, s.s. kúlalubba og berserkjasvepp.

Grundarreitur í Eyjafirði

Almennt um skóginn

Grundarreitur er í Eyjafirði, lætur ekki mikið yfir sér og virðist tilsýndar e.t.v. ekki sérstakur. Hann er þó ekki síður merkilegur en Furulundurinn á Þingvöllum og hefur svipaða sögulega og fræðilega þýðingu fyrir skógrækt. Þessir tveir staðir marka upphaf skógræktar á Íslandi.

Staðsetning og aðgengi

Skógurinn er ofan við veg þegar komið er að kirkjustaðnum Grund í innanverðum Eyjafirði. Hafa þarf augun hjá sér þegar ekið er í nágrenni Grundar því reiturinn getur auðveldlega farið fram hjá fólki ef það hefur ekki augun hjá sér. Stæði eru fyrir nokkra bíla þar sem gengið er inn í skóginn.

Aðstaða og afþreying

Um reitinn liggja stígar og ýmsar trjátegundir eru merktar með tegundarheiti og gróðursetningarári.  Reiturinn er því vísir að trjásafni. Áningarstaður með borðum og bekkjum er í miðjum reitnum. Í Grundarreit hafa verið haldnar listsýningar og aðrir viðburðir, en það merkilegasta við reitinn eru trén sjálf sem flest eru meira en aldargömul.

Saga skógarins

Sumarið sem byrjað var að gróðursetja til Furulundarins á Þingvöllum, árið 1899, fóru þeir Carl H. Ryder og Einar Helgason norður í land í leit að hentugum stað fyrir sambærilegar skógræktartilraunir og hafnar voru á Þingvöllum. Bauð stórbóndinn á Grund, Magnús Sigurðsson, fram land til tilraunarinnar endurgjaldslaust og hafist var handa við gróðursetningu í 1,6 ha reit árið 1900. Girðingin var svo stækkuð 1952 og er reiturinn nú rúmlega þrír hektarar að flatarmáli. Skógræktin hefur haft umsjón með Grundarreit frá því að stofnunin tók til starfa 1908.

Trjárækt í skóginum

Saga trjáræktar í Grundarreit er um margt svipuð sögu Furulundarins á Þingvöllum. Í upphafi voru gróðursettar og endurgróðursettar í reitnum samtals yfir 27.000 trjáplöntur af sextán tegundum, þær sömu og settar voru í Furulundinn. Christian Flensborg getur þess að mikið hafi verið um afföll. Árið 1930 lýsir Hákon Bjarnason reitnum sem „samfelldri fjallafurubeðju“ um mannhæðarhárri með nokkrum hærri lerkitrjám í norðvesturhorni girðingarinnar. Árið 1936 heimsótti Flensborg Ísland og fór um landið í fylgd Hákonar, m.a. í reitina sem hann hafði gróðursett í 30 árum áður. Var þá fjallafuran orðin 3-4 m há og lerkið 4-5 m. Þá bar talsvert á rótarskotum blæaspar en aðrar tegundir voru ekki áberandi. Hákon getur þess að „á stríðsárunum var töluvert grisjað af fjallafurunni og notað í jólaskreytingar. Þá fyrst komu lindifururnar í ljós“. Veturinn 1974-1975 varð svo mikið snjóbrot að megnið af fjallafurunni var hreinsað burt í kjölfarið. Opnuðust þá rjóður þar sem aðrar tegundir gátu notið sín. Einkum tók blæöspin vel við sér eftir þá grisjun og var fljót að fylla í rjóðrin.

Árið 1952 var girðingin stækkuð um helming til austurs og er það þessi nýrri hluti reitsins sem er nær veginum. Hófst þá aftur gróðursetning eftir 50 ára hlé. Alls voru gróðursettar tólf trjátegundir á árunum 1954-1982 í nýja svæðið og nokkuð í rjóðrin eftir grisjun fjallafurunnar 1975. Árin 1993-1994 var Grundarreitur grisjaður hressilega, göngustígar lagðir og merkingar settar upp til að gera hann aðgengilegan almenningi.

Grundarreitur er nú fjölbreyttur og fallegur blandskógur, líkt og Furulundurinn. Gömlu lindifururnar eru glæsilegar og upphaflegu blæaspirnar eru stærstu tré þeirrar tegundar á landinu. Það er vel þess virði að gera sér ferð í Grundarreit. Þá er ekki síður forvitnilegt að heimsækja bæði Grundarreit og Furulundinn á sama sumrinu og bera saman útkomuna í þessum tveimur elstu skógarreitum landsins.

Annað áhugavert í skóginum

Í miðjum reitnum er hóll, en af honum er ágætt útsýni. Sagt er að í honum sé grafinn fjársjóður.

Kristnesskógur í Eyjafirði

Amennt um skóginn

Kristnesskógur er skógur við Kristneshæli á jörðinni Kristnesi í Eyjafjarðarsveit. Þar er nú til húsa endurhæfingardeild og öldrunarlækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri en heimamenn tala enn um „Hælið“ enda var þetta upphaflega berklahæli. Undir heitinu Hælið er nú rekið safn um sögu berklanna á Íslandi ásamt kaffihúsi  í byggingu sem eitt sinn hýsti hjúkrunarfólk berklahælisins.  Skógurinn var í umsjón Skógræktarinnar um þrjátíu ára skeið frá árinu 1981 en nú hafa eigendur jarðarinnar Kristness keypt hann og tekið við ræktun hans og umhirðu. Kristnesskógur er fjölbreyttur útivistarskógur og margar gönguleiðir eru merktar. Tilvalinn viðkomustaður í Eyjafirði!

Staðsetning og aðgengi

Kristnes er í Eyjafirði um 8 km framan, innan eða sunnan við Akureyri. Skógurinn er í brekkunni ofan við Kristneshæli.

Aðstaða og afþreying

Kristnesskógur er fjölbreyttur útivistarskógur og margar gönguleiðir eru merktar.

Saga skógarins

Heilsuhælið að Kristnesi í Eyjafirði tók til starfa 1927, einkum sem berklahæli. Útivist var snar þáttur í meðferð við berklum og var því var þegar hafist handa við að gera umhverfi hælisins nýtilegt til útivistar með gróðursetningu trjágarðs í sama anda og gert var á Vífilsstöðum. Árið 1940 var trjágarðurinn svo stækkaður upp í 27 hektara og gróðursett í það land fram til 1956, eða um það leyti sem farið var að lækna berkla með lyfjum. Eftir það lá frekari gróðursetning niðri að mestu og lítið var hirt um skóginn. Árið 1981 var þess farið á leit að Skógræktin tæki að sér umhirðu Kristnesskógar og þar með varð hann þar með þjóðskógur þangað til skógurinn var seldur 2021. Bændur í Kristnesi eru kunnáttufólk sem á örugglega eftir að sinna skóginum vel og er í enn betri færum til þess en Skógræktin.

Trjárækt í skóginum

Segja má að Kristnesskógur hafi verið fyrsti skógur á Íslandi sem ræktaður var fyrst og fremst til heilsueflingar. Upphaflega var einkum gróðursett birki og reyniviður en fleiri tegundir eftir 1950. Þegar Skógræktin tók við umsjón reitsins var þar enn nokkuð skóglaust land og því voru um 17.000 tré gróðursett þar á 9. áratug síðustu aldar. Svæðið er nú að heita má fullplantað og trén í eldri hluta hans orðin stór og mikil. 

Annað áhugavert í skóginum

Fyrst og fremst er nýting skógarins áhugaverð. Kristnesskógur er enn nýttur til heilsubótar af þem sem dvelja á Kristnesi til lækninga og endurhæfingar. Þekkingin á heilsubætandi áhrifum útivistar í skógi hefur aukist mikið á undanförnum árum og er þýðing skógarins ekki minni nú en þegar stofnað var til hans sem hluta af meðferð við berklum. Í Kristnesskógi er um 300 metra langur malbikaður útivistarstígur sem fær er hreyfihömluðum. Malbikaðir stígar eru einnig á flötinni sunnan við Hælið. Úr Kristnesskógi er víða fallegt útsýni um sveitir Eyjafjarðar. Á lóð spítalans er líka áðurnefnt setur um sögu berklanna, Hælið.

Hælið, setur um sögu berklanna

Mela- og Skuggabjargaskógur

Almennt um skóginn

Mela- og Skuggabjargaskógur er meðal stærstu og mestu birkiskóga landsins. Þar er birkið síst lakara en í hinum gömlu „höfuðskógum Íslands“, Hallormsstaðaskógi, Vaglaskógi og Bæjarstaðaskógi.

Staðsetning og aðgengi

Vegfarendur á leið milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslu sem vilja njóta landslagsins og ekki eru á hraðferð geta farið Grenivíkur veg út með Eyjafirði að austan, fram hjá Laufási og um Dalsmynni yfir í Fnjóskadal.  Þar handan við Fnjóská blasir við frá þjóðveginum á alllöngum kafla einn af stórskógum Íslands, Mela- og Skuggabjargaskógur.

Vilji fólk komast í skóginn er hins vegar styttra að aka um Víkurskarð eða Vaðlaheiðargöng og út að bænum Draflastöðum vestan megin í Fnjóskadal. Beygt er til norðurs frá þjóðvegi nr. 1, vestan Fnjóskár, skammt neðan Víkurskarðs og fram hjá Draflastöðum. Jeppafær vegur liggur þaðan að Mela- og Skuggabjargaskógi. Hann er ekki vel merktur en ekki er um marga akvegi að ræða á þessu svæði og því erfitt að villast. Það er svolítið ævintýri að komast að skóginum en vel þess virði.

Aðstaða og afþreying

Engin sérstök aðstaða er til útivistar í skóginum nema það sem skógurinn býður á náttúrlegan hátt. Víða er þægilegt að ganga um þennan vegna þess hve stórvaxinn hann er og er hann að því leyti ólíkur þéttvöxnu birkikjarri sem víða má finna og gjarnan er torfært göngufólki.

Saga skógarins

Skógræktin eignaðist jörðina Skuggabjörg og hluta jarðarinnar Mela árið 1948, en þær voru þá báðar komnar í eyði. Skógurinn var síðan friðaður fyrir beit. Þessar jarðir fóru svo snemma í eyði að á þem voru aldrei reist steinsteypt hús. Þar eru því eingöngu rústir torfbæja og tún sem aldrei voru unnin á nútímamáta. Að sama skapi er langt liðið síðan skógurinn var nýttur að ráði og því hefur hann þróast sem náttúruskógur. Hægt er að ímynda sér að svona hafi landið litið út við landnám.

Trjárækt í skóginum

Á skóglausu svæði í kringum gamla bæjarstæðið á Skuggabjörgum var gróðursett nokkuð af lerki, furu og greni um og eftir 1985. Annars er skógurinn stórvaxinn, náttúrlegur birkiskógur sem hefur þróast lítt snortinn í u.þ.b. 60 ár. Birkið er síst lágvaxnara en í Vaglaskógi og mikið um hvítstofna tré. Skógurinn er hreint út sagt einhver glæsilegasti birkiskógur landsins.

Annað áhugavert í skóginum

Fnjóská liðast um Fnjóskadal fyrir neðan skóginn og fjallasýn er fögur, meðal annars til Flateyjardals. Í skóginum er mjög gott berjaland og fuglalíf mikið.

Reykjarhólsskógur

Almennt um skóginn

Reykjarhólsskógur er skógarreitur ofan byggðarinnar í Varmahlíð í Skagafirði. Skógurinn í umsjá Skógræktarinnar. Hann tengist nærliggjandi svæðum og myndar fjölbreytt útivistarsvæði með merktum gönguleiðum.

Staðsetning og aðgengi

Best er að komast að Reykjarhólsskógi upp frá götunni Birkimel í Varmahlíð og taka svo fyrstu beygju til norðurs. Við aðkomuna að skóginum er knattspyrnuvöllur og tjaldsvæði.

Aðstaða og afþreying

Í skóginum eru merktar gönguleiðir og útsýnisskífa á Hólnum þar sem útsýni er mjög gott til allra átta. Áningarstaðir eru í skóginum með bekkjum og borðum. Aðliggjandi tjaldsvæði er ekki í umsjón Skógræktarinnar en er þó samliggjandi skóginum með góðri aðstöðu og leiktækjum. Saman myndar tjaldsvæðið með skóginum ákjósanlegan áningar- og dvalarstað fyrir ferðafólk.

Saga skógarins

Skógræktin fékk umsjón með Reykjarhólsreitnum árið 1950 samkvæmt samningi við Héraðsskólann í Varmahlíð. Sýslunefnd Skagafjarðar hafði þá látið girða þar 17,5 ha skógræktarsvæði árið 1943. Stofnað var til græðireits í brekkurótinni til að geyma plöntur. Reitur sá varð að gróðrarstöðinni Laugarbrekku sem rekin var til ársins 2000 og var miðstöð skógarplöntuframleiðslu og dreifingar á Norðurlandi vestra í um hálfa öld.  

Trjárækt í skóginum

Gróðursetning hófst 1947 með þrjú þúsund birkiplöntum af Bæjarstaða­kvæmi og var mestur kraftur í gróðursetningarstarfinu næstu 20 árin. Þá hafði verið gróðursett í meiri hluta girðingarinnar. Vandamál reyndust mörg framan af við ræktun á þessum stað, þar sem sáralítil reynsla var af skógrækt. Langerfiðast var að fást við grasvöxt, þar sem snarrótarpuntur var drottnandi eins og algengt er í Skagafirði, þar sem land er friðað fyrir beit. Eftir að plöntur komust upp úr grasinu og mynduðu samfellt krónuþak – sem varð auðvitað fyrr en ella vegna þess hve þétt var gróðursett – hafa margar trjátegundirnar vaxið ótrúlega vel, langtum betur en menn gátu vænst í upphafi.  Þannig má álykta, að það hafi reynst happadrjúgt við aðstæður á Reykjarhóli að gróðursetja þétt til þess að kæfa snarrótarpuntinn sem fyrst. Eftir 1980 var ljóst, að nauðsynlegt væri að hefja grisjun í hinum ofurþétta skógi. Fyrst var grisjað í Reykjarhólsskógi árið 1984 en frá 1988 hefur árlega verið grisjað, bæði brotin tré eftir snjóþyngsli og ákveðin svæði kerfisbundið, svo að nú er skógurinn kominn í allgott horf.

Sigurður Jónasson skógarvörður

Þegar uppeldi plantna í Varmahlíð hófst á vegum skógræktarnefndar Skagafjarðarsýslu árið 1944 var Sigurður Jónasson ráðinn til að annast það. Fyrstu plönturnar voru afhentar árið 1947 en árið 1950 tók Sigurður við starfi skógarvarðar á Norðurlandi vestra þegar Skógræktin tók við landinu á Reykjarhóli og gróðrarstöðinni. Sigurður gegndi starfinu til dauðadags árið 1978. Hann getur með réttu kallast faðir skógræktar í Skagafirði. Honum tókst að þróa aðferðir í plöntuuppeldi í Varmahlíð og Laugabrekku við mjög erfiðar aðstæður svo að árangur varð smám saman góður. Hann færði hinum mörgu eigendum skógarreita í Skagafirði og Húnavatnssýslum trjáplöntur heim í hlað og leiðbeindi þeim við gróðursetningu. Hann fann aðferð til þess að hlífa trjáplöntumnum við hinum mikla grasvexti sem áður er minnst á og fyrir þett uxu upp hinir mögu trjálundir við sveitabæi á svæðinu sem nú blasa við, auk skóganna á Reykjarhóli og Hólum í Hjaltadal.

Annað áhugavert í skóginum

Örnefnin Reykjarhóll, Laugarbrekka og Varmahlíð eru til marks um jarðhita á svæðinu. Alllangt er síðan hann var virkjaður og nýttur til húshitunar í Varmahlíð.

Sigríðarstaðaskógur Ljósavatnsskarði

Amennt um skóginn

Birkiskóglendi í brekku með gróðursettum reitum af furu, greni og lerki.

Staðsetning og aðgengi

Sigríðarstaðaskógur er vestarlega í norðurhlíðum Ljósavatnsskarðs. Aðkoman að skóginum er frá Sigríðarstöðum. Bærinn stendur norðan við þjóðveg 1 um það bil í miðju Ljósavatnsskarði. Aka þarf um hlaðið á bænum og sem leið liggur til vinstri.

Aðstaða og afþreying

Þjónustuslóðir liggja um gróðursettu reitina en ekkert hefur verið gert til að auðvelda fólki för um stærstan hluta birkiskógarins. Hann er því nánast ósnortinn náttúruskógur með birkijarri sem víða er torfært um eins og gjarnan er í íslensku birkiskóglendi. Villibjörkin í Ljósavatnsskarði hefur þó verið að teygja sig upp á við með hlýnandi veðri undanfarin ár og æ myndarlegri tré farin að sjást í kjarrinu.

Saga skógarins

Skógræktin keypti Sigríðarstaðaskóg árið 1927 og friðaði hann sama ár. Hafði neðri hluti skógarins verið mikið nýttur til eldiviðarhöggs á árunum þar á undan en efri hlutinn til beitar og ástand skógarins því ekki gott þegar Skógræktin tók við honum. Tíu árum seinna hafði skógurinn náð sér að því marki að aftur var hægt að stunda takmarkað eldiviðarhögg. Síðan hafa af og til verið takmarkaðar viðarnytjar af skóginum en nú er komið að umtalsverðri grisjun í gróðursettu reitunum. Nokkuð hefur verið unnið þar að grisjun undanfarin ár, til dæmis í furureitum.

Trjárækt í skóginum

Þegar Skógræktarfélag Suður-Þingeyinga var stofnað 1943 fékk það afnot af hluta Sigríðarstaðaskógar og gróðursetti þar nokkuð um og eftir 1950 en flutti starfsemi sína svo yfir í Fossselsskóg. Um svipað leyti hóf Skógræktin að gróðursetja í suðvesturhorn skógarins. Alls var gróðursett í um 20 hektara innan skógarins fram til 1990 en ekkert síðan. Flatarmál skógarins er alls 125 ha, þar af um 105 ha birkiskógur. Birkið er nú í sókn í Ljósavatnsskarði.

Annað áhugavert í skóginum

Bratti hlíðarinnar eykst eftir því sem ofar dregur og því leggja færri leið sína þangað. Þar er því að finna algjörlega ósnortinn birkiskóg og fyrirhafnarinnar virði að fara um þær fáförnu slóðir. Í villtum skógi má sjá bæði eldri tré og yngri og feysknir trjábolir, standandi eða fallnir, bera vott um hringrásir náttúrunnar. Mikið fuglalíf er í Sigríðarstaðaskógi og algengt að forvitnir músarrindlar skjótist milli greina í fárra metra fjarlægð frá gestum skógarins. Mikið er um auðnutittling einnig í birkiskóginum og minnsti fugl landsins, glókollur, tístir þar löngum sínum hátíðnihljóðum. Hann heldur sig aðallega í barrtrjánum og heldur niðri grenilús og annarri óværu. Þá galar hrossagaukur og steypir sér niður með hljóðum á flugi sínu.

Þórðarstaðaskógur, Belgsá og Bakkasel

Almennt um skóginn

Þórðarstaðaskógur er í innanverðum Fnjóskadal austan ár. Eyðijarðirnar Belgsá og Bakkasel eru sunnan við Þórðarstaði og eru hlíðar þar einnig skógi vaxnar. Þessir skógar mynda ásamt Lundsskógi eitt mesta samfellda skóglendi á Íslandi. Fyrir nokkru var land einnig friðað á jörðinni Lundi sem tengir þetta skóglendi við Vaglaskóg. Því hillir undir að samfellt skóglendi verði í öllum austanverðum Fnjóskadal frá Hálsi í mynni Ljósavatnsskarðs um Vaglaskóg og inn úr.

Staðsetning og aðgengi

Hægt er að komast akandi í Þórðarstaðaskóg að norðan frá Vaglaskógi og Lundi en þá er nauðsynlegt er að vera á fjórhjóladrifnum bíl. Þetta er líka skemmtileg leið til göngu, hjólreiða eða á hestum. Það sama gildir þegar komið er að sunnan yfir brú á Fnjóská við Illugastaði. Þaðan er einnig hægt að fara til suðurs um Belgsá og Bakkasel og áfram inn í Timburvalladal, einn þriggja afdala Fnjóskadals.

Aðstaða og afþreying

Um Þórðarstaðaskóg liggja þjónustuslóðir eða skógarvegir sem hægt er að ganga um. Að öðru leyti hefur ekkert verið gert í þágu ferðalanga en áhugavert að skoða fjölbreytilegt skóglendið, náttúruskóg í bland við ræktaðan nytjaskóg.

Saga skógarins

Skógræktin eignaðist Þórðarstaði árið 1945 og jarðirnar Belgsá og Bakkasel, sem komnar voru í eyði, ári seinna. Skógurinn í landi Þórðarstaða og Belgsár var friðaður 1946-1947 en Bakkaselsskógur er enn ófriðaður. Búskapur var áfram á Þórðarstöðum fram til 1995.

Trjárækt í skóginum

Stórvaxið birkiskóglendi er í Þórðarstaðaskógi en einnig gróðursettur skógur af lerki, rauðgreni og stafafuru sem dafnar vel. Frá því að Skógræktin tók við honum hefur birkiskógurinn verið nýttur til framleiðslu eldiviðar og smíðaviðar með svokallaðri stakfellingu, þ.e. fellingu eldri trjáa innan úr þannig að skógurinn standi áfram. Felldu trén endurnýja sig síðan með teinungi upp af stubbnum. Á þann hátt viðhelst skógurinn samfara nýtingu. Þetta er sjálfbær nýting sem gerir skógana einnig aðgengilegri til útvistar.

Einnig hefur verið gróðursett í hluta skógarins á Þórðarstöðumog grisjað í þeim gróðursettu reitum sem náð hafa tilteknum þroska.

Samningur um kolefnisbindingu

Árið 2013 var gerður samningur milli Landsvirkjunar og Skógræktarinnar um skógrækt á skóglausu svæði í landi Belgsár. Stærð svæðisins sem um ræðir er alls 49 ha og með þessu bindur Landsvirkjun í skógi hluta af því kolefni sem losnar vegna starfsemi fyrirtækisins. Kolefnisbinding og kolefnisforði skóganna, þar með talið í trjánum, botngróðri og jarðvegi, er eign Landsvirkjunar til 50 ára frá dagsetningu viðaukasamnings um lokaáfanga skógræktar á svæðinu. Að þeim tíma loknum rennur það eignarhald til Skógræktarinnar endurgjaldslaust, eins og segir í samningnum. Mógilsá, rannsóknasvið Skógræktarinnar, mælir kolefnisbindingu í skóginum samkvæmt sérstökum ráðgjafarsamningi.

Annað áhugavert í skóginum

Í Þórðarstaðaskógi miðjum eru tóftir beitarhúsa og sunnar í skóginum er gerði hlaðið úr steinum. Á Belgsárhöfða eru menjar eftir rauðablástur, járnvinnslu úr mýrarrauða. Jarðfræði Fnjóskadals er einnig sérstök og í Þórðarstaðaskógi eru myndarlegir sandstallar sem mynduðust við það að lækir runnu út í stöðuvatn sem stóð uppi í dalnum á síðjökultíma þegar meginjökullinn í Eyjafirði stíflaði enn Dalsmynni og þar með Fnjóskadal.

Töluvert er um sveppi í skógum Fnjóskadals og víða berjaspretta, ekki síst hrútaber.

Vaglaskógur

Amennt um skóginn

Vaglaskógur er í margra huga einn stærsti og fegursti skógur landsins. Hann er vinsæll til útivistar og um hann liggja merktar gönguleiðir. Á Vöglum er starfstöð Skógræktarinnar og aðsetur skógarvarðarins á Norðurlandi. Starfsemin felst í umhirðu skóglenda Skógræktarinnar á Norðurlandi, grisjun, úrvinnslu og sölu afurða. Á Vöglum er unnið að trjákynbótum, ræktuð fræ nytjatrjátegunda og þar er fræmiðstöð Skógræktarinnar með frægeymslum og fræsölu.

Staðsetning og aðgengi

Um miðbik Fnjóskadals, austan Fnjóskár, er Vaglaskógur. Stutt er til Akureyrar frá Vöglum, eða um 34 km ef farið er um Víkurskarð en aðeins um 18 km um Vaðlaheiðargöng.

Aðstaða og afþreying

Vaglaskógur er meðal fjölsóttustu skóga á Íslandi. Skógurinn er skipulagður til útivistar með merktum göngustígum. Vinsæl tjaldsvæði eru í skóginum og fjöldi sumarhúsa í nágrenninu.

Í skóginum er skemmtilegt trjásafn með fjölda tegunda.

Margir leggja leið sína í Vaglaskóg til sveppa- eða berjatínslu og jurtaskoðunar. Sveppir gegna veigamiklu hlutverki við ræktun skóga. Þeir útvega trjánum næringu en hafa líka hlutverk í náttúrlegum hringrásum við niðurbrot á dauðu efni. Kúalubbi myndar til dæmis svepprót með birki og fjalldrapa, hjálpar plöntunum að afla sér vatns og steinefna og þiggur í staðinn næringu frá trjánum. Í Vaglaskógi er að finna ýmsa bragðgóða matsveppi, svo sem áðurnefndan kúalubba en líka kóngsvepp, lerkisvepp, furusvepp og fleiri tegundir. Hrútaber dafna vel á sólríkum og skjólgóðum stöðum eins og í gras- og blómabrekkum, í gisnu kjarri eða birkiskógi. Hrútaber er því víða að finna í Vaglaskógi þegar líður á sumarið og sækjast margir gestir skógarins eftir þeim. Úr hrútaberjum má gera saft og sultur eða hlaup.

Saga jarðarinnar

Þegar Skógræktin tók formlega til starfa 1. janúar 1908 fékk hún í vöggugjöf Hallormsstaðaskóg, Vaglaskóg og umsjón með ræktuðu smáreitunum á Þingvöllum og að Grund í Eyjafirði. Vaglaskógur hafði náð athygli dönsku frumkvöðlanna sem störfuðu hérlendis kringum aldamótin. Þegar höfðu verið settar upp litlar girðingar á Vöglum til undirbúnings gróðrarstöðvar svipað og gert var í Mörkinni á Hallormsstað. Þegar var hafist handa við að friða skóginn í heild.

Trjárækt í skóginum

Vaglaskógur er að jafnaði beinvaxnari og hávaxnari en flestir aðrir íslenskir birkiskógar. Allt frá því Skógræktin tók við skóginum hafa miklar nytjar verið hafðar af honum, einkum til eldiviðar og kolagerðar.

Meðferðin á skóginum miðast við að viðhalda honum, sérstaklega með stakfellingu. Þá eru stök tré, yfirleitt þau elstu hverju sinni á hverju svæði, felld án þess að í skóginum myndist veruleg rjóður. Trén endurnýja sig síðan með teinungi upp af stúfnum. Við þessa meðferð myndast misaldra skógur með 2-4 aldursflokkum trjáa eftir því hversu oft hafa verið felld tré á hverju svæði. Þessari aðferð hefur nú verið beitt í Vaglaskógi i hartnær 100 ár, sem er lengur en flest birkitré lifa. Gömlu trén, sem verið er að fella nú og breyta í arinvið til að hita pitsuofna og sumarbústaði landsmanna, hófu að vaxa eftir svipaða fellingu snemma á 20. öld. Allan þann tíma hefur skógurinn vaxið og dafnað án þess að gestir hafi tekið mikið eftir því að kynslóðaskipti yrðu hjá trjánum. 

Vaglaskógargirðingin hefur verið færð til norðurs út á Hálsmela í tveimur áföngum. Á eldri stækkuninni hefur þegar vaxið upp birkiskógur með sjálfsáningu en einnig hefur verið gróðursett í lerki- og furureiti. Yn yngra svæðið er Landgræðsluskógasvæði, mest gróðursett með lerki síðan 1990. Með því hefur Vaglaskógur tvöfaldast að flatarmáli og nær nú að þjóðvegi 1 austan Fnjóskár. Talsverða útbreiðslu birkis má nú sjá norðan vegar einnig og birkið er í mikilli framför beggja vegna Fnjóskár, yfir í Ljósavatnsskarð og víðar á svæðinu.

Annað áhugavert í skóginum

Bogabrúin yfir Fnjóská er fyrsta steinbrú sinnar tegundar hér á landi. Brúin var hönnuð og byggð árið 1908 af danska fyrirtækinu Christiani & Nielsen og var þá lengsti steinbogi á Norðurlöndum, 54,8 metrar. Hún var upphaflega aðeins ætluð fyrir ríðandi menn og hestvagna en var notuð fyrir almenna umferð til ársins 1968. Eftir það var hún aðeins ætluð léttri umferð en var á endanum lokað fyrir bílaumferð árið 1993 þegar hún var færð í sitt upprunalega horf. Það gerði Vegagerðin vegna sérstöðu mannvirkisins svo það gæti staðið sem minnisvarði gamallar verkmenningar og samgöngusögu.

Kort af skóginum

Með því að hlaða niður bæklingi um Vaglaskóg geturðu fræðst miklu meira um skóginn, gönguleiðir og skoðunarstaði, sögu, minjar og fuglalíf, fengið fróðleik um birki, ber og blóm, þjónustu og starfsemi í Vaglaskógi.

Vaglir á Þelamörk

Almennt um skóginn

Að mestu ræktaður skógur við þjóðveg 1 á Þelamörk í Hörgársveit skammt frá Akureyri. Unnið er að því að bæta skóginn með tilliti til útivistar, einkum með grisjun og skógvegagerð. Grisjunin er um leið snar þáttur í þroska skógarins sem nytjaskógar.

Staðsetning og aðgengi

Vaglir á Þelamörg eru við þjóðveg nr. 1, um 10 km norðan og vestan Akureyrar. Skógurinn er fyrir ofan veg og er aðkoma að honum yst (næst Akureyri). Brunnsvæði vatnsveitu Akureyrar er á Hörgáreyrum fyrir neðan skóginn.

Aðstaða og afþreying

Þjónustuslóðir liggja um skóginn og hægt er að ganga eftir þeim. Bílastæði er skammt ofan þjóðvegar, heldur frumstætt, og lítið annað hefur enn verið gert fyrir ferðalanga enn.

Saga skógarins

Um 1930 uppgötvaði Jónas Þór, forstjóri Gefjunar á Akureyri, nokkra jarðlæga birkianga í móa á Vöglum á Þelamörk þegar hann var þar í berjamó. Þetta þótti merkilegt því í öllum Eyjafirði vestanverðum var hvergi að finna birki nema innst inni í Leyningshólum og í Garðsárgili í Öngulsstaðahreppi hinum forna. Hafði Jónas Þór, ásamt Skógræktarfélagi Eyfirðinga, forgöngu um að fá að girða litla girðingu utan um birkið á Vöglum 1933. Árið 1934 gerði svo Skógræktarfélagið samning við landeiganda (ríkið) um leigu á 5 ha spildu til friðunar en Skógræktin tók við þeim samningi tveimur árum síðar að beiðni Skógræktarfélagsins. Girðingin var stækkuð um 50 ha 1972 og árið 1979 fékk Skógræktin afhenta jörðina alla. Núverandi skógræktargirðing nær utan um 156 hektara.

Trjárækt í skóginum

Sjálfsáð birki og víðir breiddist nokkuð út eftir friðun og þar sem fyrst var friðað er nú allhávaxinn birkiskógur á um 2 hekturum lands.  Gróðursetning hófst 1954 og hefur alls verið gróðursett í tæplega 50 hektara. Um 100 hektarar lands innan girðingar eru enn skóglausir en þar er reyndar birki víða að sá sér nú og mun það svæði að mestu breytast í birkiskóg á komandi áratugum. Timburnytjar eru þegar hafnar í skóginum með grisjun og hefur timbur frá Vöglum á Þelamörk verið selt sem iðnviður til Elkem á Grundartanga. Slík sala auðveldar grisjunina og dregur úr kostnaði við hana um leið og hún stuðlar að betri skógi.

Annað áhugavert í skóginum

Gott berjaland er á Vöglum á Þelamörk, bæði ofan skógar innan girðingar og ofan girðingar. Ýmsar fuglategundir má sjá í skóginum, bæði skógarfugla og mófugla. Einnig er ekki óalgengt að sjá uglu og smyril í skóginum.

Haukadalsskógur úr lofti. Mynd: Daði Björnsson.

Haukadalsskógur

Almennt um skóginn

Haukadalsskógur er einn stærsti þjóðskógur Suðurlands og sá sem mest hefur verið gróðursett í af þjóðskógum Íslands. Fjölmargar tilraunir í skógrækt hafa farið fram á svæðinu og gera enn, sem og skógvistarrannsóknir. Aðstaða til útivistar er góð. Meðal annars er sérhannaður stígur fyrir hjólastóla í skóginum sem unninn hefur verið í góðri samvinnu við Sjálfsbjörgu á Suðurlandi.

Staðsetning og aðgengi

Ekið er upp Biskupstungnabraut að Geysi, fram hjá hótelinu og beygt til vinstri upp með hverasvæðinu að austanverðu. Norður af bílastæði sem þar er liggur malarvegur að Haukadalsskógi og er leiðin inn að Haukadalskirkju rúmur kílómetri.

Hægt er að aka um hluta þessa ræktaða skógar sem teygir sig langleiðina upp á Haukadalsheiði, eitthvert víðáttumesta landgræðslusvæði landsins. Frá Haukadal liggur sæmilegur vegur upp á Haukadalsheiði á Hlöðufellsveg F338 (fjallvegur). Þaðan skiptast leiðir, á hægri hönd á Kjalveg en til vinstri á Kaldadalsveg.

Aðstaða og afþreying

Góð aðstaða er til útiveru í fögru og skjólsælu umhverfi. Í Haukadal hafa verið lagðir merktir göngustígar fyrir þá sem hafa áhuga á að kynnast skógi og skógarumhverfi. Við stígana eru fræðsluskilti með upplýsingum um skóga og náttúru í Haukadal. Í skóginum er m.a. sérhannaður stígur fyrir hjólastóla. Auk merktra göngustíga er fjöldi stíga og brauta sem fólki er heimilt að ganga um. Brautirnar eru aðeins ætlaðar dráttarvélum og ekki færar fólksbílum. Því er fólk beðið um að reyna ekki að aka þær.

Aðstaða er til að grilla í stóru grillhúsi sem nýlega var endurnýjað frá grunni. Almenningi er heimil notkun hússins en fá þarf leyfi fyrir skipulagða hópa. Húsið er eingöngu af viði úr sunnlenskum skógum. Salernisaðstaða er í skóginum fyrir gesti hans.

Saga jarðarinnar

Höfuðbólið Haukadalur er í eigu Skógræktarinnar. Danskur maður, Kristian Kirk, gaf stofnuninni jörðina árið 1940. Hann hafði keypt hana tveimur árum fyrr og hafist handa við að stöðva uppblástur og girða af. Jörðin er 1.600 ha að stærð og með henni fylgdu hlutar eyðibýlanna Bryggju og Tortu.

Á hólnum austan við kirkjuna stóð gamli Haukadalsbærinn. Hann er ekki lengur sjáanlegur á gamla bæjarstæðinu stendur nú fánastöng.

Kirkja hefur staðið í Haukadal frá alda öðli. Hún stendur enn á upphaflegum grunni á vesturbakka Beinár. Elstu heimildir um kirkju eru frá árinu 1121. Kirkjan var bændakirkja til 1290 en líklegt er að þá hafi staðurinn verið lagður undir Skálholtsstól. Hélst sú skipan þar til í lok 18. aldar að stólsjarðirnar voru seldar. Haukadalur var seldur á uppboði að Vatnsleysu 1. október 1794. Kirkjan hélst síðan í bændaeign til ársins 1940, að Skógræktin eignaðist hana ásamt jörðinni. Kristian Kirk lét endurbyggja kirkjuna árið 1938 en að stofni og útliti er hún frá 1842 og því með elstu timburkirkjum á landinu.

Haukadalur er sögufrægur staður. Þar námu land Þorbrandur Þorbjarnarson og Ásbrandur, sonur hans. Hallur Þórarinnson hinn mildi reisti bú í Haukadal árið 1025. Hjá honum ólst upp Ari fróði Þorgilsson og einnig ættfaðir Haukadalsættar, Teitur Ísleifsson. Skóli var í Haukadal á dögum Teits Ísleifssonar, fyrsti prestaskóli á Íslandi. 

Hallur Teitsson varð prestur í Haukadal árið 1110 og tók við búi föður síns. Sonur Halls var Gizur, lögsögumaður í Skálholti. Ættin sat Haukadal í 6 ættliði eða 174 ár, síðastur Ormur Klængsson d. 1284.

Trjárækt í skóginum

Í Haukadal hafa verið reyndar margar trjátegundir og enn fleiri kvæmi (staðbrigði) ýmissa trjátegunda, s.s. sitkagreni, stafafura og ösp frá Alaska, lerki frá Rússlandi, rauðgreni frá Noregi og blágreni úr háfjöllum Bandaríkjanna. Mest hefur verið plantað af þessum tegundum en einnig er í minni mæli notast við fjallaþin frá Bresku-Kólumbíu í Kanada, þöll frá Alaska, lindifuru frá Rússlandi og mýralerki frá Alaska, auk fleiri tegunda. Tilraunir hafa jafnframt verið gerðar með mismunandi aðferðir við skógrækt, svo sem gróðursetningu, jarðvinnslu og fleira, sem nýst hafa til þróunar og aukinnar þekkingar. Að sama gagni koma ýmsar aðrar skógræktartilraunir sem hafa verið gerðar í Haukadal, svo sem samanburðartilraunir með kvæmi, samanburðartilraunir og ræktun fjallaþins í jólatrjáaframleiðslu, frostlyftingartilraunir nýgróðursettra plantna, prófanir á grisjunarþéttleika skóga, könnun á nagi ranabjallna á rótum plantna, áburðartilraunir á nýgróðursettar plöntur o.fl.

Í skóginum er afar áhugavert trjásafn sem stofnað var til í minningu Gunnars Freysteinssonar skógfræðings sem lést í bílslysi 1998. Þar voru gróðursettar trjátegundir frá nokkrum heimsálfum og er svæðinu skipt upp samkvæmt því.

Í Haukadal er sitkagreni sú trjátegund sem sýnt hefur einna bestan vöxt, eða rúma fimm rúmmetra á hektara á ári að meðaltali. Ljóst er að rakur og frjósamur jarðvegur Haukadals er kjörlendi fyrir sitkagreni. Skógurinn er grisjaður og nytjaður í kurl, spæni og til smíða. Gildasti viðurinn sem fellur til við grisjun skóga hefur verið flettur og notaður til að smíða bekki og borð, og í klæðningar. Þá eru tekin að rísa hús á Íslandi með máttarviðum úr greni frá Haukadal. Dæmi um það er móttökuhús í Vallanesi á Héraði, hof ásatrúarmanna í Öskjuhlíð í Reykjavík og nýr eldaskáli og þjónusthús í Laugarvatnsskógi.

Annað áhugavert í skóginum

Sumarið 2002 hófst gerð skógarstíga fyrir hreyfihamlaða í Haukadalsskógi. Verkefnið var samvinnuverkefni Sjálfsbjargar á Suðurlandi og Skógræktarinnar.  Aðalbakhjarlinn var Pokasjóður verslunarinnar, en auk þess lögðu verkefninu lið Ferðamálaráð Íslands, Sjálfsbjörg á Suðurlandi, Landgræðslusjóður, Svæðisvinnumiðlun Suðurlands, Bændasamtök Íslands og sumarvinna Landsvirkjunar. Jafnframt unnu nemendur Menntaskólans að Laugarvatni og Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi við stíginn í sjálfboðavinnu.

Kort af skóginum

Hlaða niður bæklingi með gönguleiðakorti

 

Laugarvatnsskógur er steinsnar frá skólunum á staðnum og nýtist því vel til útikennslu og leikja. Mynd: Hreinn Óskarsson.

Laugarvatnsskógur

Allvíðáttumikill skógur, skemmtileg blanda birkikjarrs og gróðursettra tegunda.

Almennt um skóginn

Laugarvatnsskógur er einn af fyrstu skógum sem friðaðir voru fyrir beit hér á landi og er enn í umsjá Skógræktarinnar. Hann saman stendur af birkikjarri og gróðursettum lundum frá ýmsum tímum.

Staðsetning og aðgengi

Laugarvatnsskógur er í brekkunni fyrir ofan Laugarvatnsþorpið og teygir sig til vesturs fyrir ofan veginn um Lyngdalsheiði og til austurs inn fyrir tjaldsvæðið á Laugarvatni að landamerkjum Snorrastaða.

Aðstaða og afþreying

Stígar liggja um skóginn, m.a. frá tjaldmiðstöðinni á Laugarvatni sem er steinsnar frá ásamt sundlaug og ýmissi þjónustu. Aðstaða er fyrir fatlaða. Gönguleiðir liggja í nærliggjandi skóga og svæði. Í skóginum er nýr eldaskáli sem er þjónustuhús með snyrtingum og grillaðstöðu. Skálinn er fyrsta byggingin af þessum toga sem reist er eftir verðlaunatillögu úr samkeppni um áningarstaði í þjóðskógunum sem haldin var 2013. Hönnuðir mannvirkisins eru Hornsteinar arkitektar. Þegar eldaskálinn var vígður í Laugarvatnsskógi 11. maí 2018 var haldin hátíð í tilefni aldarafmælis fullveldis og gróðursett 100 tré í fullveldislund í skóginum. Skólarnir á Laugarvatni, frá leikskóla upp í framhaldsskóla, tóku þátt í hátíðinni ásamt sveitarfélaginu Bláskógabyggð og nemendur gróðursettu trén.

Saga skógarins

Skógurinn var friðaður á fyrstu árum skógræktar hér á landi. Ekki er ljóst nákvæmlega hvaða ár fyrsta girðingin var sett upp, en í skýrslu Agners Kofoed-Hansens skógræktarstjóra er tekið fram að fyrir 1912 hafi 3,3 ha verið girtir af og var sú girðing stækkuð í 75 ha árið 1914. Upphaflega voru á svæðinu illa farnar kjarrleifar, 1-2 m á hæð, og var svæðið friðað til að bjarga þeim frá eyðingu. Skógarnir í landi Laugarvatns eru hluti af skógarbelti sem nær frá Laugarvatni í vestri og alla leið inn í Haukadal. Telst þetta vera með stærsta samfellda birkikjarri landsins. Birkið breiddist hægt út í fyrstu en smám saman jókst útbreiðsla þess og nú er stærstur hluti Laugarvatnslands skógi vaxinn. 

Trjárækt í skóginum

Laugarvatnsskógur er blanda af birkikjarri og ýmsum gróðursettum tegundum. Er reyniviður áberandi víða um svæðið en Laugarvatnsskógur var einn af fáum vaxtarstöðum reyniviðar á Íslandi samkvæmt skýrslu Einars Helgasonar frá 1899. Eftir 1950 voru enn stór skóglaus svæði innan girðingarinnar og var þá hafist handa við að gróðursetja í þau, einkum þar sem birki var farið að mynda skjól. Var því haldið áfram næstu áratugina en aldrei mikið í einu. Síðast var gróðursett í Laugarvatnsskóg 1992. Laugarvatnsskógur segir á sinn hátt skógræktar- og skógverndarsögu Íslendinga.

Annað áhugavert í skóginum

Í skóginum eru tóftir a.m.k. 14 bygginga frá liðnum öldum. Flest eru þau beitarhús, til marks um að fé var haldið til vetrarbeitar í kjarrinu fyrr á öldum.

Stærstu aspirnar í Múlakoti eru sprottnar upp af rótum aspa sem kól í aprílhretinu fræga 1963. Þær eru með hæstu alaskaöspum á landinu, ef ekki þær hæstu. Mynd: Pétur Halldórsson.

Múlakot

Almennt um skóginn

Að Múlakoti var fyrsta gróðrarstöð Skógræktarinnar á Suðurlandi og er þar nú eitt elsta og fjölbreyttasta trjásafn Suðurlands. Í skóginum er að finna stórvaxin, gömul tré af ýmsum trjátegundum, sumum sjaldséðum. Auk græðireitsins, sem er í skjóli klettaveggjarins, tilheyrir þjóðskóginum u.þ.b. 13 ha svæði í brekkunni ofan kletts.

Staðsetning og aðgengi

Múlakot er í Fljótshlíð, skammt frá Hvolsvelli. Ekið er inn Fljótshlíð eftir vegi 261. Múlakotsreiturinn er undir kletti spölkorn norðan við veginn og austan við gamla Múlakotsbæinn.

Aðstaða og afþreying

Þægilegt er að ganga um reitinn allan fyrir neðan klett. Stigi er upp á efra svæðið og þar liggur göngustígur í skóginum.

Saga jarðarinnar

Múlakotsreiturinn var þriðja gróðrarstöð Skógræktarinnar á eftir stöðvunum á Hallormsstað og Vöglum og sú fyrsta á Suðurlandi. Árni Einarsson, bóndi í Múlakoti, „leigði“ Skógræktinni land undir gróðrarstöðina endurgjaldslaust. Gróðrarstöð var þó ekki rekin þar nema í rúm 10 ár því plöntuþörfin varð meiri en landrými í Múlakoti stóð undir. Úr varð að Skógræktin keypti jörðina Tumastaði í Fljótshlíð árið 1944 og stofnaði þar til gróðrarstöðvar en trjáplöntur voru seldar úr Múlakotsstöðinni fram undir 1950.

Skógræktin keypti Múlakotsreitinn, kvíabólið og brekkuna þar upp af árið 1990, alls um 13 ha lands.

Trjárækt í skóginum

Á árunum 1937-1939 var allmikið flutt inn af ungplöntum frá gróðrarstöðvum í Noregi og enduðu margar þeirra í Múlakoti. Þar á meðal var fyrsta sitkagrenið sem kom til Íslands, einnig fjallaþinur, álmur, askur, silfurreynir, gráreynir, gráelri, risablæösp, selja og viðja. Á stríðsárunum 1939-1945 varð sambandslaust við Noreg en sambönd mynduðust til Bandaríkjanna. Þaðan komu villiepli frá Alaska 1940 og fyrstu græðlingar alaskaaspar 1944. Fyrsta sáning lúpínu til landgræðslu var gerð á Þveráraurum skammt frá gróðrarstöðinni í Múlakoti 1945. Eftir það varð Múlakotsreiturinn og kvíabólið svokallað að safnreit fyrir ýmsar tegundir sem ekki var treystandi á að gætu lifað annars staðar. Með tímanum bættust því við sífellt fleiri tegundir.      

Þjóðskóginn í Múlakoti má með réttu kalla trjásafn og þar er að finna hæstu einstöku tré landsins af ýmsum tegundum, þar á meðal hæsta álminn, hæstu hengibjörkina, hæstu alaskaöspina og hæstu blæöspina. Í skóginum er að finna stórvaxin, gömul tré af sjaldséðum trjátegundum, s.s. aski, álmi, blæösp, hengibjörk, hlyni, fjallaþini og gullregni.

Annað áhugavert

Tilraunir voru gerðar með eplarækt í Múlakoti um 1950 en þær báru engan árangur og ekkert er eftir af eplatrjánum. Í apríl 1963 varð mikið hret eftir langvarandi hlýindi og í því kól aspirnar í Múlakoti illa. Þær voru allar felldar í kjölfarið. Aspirnar í Múlakoti, sem nú ná yfir 25 metra hæð, eru því rótarskot upphaflegu aspanna frá 1944 en aðeins er rétt að telja aldur núverandi stofna frá 1963.

Bratt er í skóginum á Kirkjubæjarklaustri en góð stígamannvirki sem felld eru inn í landslagið gera skóginn greiðfæran. Hér sést niður til bæjarins á Klaustri. Mynd: Hreinn Óskarsson.

Skógarreitur á Kirkjubæjarklaustri

Almennt um skóginn

Á Kirkjubæjarklaustri er alllöng hefð fyrir skógrækt og eru skógarlundir beggja vegna við Systrafoss. Í skóginum vex aðallega birki og sitkagreni. Fjölskyldan á Klaustri stofnaði til skógræktarinnar og er skógurinn í eign Klausturbænda. Á seinni árum hefur ýmsum trjátegundum verið bætt við, stígar gerðir í gegnum skóginn og borðbekkir settir upp. Hæsta tré á Íslandi vex í skóginum á Klaustri.

Staðsetning og aðgengi

Skógurinn á Kirkjubæjarklaustri er í brekkunni ofan við kauptúnið umhverfis Systrafoss.

Aðstaða og afþreying

Stígar hafa verið lagðir um reitinn og útbúnir áningarstaðir með bekkjum. Gönguleiðin að Systravatni  upp með Systrafossi liggur í gegnum skóginn. Einnig er torfarinn stígur að Sönghelli sem er undir klettum vestan við Systrafoss.

Saga skógarins

Upphaf skógarins má rekja til þess að heimafólk á Klaustri girti af brekkurnar ofan við bæinn og gróðursetti þar 60.000 birkiplöntur. Áttu hjónin Helgi Lárusson og Sigurlaug Helgadóttir stóran þátt í því að til skógarins var stofnað. Á næstu árum var bætt inn sitkagreni-, lerki- og furutrjám. Um 1964 var gerður samningur við Skógræktina um viðhald girðinga og umsjón með skóginum. Hefur Skógræktin á síðustu árum bætt aðgengi að skóginum auk þess að bæta við sjaldgæfum trjátegunum.

Trjárækt í skóginum

Mest er af birki og sitkagreni í skóginum. Á seinni árum hefur verið bætt við tegundum eins og hlyni, álmi, reynitegundum, aski, þöll og lífviði.

Annað áhugavert í skóginum

Hæsta sitkagrenitré landsins er að finna í reitnum við Kirkjubæjarklaustur og mældist það 30,15 m á hæð haustið 2022. Ekki er vitað um hærri tré á Íslandi. Skilti er við tréð og upplagt að láta taka mynd af sér við hæsta tré landsins og faðma tréð í leiðinni. Enginn veit hvað er að faðma tré nema sá sem reynt hefur.

Skilti

Hér fyrir neðan má sjá skilti sem sett var upp við skóginn sumarið 2013. Smellið á hlekkinn við myndina til að sjá pdf-skrá af skiltinu í fullri upplausn.

Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir.

Furulundurinn á Þingvöllum

Almennt um skóginn

Á Þingvöllum er víðáttumikið birkikjarr en einnig nokkrir gróðursettir skógarlundir.  Frægastur þeirra er Furulundurinn í Almannagjá. Þar var fyrst gróðursett 1899 og er Furulundurinn því einn fyrsti ræktaði skógurinn á Íslandi. Aðra lundi á Þingvöllum ræktuðu ýmsir hópar af margvíslegu tilefni. Þar má nefna Norðmannareiti og reiti Vestur-Íslendinga sem eru gjafir til íslensku þjóðarinnar. Skógræktin hefur umsjón með skógunum á Þingvöllum.

Staðsetning og aðgengi

Þingvellir eru í Þingvallaþjóðgarði norðan við Þingvallavatn, á bökkum Öxarár sem rennur eftir völlunum út í Þingvallavatn. Svæðið er vel merkt og aðgengilegt.

Aðstaða og afþreying

Þingvellir eru óþrjótandi uppspretta náttúru- og söguskoðunar, útivistar og skemmtunar. Í Furulundinum er aðstaða til að æja og snæða nesti.

Saga jarðarinnar

Þingvellir skipa sérstakan sess í hugum Íslendinga, enda áttu þar margir sögulegir atburðir sér stað, t.a.m. var Alþigni stofnað á Þingvöllum árið 930 og Íslendingar lýstu þar yfir sjálfstæði sínu árið 1944. Nú eru Þingvellir friðlýstir og í eigu íslensku þjóðarinnar. Staðurinn er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins og koma þangað hundruðir þúsunda gesta árlega.

Trjárækt í skóginum

Birkiskógur og birkikjarrr er einkennandi fyrir Þingvallasvæðið en alls hafa verið greindar 172 tegundir háplantna á svæðinu.

Furulundurinn í Almannagjá er fyrsta árangursríka skógræktartilraun á Íslandi (1899). Árið 1999 var fagnað 100 ára afmæli Furulundarins og upphafi skipulagðrar skógræktar á Íslandi. Að því tilefni var samþykkt samstarfsyfirlýsing milli Þingvallanefndar og Skógræktarinnar um eftirlit og umhirðu skóglendis innan þjóðgarðins.

verndun og grisjun skóga innan þjóðgarðsins á Þingvöllum

Einar Helgason garðyrkjufræðingur og Christian Flensborg, skógfræðingur hjá jóska heiðafélaginu, gróðursettu til lundarins á árunum 1899-1906. Mest var sett niður af kjarrfuru en einnig birki, reyniviður, elri, hvítgreni, rauðgreni, skógarfura, blæösp, lindifura, síberíuþinur, víðitegundir og fleira. Ljóst er að nokkrar uppréttar bergfurur leyndust innan um fjallafururnar, þótt þeirra sé ekki getið í skýrslum. Í skýrslum Islands Skovsag segir Flensborg frá miklum afföllum af plöntunum sem allar komu með skipi frá Danmörku. Hann tíundar hvers vegna vel yfir 10.000 plöntur voru gróðursettar í þennan litla reit sem ekki er nema einn hektari að stærð.

Hákon Bjarnason „þykist muna það rétt“ að 1917 hafi þarna verið fjallafurubeðja sem náði 10 ára snáða í knéhæð. Upp úr 1930 var fjallafuran komin á aðra mannhæð og farin að leggjast út af og brotna undan snjó. Illfært var um lundinn og hann var ekki til prýði. Var þá grisjað og meirihluti fjallafurunnar fjarlægður. Við það fengu bergfurur, lindifurur, hvítgreni, síberíuþinir og reynitré fyrst að njóta sín. Við grisjunina mynduðust einnig allstórar eyður sem í var gróðursett sitkagreni sumrin 1953 og 1954.

Furulundurinn á Þingvöllum er kenndur við fjallafururnar sem þar voru allsráðandi á fyrri helmingi 20. aldar. Þær upphaflegu eru nú fáar orðnar eftir en hafa sáð til sín og því má finna ungar fjallafurur á víð og dreif um lundinn. Af aldargömlu trjánum er mest af bergfuru en einnig er þar að finna glæsilegar lindifurur og sjaldgæfar tegundir, s.s. síberíuþin, silfurreyni og blæösp. Sitkagreni er þó stærst og stæðilegast þótt það sé helmingi yngra. Furulundurinn er því í raun orðinn mjög fjölbreyttur blandskógur, til marks um að skógur sé síbreytilegt ferli frekar en stöðugur og staðnaður hlutur.

Hákon Bjarnason sagði: „Við skógræktarmenn hljótum að líta þennan lund öðrum augum en flestir aðrir. Hann er lifandi minnismerki þeirra manna sem hófu starf það sem við reynum að rækja af trúmennsku og staðfestu, minnisvarði manna sem vildu gera byggðir landsins blómlegri og byggilegri en þær hafa nokkurn tíma verið, minnismerki manna sem vildu auka og bæta gróður lands vors, hefta eyðingu þess og örtröð, og því hlýtur hann að vera okkur heilagur minnisvarði. Vér þurfum að sjá til þess að hann úrrætist ekki svo að hér megi lengi sjá fyrstu handverk frukvöðla íslenskrar skógræktar.

Annað áhugavert

Fjölda áhugaverðra náttúruminja má sjá á svæðinu. Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá UNESCO, menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, árið 2004. Með samþykktinni eru Þingvellir meðal tæplega 800 menningar- og náttúruminjastaða sem taldir eru hafa einstakt gildi fyrir alla heimsbyggðina. Af þeim nátturuminjum sem eru á svæðinu má nefna flekaskil Atlantshafshryggjarins, gliðnun jarðskorpunnar, fjölbreytt lífríki Þingvallavatns, fugla- og dýralíf.

Kort

Frekari upplýsingar um þjóðgarðinn á Þingvöllum má finna á vefsíðunni thingvellir.is og kort má finna á kortavefsjánni.

Myndarlegur greniskógur í Þjórsárdalsskógi. Mynd: Pétur Halldórsson.

Þjórsárdalur

Almennt um skóginn

Náttúrleg umgjörð skógarins fylgir fjölbreyttu landslagi þar sem mætast miklar andstæður, allt frá blómlegum skógum að ógrónum öskuflákum úr Heklu. Skógurinn er að mestu birkikjarr, auk blandskóga af greni, furu og lerki. Kjörinn staður til útivistar, enda er í skóginum fjöldi merktra og ómerktra stíga og skógarvega.

Staðsetning og aðgengi

Þjórsárdalsskógur liggur vestan við þjóðveg 32 þar sem hann sveigir til austurs í átt að Búrfellsvirkjun. Hægt er að komast í skóginn af afleggjaranum að Ásólfsstöðum og einnig um göngubrú yfir Sandá spölkorn innar í dalnum. Tjaldsvæðið í Þjórsárdal er þar á milli og er vel merkt.

Aðstaða og afþreying

Í Þjórsárdal teygir skógur sig langt upp í hlíðar, landslag er fagurt,  fjölbreytt og sannkallaður ævintýrabragur er á því. Í skóginum eru fjölmargir merktir og ómerktir stígar og slóðar til umferðar fyrir ferðalanga og göngugarpa, ár til að sulla í og hraun til að skoða. Á svæðinu eru stígar færir hjólastólum, góð tjaldstæði og sundlaug er í Árnesi um 15 kílómetrum neðar í sveitinni.

Saga skógarins

Þjórsárdalur er austasti dalur Árnessýslu. Eftir honum renna Sandá og Fossá en Þjórsá fellur upp í dalsmynnið. Dalurinn er að mestu þakinn hrauni og vikri en talið er að mikill skógur hafi verið í honum öllum við landnám. Byggð í dalnum er talin hafa að mestu eyðst í Heklugosi árið 1104 en fundist hafa minjar um 20 bæi. Mikill hluti skógarins lifði gosið af og höfðu flestir bæir Árnessýslu og jafnvel víðar, skógartekju um árhundruð í Þjórsárdal. Mestir birkiskógar voru eftir í Skriðufelli og á Ásólfsstöðum og kölluðust Þjórsárdalsskógur.  Svo fór að skóglendið hvarf að mestu vegna rányrkju. Uppblástur geisaði í dalnum og var ekki óalgengt langt fram eftir 20. öld að moldrok úr Þjórsárdal bærist langar leiðir um Suðurland og byrgði sýn á Selfossi og víðar. Skógræktin keypti Skriðufell í Þjórsárdal árið 1938 og hluta úr jörðinni Ásólfsstöðum árið 1962. Þökk sé uppgræðslu- og skógræktarstarfi heyrir nú sögunni til að skyggni sé takmarkað vegna moldroks í Þjórsárdal.

Trjárækt í skóginum

Eftir friðun hafa birkiskógar breiðst út frá þeim 200 ha skógar sem voru til staðar árið 1939 og yfir meira en 600 ha nú. Gróðursett var innan um kjarrið í Þjórsárdal fram undir 1990 en eftir það var farið að fikra sig með gróðursetningu niður á sandana. Grisjun fyrstu gróðursettu reitanna er farin að skila umtalsverðum tekjum með sölu viðarins, enda vöxtur trjáa góður í Þjórsárdal. Skógræktin rekur sögunarmyllu í starfstöð sinni að Skriðufelli.

Skógrækt á söndum Þjórsárdals er nú hluti Hekluskógaverkefnisins. Hugmyndin með verkefninu er að endurheimta birkiskóga og víðikjarr í nágrenni Heklu. Sá gróður myndi minnka vikurfok í kjölfar gjóskugosa úr eldfjallinu og verja þar með land í nágrenni fjallsins fyrir jarðvegseyðingu. Skógur þolir umtalsvert öskufall sem legði skóglaust land í auðn. Með skógrækt má því minnka að mun áhrif öskugosa á gróðurþekju í nágrenni eldfjalla.

Annað áhugavert

Þriðji hæsti foss landsins, Háifoss í Fossá (122 m), fellur innst í dalnum. Annar þekktur foss, Granni, fellur fram af sömu bjargbrún við hlið Háafoss. Mun neðar í Fossá er síðan Hjálparfoss sem er tvískiptur foss í kvos einni á móts við Búrfell. Skógræktin hefur umsjón með umhverfi Hjálparfoss og hefur unnið þar að umfangsmiklum landbótum, gerð stígamannvirkja og annarrar aðstöðu til að staðurinn þoli sívaxandi ferðamannastraum.

Bærinn að Stöng var grafinn upp árið 1939. Reist var skýli yfir rústirnar svo nú er hægt að gera sér í hugarlund hvernig eldstæði og annað innan stokks leit þar út á söguöld.

Stóri-Endi séð yfir í Bása á Goðalandi aldamótaárið 1900. Mynd: Howell.

Þórsmörk

Almennt um skóginn

Leiðin að Þórsmörk er nokkuð torfær og góður jeppi er því nauðsynlegur ef aka skal á Þórsmörk. Þangað má líka taka rútu, hjóla eða ganga. Ferðalagið er vel þess virði því Þórsmörk er einhver fegursti staður á Íslandi. Svæðið er stórbrotið með fjölbreyttu landslagi og ævintýralegum skógi – þeim sem kemst næst náttúrulegum birkiskógi hér á landi. Skálar og tjaldsvæði eru í umsjón ferðafélaga.

Staðsetning og aðgengi

Mörkin er  hálendistunga vestur af Mýrdalsjökli á milli Krossár og Markarfljóts, í rúmlega 150 km fjarlægð frá Reykjavík. Goðaland liggur inn af Þórsmörk.

Beygt er af Suðurlandsvegi til norðurs inn á þjóðveg 249 við Seljalandsfoss. Mælt er með því að fólk ferðist á Þórsmörk á öflugum fjórhjóladrifnum farartækjum sem hátt er undir, enda er farið yfir ár og læki á leið þar inn eftir.

Aðstaða og afþreying

Þórsmörk er þekkt útivistarparadís á Suðurlandi og vinsæll ferðamannastaður.

Skálar og tjaldsvæði eru í umsjón ferðafélaga. Skáli Ferðafélags Íslands er í Langadal (Skagfjörðsskáli), skáli Kynnisferða í Húsadal og Farfuglar eru með skála í Slyppugili. Á svæðinu eru sturtur og baðlaug fyrir lúna ferðamenn. Tjaldstæði eru í Langadal, Össugili í Húsadal, Slyppugili, Stóra-Enda og Litla-Enda. Í Goðalandi er Útivist með skála og tjaldstæði í Básum.

Merktir göngustígar eru víða um svæðið og suðurendi hins svo kallaða Laugavegar er á Þórsmörk, en hann er talinn meðal 10 bestu gönguleiða í heimi.

Saga skógarins

Árið 1919 fóru 40 bændur úr Fljótshlíð fram á það að Skógræktin tæki að sér vörslu Þórsmerkur og girti landið af því að það væri í stórhættu vegna uppblásturs. Var landið afhent Skógræktinni og var Þórsmörk girt árið 1924 ásamt nálægum afréttum.  Árið 1990 var girðingin flutt mun vestar og lokar nú ein girðing við Gígjökul öllu Þórsmerkursvæðinu fyrir beit. Við friðunina hefur landið tekið miklum stakkaskiptum og hefur birki dreift sér um alla Mörkina og á nálæga afrétti. Undanfarinn aldarfjórðung hefur útbreiðsla birkisins á Þórsmörk rúmlega tvöfaldast, úr fjórum ferkílómetrum í tíu.

Trjárækt í skóginum

Merkur er árangur beitarfriðunar og sjálfboðavinnu í uppgræðslu undanfarna áratugi. Birki hefur bæði sáð sér á Krossáraura og í yfir 500 m hæð í fjallshlíðum, t.d. í Tindfjöllum. Lítið var gróðursett af innfluttum trjátegundum á svæðinu en þó er það að finna ýmsar tegundir á nokkrum stöðum. Talsvert er enn um rofið land sem unnið er í að græða upp. Sjálfboðaliðahópar fólk hvaðanæva úr heiminum vinna þrekvirki á hverju sumri að viðhaldi og gerð stígamannvirkja og að landbóta- og uppgræðslustarfi. Leitast er við að mannvirkin falli sem best í landslagið og í mannvirkin er eingöngu notað íslenskt timbur úr skógum Skógræktarinnar.

Annað áhugavert á svæðinu

Náttúra er stórbrotin á Þórsmörk, fjölbreytt og um leið fögur. Sjá má jökla, jökulár, hamragil, tinda, dali, skóg og fjölgresi.

Frá Þórsmörk liggja margar vinsælar og fjölfarnar gönguleiðir, m.a. Laugavegurinn og Fimmvörðuháls.

Á Valanhnjúki er hringsjá í  458 m hæð.

Starfsfólk Skógræktarinnar í kynnisferð í sitkagreniskógi á Tumastöðum. Mynd: Pétur Halldórsson.

Tumastaðir

Almennt um skóginn

Á Tumastöðum er eingöngu gróðursettur skógur, enda var land þar gjörsamlega skóglaust þegar Skógræktin tók við því. Eldri reitir eru í brekkunum nálægt gróðrarstöðinni en víðáttumikil svæði hafa verið tekin til skógræktar á undanförnum áratugum og er þar stórskógur í uppvexti.

Staðsetning og aðgengi

Tumastaðir eru í Fljótshlíð, 9 km frá Hvolsvelli. Ekið er eftir vegi 261, sömu leið og þegar farið er í Múlakot. Tumastaðir standa norðan við veginn.

Aðstaða og afþreying

Um skóginn liggja slóðir sem hægt er að ganga eftir og áningarstaður er við Lýðveldislundinn.

Saga skógarins

Gróðrarstöð Skógræktarinnar var stofnuð á Tumastöðum árið 1944. Seinna  bættust jarðirnar Tunga og Stóri-Kollabær við þjóðskóginn og nær land Skógræktarinnar nú upp á tind Þríhyrnings.

Trjárækt í skóginum

Tumastaðir voru upphaflega gróðrarstöð í eigu Skógræktarinnar, reist 1944. Þar var þá land skóglaust með öllu. Meðal fyrstu verka var að gróðursetja sitkagrenilund í brekkuna; þann fyrsta á Íslandi sem í voru fleiri en örfá tré. Hefur hann síðan gengið undir nafninu Lýðveldislundurinn þar sem hann var gróðursettur í júní 1944. Alla tíð síðan hefur verið bætt við gróðursetningar á svæðinu og setja nú yngri reitir æ meiri svip sinn á landið. Sitkagreni er sú tegund sem ber af á þessu svæði og vöxtur þess er geysigóður. Það er þess virði að heimsækja Tumastaði og sjá hvernig hægt er að umbreyta rýru beitilandi í stórvaxinn, fjölbreyttan skóg með opnum svæðum. Þar er einnig trjásafn með fjölmörgum trjátegundum og gott aðgengi með stígum og slóðum. Frægarður sitkagrenis er á Tumastöðum með úrvalstrjám sem gefa fræ á komandi árum og efnivið sem er enn betur lagaður að íslenskum aðstæðum en það sitkagreni sem hingað til hefur verið notað hérlendis. Í gróðurhúsi á Tumastöðum hefur verið efnt til fræframleiðslu 'Emblu', kynbætts yrkis íslenska birkisins, sem er beinvaxið og hraðvaxta. Þar er einnig miðstöð stiklingaræktunar hjá Skógræktinni.

Annað áhugavert í skóginum

Á Tumastöðum hafa verið ræktaðar trjátegundir sem óvíða finnast í íslenskri skógrækt. Má þar nefna ask, eik, marþöll og margar fleiri.

Arnaldsstaðaskógur

Almennt um skóginn

Arnaldsstaðaskógur í Fljótsdal er náttúrlegur birkiskógur blandaður reynivið. Skógurinn hefur verið fáfarinn hingað til, en þetta er lítt snortinn náttúruskógur sem óhætt er að hvetja áhugasama til að sækja heim.

Staðsetning og aðgengi

Arnaldsstaðaskógur er í Suðurdal Fljótsdals. Beygt er af vegi 934 í suðvestur, inn á slóða er liggur norðan megin við Kelduá. Ganga þarf upp bratta hlíð til að komast í skóginn.

Aðstaða og afþreying

Ekkert hefur verið gert í þágu ferðalanga í Arnaldsstaðaskógi. Hér ræður villibjörkin ríkjum.

Saga skógarins

Skógurinn var fyrrum beittur en var friðaður þegar hann komst í eigu Skógræktarinnar árið 1977.

Trjárækt í skóginum

Skógurinn er í 30-300 metra hæð yfir sjó í óvenjumiklum bratta þar sem skriðuföll geta orðið. Meðalhæð birkis er yfir 5 m og hæstu tré eru um 10 m há. Ekkert hefur verið gróðursett í skóginn.

Annað áhugavert

Botngróður er blanda af gras- og blómlendi, geithvönn er víða og óvenjumikil. Göngufólk kemst í návígi við hrikalegt landslag í bröttum skriðum.

 

Skógarhögg í Hallormsstaðaskógi. Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir.

Hallormsstaðaskógur

Almennt um skóginn

Hallormsstaðaskógur er talinn stærstur skóga á Íslandi, þekur um 740 ha og er í eigu Skógræktarinnar. Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði í fjölbreyttu landslagi. Í skóginum eru um 40 km af gönguslóðum og mikið af merktum gönguleiðum. Trjásafn með yfir 70 trjátegundum er einnig að finna á Hallormsstað. Atlavík er einn kunnasti staður í landi Hallormsstaðar og voru löngum haldnar þar útisamkomur. Þar eru vinsæl tjaldsvæði, bátaleiga og ferjan Lagarfljótsormurinn sigldi um skeið á milli víkurinnar og Egilsstaða. Á Hallormsstað er aðsetur skógarvarðarins á Austurlandi og starfstöð Skógræktarinnar. Í skóginum er þorp, það eina í skógi á Íslandi.

Staðsetning og aðgengi

Hallormsstaður er um 27 km frá Egilsstöðum, á austurströnd Lagarfljóts um 5 km utan við Fljótsbotninn, þar sem Jökulsá í Fljótsdal fellur í Fljótið. Ef ekið er frá Egilsstöðum er farið til suðvesturs um veg 95 þar til komið er að vegamótum við Grímsá. Í stað þess að beygja til vinstri þar sem vegur 95 liggur áfram inn Skriðdal er haldið áfram til hægri, yfir Grímsá og inn með Lagarfljóti í átt að Hallormsstað. Einnig er hægt að aka hinum megin við fljótið, en sú leið er nokkru lengri og ekki bundið slitlag á veginum alla leið.

Aðstaða og afþreying

Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði í fjölbreyttu landslagi. Í skóginum eru um 40 km af gönguslóðum og margar merktar gönguleiðir sem finna má á gönguleiðakorti. Fjölskylduvænt trjásafn með yfir 70 trjátegundum er einnig að finna á Hallormsstað. Í skóginum er hin víðkunna Atlavík þar sem löngum voru haldnar útisamkomur en þar er nú vinsælt tjaldsvæði. Ferjan Lagarfljótsormurinn sigldi um tíma á milli Atlavíkur og Egilsstaða og í víkinni hefur líka verið rekin bátaleiga. Í skóginum er auk þess að finna leiktæki og góð grillsvæði.

Kort af frisbígolfvellinumFrisbígolfvöllur með níu körfum er milli Atlavíkur og Guttormslundar. Gengið er frá bílastæðinu við Guttormslund og niður í lundinn þar sem fyrstu körfuna er að finna. Völlurinn er á skemmtilegu svæði þar sem er að miklu leyti bjartur, grisjaður lerkiskógur en líka birkiskógur. Við gerð teiganna var að sjálfsögðu notað timbur úr skóginum og í stað gerviefna var sett viðarkurl sem yfirborðsefni.

Frisbígolfvöllurinn í Hallormsstaðaskógi nýtur nú þegar töluverðra vinsælda og hann er kominn inn á vefinn Wikiloc þar sem hægt er að skoða völlinn betur, afstöðu hans á korti. Hringurinn er rétt rúmlega kílómetri að lengd en fólk sem spilar allan völlinn gengur auðvitað miklu lengri leið samanlagt. Þetta er því góð leið til að njóta lífsins í skóginum.

Það sama má segja um fjallahjólaleiðina í Hallormsstaðaskógi sem líka er hægt að finna á Wikiloc. Hún er rúmlega fimm kílómetra löng og byrjar við Hallormsstaðaskóla rétt ofan við ísbúðina sem allir sjá sem fara um skóginn. Hjólað er upp í Bjargselsbotna og þaðan liggur skemmtileg leið niður á við, um tveggja kílómetra fjallahjólabrun í fjölbreyttu landslagi með fallegu útsýni yfir Lagarfljót og Fljótsdalshérað. Þegar komið er niður liggur leiðin um skóg til baka að Hallormsstaðaskóla. Þetta er skemmtileg leið og flestum fær sem hafa gaman af léttu fjallahjólabrölti en þó ekki fyrir óvana. Miðlungs erfið leið.

Saga jarðarinnar

Árið 1899 samþykkti Alþingi lög sem heimiliðu friðun Hallormsstaðaskógar og náði sú friðun loks fram að ganga 1905. Hallormsstaðaskógur var þar með fyrsti þjóðskógur Íslands og var þetta jafnframt fyrsta skref Íslendinga í náttúruvernd, því skógurinn var friðaður til að vernda „einasta kjarrskóg á Íslandi sem hefur varðveist allsæmilega“ svo notuð séu orð Christians Flensborgs frá árinu 1901.

Árin 1905 til 1908 var girt frá Lagarfljóti beggja vegna frá hamrabelti í fjallinu ofan við bæinn, sem í daglegu tali er nefnt „Bjarg“, en það reyndist ekki nægileg vörn fyrir ágangi sauðfjár og því var girt betur árið 1925. Tveimur árum síðar var girt utan um syðsta hluta skógarins, svonefnda Ljósárkinn, sem skilin hafði verið eftir 1908. Þá var einnig girt skóglaust svæði er nefnist Geitagerði, þar sem reist var eftir seinni heimsstyrjöldina nýbýlið Sólheimar. Ekki var þó um algera beitarfriðun að ræða, því að nautgripir gengu frjálsir í skóginum til 1941. Árið 1957 var girðingin ofan við nyrsta hluta skógarins færð upp á svokallað Votabjarg, sem er sá hluti fjallsbrúnarinnar sem nær að Hafursá. Þar með var friðun Hallormsstaðalands lokið að svonefndum Ásum sem taka við suðvestan skógarins.

Árið 1947 keypti Skógræktin jörðina Hafursá, sem er næst Hallormsstað að norðanverðu. Jörðin var leigð til ábúðar næstu áratugina, en árin 1959 og 1960 var girt mjó spilda af landi hennar ofan þjóðvegarins að Lagarfljóti.  Áður en gengið væri frá ristarhliði á þjóðveginum á norðausturgafli girðingarinnar, gerðist það að eigendur Mjóaness, næstu jarðar norðan við Hafursá, ákváðu að afhenda Skógræktinni til afnota land þessarar jarðar milli þjóðvegar og Lagarfljóts, að undanskildu svæði kringum túnin. Girt skyldi ofan þjóðvegar. Lokið var við að girða þetta land 1964.  Hafði þá bæst um 5 km löng spilda út með Lagarfljóti við friðlandið á Hallormsstað. Gróðursetning í þessa nýju spildu hófst 1965 og var langt komin um 1980.

Trjárækt í skóginum

Nú, rúmri öld eftir friðun skógarins, er Hallormsstaðaskógur enn stærsti og þekktasti skógur landsins. Árið 1906 þakti birki um 250 ha innan girðingarinnar og eftir friðun tók það strax til við að breiðast út. Nú þekur birkiskógur um 350 ha lands innan sömu girðingar auk þess sem aðrar trjátegundir hafa verið gróðursettar í 200 ha. Þá hafa stór svæði bæst við Hallormsstaðaskóg á seinni árum; Hafursá/Mjóanes til norðurs, þar sem gróðursettir hafa verið miklir lerkiskógar og Ásar/Buðlungavellir til suðurs, þar sem sjálfsgræðsla birkis er í algleymingi.

Fjölskylduvænt trjásafn með yfir 70 trjátegundum er að finna á Hallormsstað en alls eru í skóginum um 85 trjátegundir frá um 600 stöðum víðs vegar um heiminn.

Annað áhugavert

Um verslunarmannahelgi árið 1984 sótti einn meðlima Bítlanna, Ringo Starr, árlega útihátíð sem þar fór fram og steig á svið með hljómsveitinni Stuðmönnum.

Í tilefni af 100 ára afmæli friðunar Hallormsstaðaskógar árið 2005 kom út bókin Hallormsstaður í Skógum: Náttúra og saga höfuðbóls og þjóðskógar eftir þá Hjörleif Guttormsson og Sigurð Blöndal.

Í Hallormsstaðaskógi stendur „Hríslan“ sem Páll Ólafsson gerði fræga í kvæði sínu, Hríslunni og læknum.

Kort af skóginum

Gönguleiðakort og gönguleiðalýsingar af Hallormsstaðaskógi

 

Greniskógurinn í Jórvík er farinn að taka vel við sér enda skilyrði góð. Mynd: Þór Þorfinnsson.

Jórvík í Breiðdal

Almennt um skóginn

Jórvík í Breiðdal er eyðibýli með stórum kjarrlendum. Um 600 ha eru í eigu Skógræktarinnar en skógurinn var friðaður 1960. Hér er einn af fáum fundarstöðum blæaspar á landinu og eru hæstu trén um 4 m. Landið er annars að mestu vaxið náttúrulegu birkikjarri en gróðursettum skógi að hluta. Svæðið er opið almenningi og merkt gönguleið er frá Jórvík yfir í Norðurdal.

Staðsetning og aðgengi

Jórvík er í Suðurdal í Breiðdal, norðan ár undir fjallinu Tó. Jörðin stendur við þjóðveg 1 og skógurinn er því í alfaraleið.

Aðstaða og afþreying

Merkt gönguleið er frá Jórvík yfir í Norðurdal. Að örðu leyti er landið nægilega opið til að auðvelt sé að fara um það. Sumarið 2011 var komið upp grillaðstöðu fyrir almennig við veginn upp að gamla Jórvíkurbænum og er hún ætluð öllum gestum sem vilja njóta dagstundar í skóginum.

Saga skógarins

Árið 1958 var Skógræktinni gefinn hluti jarðarinnar. Í ársskýrslu stofnunarinnar það sama ár skrifar Hákon Bjarnason: 

„Á þessu ári barst Skógrækt ríkisins mikil og góð gjöf. Systkinin þau, sem áttu Jórvík í Breiðdal, þau Hannes M. Þórðarson, Björgvin Þórðarson, Bjarni A. Þórðarson og Sigríður Þórðardóttir, gáfu nærri allt skóglendi þeirrar jarðar til friðunar og ræktunar. Væntanlega verður lokið við friðun landsins snemma á árinu 1960, svo gróðursetning gæti hafist á því ári.“

Þessi hluti jarðarinnar, allur ofan þjóðvegar, var girtur 1960-1961. Girðingin er 8,2 km löng og innan hennar eru 500 ha. Árið 1963 eignaðist Skógræktin svo 1/4 af óskiptu landi jarðarinnar fyrir utan skógargirðinguna.

Trjárækt í skóginum

Á þeim árum sem jörðin var gefin var skógræktarland mjög torfengið. Hákon Bjarnason, þáverandi skógræktarstjóri, ákvað því að gróðursetja skyldi í landið. Gróðursetning hófst árið 1962 og var þá mest gróðursett af blágreni. Auk þess var gróðursett rauðgreni, sitkagreni og hvítgreni. Tveimur árum síðar var aftur gróðursett og í það skiptið hvítgreni, blágreni, broddfura, gráelri, evrópulerki o.fl. tegundir. Árið 1966 voru þrjár tegundir gróðursettar, rauðgreni, hvítgreni og birki.

Í dag er birkikjarrið í skóginum að mestu lágvaxið og kræklótt en blæöspin er mesta gróðurstolt Jórvíkur ásamt grenireitum sem nú eru komnir í góðan vöxt.

Annað áhugavert í skóginum

Gamli bærinn í Jórvík þykir merkileg bygging og á undanförnum árum hefur verið unnið að endurbótum á honum. Húsið  er tvílyft timburhús, klætt bárujárni. Torfveggir voru hlaðnir að veggjum norðan og austan við húsið. Sunnan við var viðbygging, sennilega fjós og hlaða. Skógræktin gerði samning við Björn Björgvinsson húsasmíðameistara um endurbyggingu hússins í Jórvík og Húsafriðunarsjóður veitti framlag til endurbyggingarinnar. Ekki hefur verið ákveðið hvernig húsið verður nýtt og það er ekki til sýnis en velkomið að ganga að því.

Fjallahringurinn í innanverðum Breiðdal er stórkostlegur á björtum degi. Breiðdalur er gósenland jarðfræðiáhugafólks með fornum eldstöðvum, stórbrotnum, litríkum bergmyndunum. Einkennandi er líparít í fjöllunum. Hæstu fjöll Breiðdals eru um 1.100 metra há.

Vatnshornsskógur

Almennt um skóginn

Vatnshornsskógur, sunnan við Skorradalsvatn innanvert, er sannkölluð náttúruperla. Hann er vöxtulegasti náttúrlegi birkiskógur á Vesturlandi með gömlum og stórvöxnum trjám í þéttum skógi.

Staðsetning og aðgengi

Vatnshornsskógur er í innanverðum Skorradal, sunnan Skorradalsvatns. Jeppafærir vegir liggja að honum og vegurinn að utan er að heita má fólksbílafær á sumrin ef farið er með gát. Séu gengnar Síldarmannagötur úr Hvalfirði er komið niður í Skorradal hjá Vatnshorni, rétt austan við Vatnshornsskóg.

Aðstaða og afþreying

Vatnshornsskógur er náttúruskógur og er reynt að gera sem minnst til að spilla þeirri stöðu. Þess vegna hafa hvorki verið lagðir stígar né gerðir áningarstaðir í skóginum. Fólki er frjálst að ganga um skóginn en þess er vænst að það taki aðeins myndir og skilji aðeins eftir fótspor.

Saga skógarins

Hluti skógarins gengur einnig undir nafninu Klausturskógur, eftir skógartekju Viðeyjarklausturs. Búskapur í grennd við skóginn hefur verið fremur lítill lengi vel og nú er hann alfriðaður innan girðingar sem umlykur stóran hluta Skorradals. Vatnshornsskógur hefur hvorki verið nytjaður til viðartekju né vetrarbeitar undanfarin 50-60 ár og sumarbeit sauðfjár hefur verið lítil.

Skógræktin og Skorradalshreppur unnu saman að því að kaupa jörðina Vatnshorn árið 1995 til að forða Vatnshornsskógi frá því að verða skipt upp í sumarhúsalóðir. Skógræktin lét reisa girðinguna sem nú friðar skóginn fyrir beit og lagði til að skógurinn yrði settur á fyrstu náttúruverndaráætlun umhverfisráðuneytisins árið 2004. Hinn 29. janúar 2009 var Vatnshornsskógur formlega lýstur friðland samkvæmt náttúruverndarlögum. Helsta markmið friðlýsingarinnar er að framvinda skógarins fái að halda áfram án inngripa þannig að með tímanum líkist skógurinn þeim skógum sem tóku á móti landnámsmönnum fyrir um meira en 1.100 árum. Vatnshornsskógur verður þannig ómetanleg uppspretta þekkingar á náttúrlegum birkiskógavistkerfum.

Suðaustan við Vatnshornsskóg er jörðin Bakkakot en þar er skógur sem einnig er í umsjá Skógræktarinnar.

Trjárækt í skóginum

Vatnshornsskógur er sannkölluð náttúruperla. Hann er vöxtulegasti náttúrlegi birkiskógur á Vesturlandi með gömlum og stórvöxnum trjám í þéttum skógi. Botngróður er mikill og fuglalíf við ósa Fitjár er afar fjölbreytt. Á svæðinu er að finna sjaldgæfar gróðurtegundir, m.a. fléttu eina sem aðeins hefur fundist á birkinu í Skorradal, deilitegund við flókakræðu sem kölluð er birkikræða (Alectoria sarmentosa ssp. sarmentosa).

Vatnshornsskógur hefur fengið að þróast að mestu óáreittur um talsvert langan tíma og er því farinn að fá ýmis einkenni frumskógar. Ferð um skóginn veitir þá upplifun að maður sé staddur í ósnortnum skógi en það er þó örlítil blekking. Vatnshornsskógur er, eins og flestir íslenskir skógar, vaxinn upp eftir að skógarhögg til eldiviðar lagðist af á 4.-5. áratug síðustu aldar.

Skógurinn er óvenjugóður birkiskógur. Í neðanverðri brekkunni eru víða allstórvaxin birkitré á vesturlenskan mælikvarða, eða allt að 6-7 m há. Skógarbotninn er gróskumikill og þar má finna burknabreiður sem er óvanalegt í íslenskum skógum en burknar eru meðal fyrstu plöntutegunda sem hverfa við teljandi beit.

Annað áhugavert á svæðinu

Í Skorradal er allmikil sumarhúsabyggð og svæðið vinsælt til útivistar. Á síðustu árum hefur fólk tekið upp á því að hjóla eða jafnvel skokka í kringum Skorradalsvatn og liggur leiðin þá um Vatnshornsskóg. Að hjóla eða skokka Skorradalshringinn er góð og heilsusöm leið til að verja deginum.

Mógilsá í Kollafirði

Almennt um skóginn

Fjölmargir hafa farið um skógana í Esjuhlíðum á leiðinni á toppinn, en sjálfsagt hafa færri komið í skóginn í kringum og fyrir ofan aðsetur Mógilsár, rannsóknasviðs Skógræktarinnar. Þar er blandaður skógur og merkt klónasafn Mógilsár. Fjölmargir stígar og stíganet tengist Esjustígum.

Staðsetning og aðgengi

Mógilsá er við þjóðveg 1, innst í Kollafirði. Beygt er af þjóðveginum við Esjustofu og strax til hægri. Eftir spölkorn á afleggjaranum með fram tjörninni er heimreiðin að Mógilsá á vinstri hönd.

Aðstaða og afþreying

Fjölmargir stígar liggja um skóginn, yfir læki og bakka, skógi vaxnar hlíðar í umgjörð Esju, eins vinsælasta útivistarsvæðis höfuðborgarinnar. Stíganetið á Mógilsá tengist Esjustígum (sjá kort að neðan) en margir minni stígarnir eru í raun tilvalið tilbrigði við hefðbundna Esjugöngu; styttri Esjuganga í sjálfu sér.

Saga jarðarinnar

Árið 1967 var ákveðið að efla rannsóknir í þágu skógræktar á Íslandi og var reist rannsóknarhús á jörðinni Mógilsá í Kollafirði fyrir þjóðargjöf frá Norðmönnum. Tilefni þjóðargjafarinnar var heimsókn Ólafs V. Noregskonungs til Íslands árið 1961. Eðlilegur þáttur í skógræktarrannsóknum er að reyna nýjar trjátegundir og hefur mikið af því efni endað í brekkunni fyrir ofan við húsakynni Mógilsár. Þar er því einhver fjölbreyttasti skógur landsins og margt forvitnilegt að sjá.

Trjárækt í skóginum

Skógurinn er einna mestur í kringum hús rannsóknasviðs á Mógilsá og nú er hann formlega orðinn trjásafn með tegundum víða að úr heiminum. Í skóginum eru m.a. fágætar tegundir eins og linditré, broddhlynur, nordmannsþinur, svartelri og risalerki, svo eitthvað sé nefnt, en flestar trjátegundir eru merktar.

Annað áhugavert í skóginum

Á Mógilsá er fjölbreytt fuglalíf á vorin og í byrjun sumars, enda koma margir flækingar við á Mógilsá. Landslag í undirhlíðum Esju er skemmtilegt, með hólum, giljum og lækjum.

Kort af skóginum

Stíganetið á Mógilsá tengist Esjustígum, eins og sjá má á kortinu. Litmerktum leiðum er lýst í gönguleiðabæklingi Mógilsár sem m.a. má nálgast á Mógilsá og í Esjustofu. Rétt er að vekja athygli á því að leiðirnar eru miserfiðar og þær erfiðustu sem liggja upp úr skóginum og alla leið á Esjubrún geta verið varasamar í bleytutíð og á vetrum. Lesið vandlega leiðarlýsingar og farið eftir leiðbeiningum í hvívetna. Gott er að skilja eftir ferðaáætlun á safetravel.is áður en lagt er upp.

Hlaða niður bæklingi með gönguleiðakorti

Download a leaflet with hiking trail map

Selskógur

Almennt um skóginn

Skemmtileg tjaldstæði í birkikjarri. Ganga má víða um skógarvegi. Barrtré ríkjandi, rauð- og sitkagreni.

Staðsetning og aðgengi

Selskógur er spilda úr landi Indriðastaða, sunnan við Skorradalsvatn. Ef komið er yfir Dragháls úr Svínadal má fljótt sjá Selskóg í Skorradal á vinstri hönd.

Aðstaða og afþreying

Í skóginum er tjaldsvæði í umsjón Indriðastaða í kjarri vöxnu landi. Allt um kring er ýmist kjarr eða gróðursettur skógur og hægt er að ganga um skóginn eftir þjónustuslóðum er um hann liggja.

Saga skógarins

Skógræktin eignaðist Selskóg árið 1959 og var þar þá gisið birkikjarr. Á næstu áratugum var gróðursett í meirihluta landspildunnar, sem er 44 ha að flatarmáli. Á meðan hefur birkikjarr þést og breiðst út á nærliggjandi svæðum.

Trjárækt í skóginum

Mest var gróðursett af rauðgreni og síðan sitkagreni í Selskógi og hefur sitkagrenið vaxið mun hraðar. Nokkur sala jólatrjáa hefur verið úr skóginum og umtalsverð grisjun er hafin.

Annað áhugavert í skóginum

Sellækur rennur um skóginn og fram hjá tjaldsvæðinu.

Norðtunguskógur

Almennt um skóginn

Norðtunguskógur er 156 ha skógur í Þverárhlíð í Borgarfirði. Hann vex á flatlendi í dalbotninum og er blanda birkikjarrs og gróðursetts skógar.

Staðsetning og aðgengi

Auðvelt er að komast að Norðtunguskógi, en Þverárhlíðarvegur nr 522 liggur fram hjá honum. Frá hliði við veginn liggur stutt heimreið að bústaðnum Skógarkoti í skóginum, en fyrir flesta borgar sig að leggja bílnum við veginn og ganga inn í skóginn.

Aðstaða og afþreying

Skógarkot er sumarbústaður í Norðtunguskógi sem er leigður starfsfólki Skógræktarinnar. Að öðru leyti er skógurinn opinn almenningi. Í skóginum eru víða þjónustustígar sem hægt er að fara um.

Saga skógarins

Í Norðtunguskógi voru hrörnandi birkikjarrleifar á fyrri hluta 20. aldar. Fyrsta hlutverk Skógræktarinnar í skóginum var að aðstoða landeiganda við að girða og friða kjarrleifarnar fyrir beit 1928-1929. Stofnunin keypti síðan Norðtunguskóg árið 1948.

Trjárækt í skóginum

Gróðursetning barrtrjáa hófst í Norðtunguskógi um 1950. Útbúinn var græðireitur til að geyma trjáplöntur og þróaðist hann yfir í að vera gróðrarstöð sem rekin var fram yfir 1980. Fram á 9. áratug 20. aldar var gróðursett í hluta kjarrlendisins en meirihluti þess stendur þó eftir og hefur það þést og hækkað. Allmikið hefur fengist af jólatrjám úr Norðtunguskógi. Í skóginum hafa einnig verið gerðar tilraunir með grisjun, m.a. á stafafurureitum.

Annað áhugavert í skóginum

Nokkrar af elstu birkihríslum í skóginum hafa vaxið upp í mikla stærð á mælikvarða birkis á Vesturlandi sem víðast hvar er mjög lágvaxið og kræklótt.

Stálpastaðaskógur

Almennt um skóginn

Um þennan vinsæla, hlíðótta skóg liggja göngustígar með um þrjátíu merktum trjátegundum frá sjötíu stöðum á jörðinni. Áningarborð eru á nokkrum stöðum.

Staðsetning og aðgengi

Stálpastaðaskógur er í norðanverðum Skorradal, svo til fyrir miðju Skorradalsvatns.

Aðstaða og afþreying

Í Stálpastaðaskógi er trjásafn með um þrjátíu merktum trjátegundum frá sjötíu stöðum á jörðinni. Margar fallegar gönguleiðir er að finna í skóginum og áningarborð eru á nokkrum stöðum.

Saga jarðarinnar

Stálpastaðaskógur er á samnefndri 345 ha eyðijörð í Skorradal. Hún hefur verið í eigu Skógræktarinnar frá 1951 þegar hjónin Haukur Thors og Soffía Lára Hafstein Thors ánöfnuðu Skógræktinni landið og var skógurinn þá friðaður. Árið 1971 var reist minnismerki um gjöf þeirra. Minnismerkið stendur miðsvæðis á Stálpastöðum, rétt við þjóðveginn. Sagt er að jörðin hafi aldrei hentað vel undir hefðbundinn búskap, þar sem hún er meira og minna ein brekka, en öðru máli gegnir um skógræktina.

Trjárækt í skóginum

Jörðin var fyrrum kjarri vaxin en mikið hefur verið gróðursett á henni frá sjötta áratug síðustu aldar. Byrjað var á því að grisja kjarrið sem fyrir var í landinu og gróðursetja í það. Stærstu hríslurnar voru látnar standa og mynduðu þær skjól fyrir nýju plönturnar. Frá árinu 1952 hafa verið gróðursettar á Stálpastöðum rúmlega 600.000 plöntur af 28 tegundum frá 70 stöðum úr veröldinni á rúmlega 100 hekturum lands. Nokkrir einstaklingar hafa í áranna rás gefið fé til uppbyggingar á Stálpastöðum. Hafa þessar gjafir oft ráðið miklu um hversu miklu Skógræktin gæti fengið áorkað á Stálpastöðum. Árið 1952 gáfu hjónin Ingibjörg og Þorsteinn Kjarval peningaupphæð sem varið var til gróðursetningar. Í nokkur ár kringum árið 1955 gaf Ludvig G. Braathen, stórútgerðarmaður í Ósló, fé sem notað var til gróðursetningar á Stálpastöðum. Einnig má nefna gjöf sem nemendur Bændaskólans á Hvanneyri gáfu til minningar um skólastjóra sinn, Halldór Vilhjálmsson. Þau svæði sem gróðursett hefur verið í fyrir þessar gjafir hafa verið nefnd eftir gefendunum. Á Stálpastöðum má því  finna Kjarvalslund, Braathenslund og Halldórslund. Þá hafa stórfyrirtæki styrkt einstaka verkþætti, ýmist með peninga- eða vinnuframlagi.

Nú vaxa a.m.k. 30 trjátegundir á Stálpastaðajörðinni, mest af rauðgreni og sitkagreni. Úr skóginum eru tekin mörg stærstu jólatorgtré landsins. Áhersla var frá upphafi lögð á að gróðursetja sitkagreni og er nú á Stálpastöðum mesti skógur þeirrar tegundar á landinu, þótt á síðustu áratugum árum hafi sitkagreni verið gróðursett í stærri svæði annars staðar.

Stálpastaðaskógur er fyrst og fremst dæmigerður timburskógur. Þar fæst mikil og dýrmæt reynsla í ýmsum efnum sem snerta timburframleiðslu úr sitkagreni hér á landi. 

Annað áhugavert

Stálpastaðaskógur er og verður mikilvægur vettvangur rannsókna og fræðslu. Tengist það ekki síst nálægð hans við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, þar sem háskólanám í skógfræði fer fram. Af einstökum rannsóknaverkefnum sem unnin hafa verið á vegum skólans í samvinnu við Skógræktina og fleiri má nefna verkefnið Skógvist þar sem markmiðið var að skilgreina áhrif nýskógræktar á vistkerfi. Nálægð Stálpastaðaskógar við Hvanneyri kemur sér vel í slíkum verkefnum.

Í Skorradalsvatni má veiða bæði urriða og bleikju.

Kort af skóginum

Hér má hlaða niður bæklingi með gönguleiðakorti

Jafnaskarðsskógur við Hreðavatn

Almennt um skóginn

Jafnaskarðsskógur er eitt best varðveitta útivistarleyndarmál landsins, innan við klukkustundar akstur frá höfuðborginni. Skemmtilegur göngustígur með góðu útsýni liggur um skóginn, þar sem m.a. sést vel yfir hið fallega Hreðavatn. Svæðið er kjörinn staður til að eyða deginum með fjölskyldunni.

Staðsetning og aðgengi

Til að komast í skógana er beygt til versturs af þjóðvegi 1 í Grábrókarhrauni, skammt sunnan við Bifröst. Jafnaskarðsskógur er í brekkunni suðvestan við Hreðavatn. Ekið er fram hjá Hreðavatnsbænum, þar sem yngri skógur er að vaxa upp. Ekið er suður með vesturströnd Hreðavatns, fram hjá nokkrum sumarbústöðum, áður en komið er að merktu bílastæði í skóginum. Vegurinn er fær öllum bílum.

Aðstaða og afþreying

Um 1995 var lagður göngustígur um Jafnaskarðsskóg. Hann liggur um hávaxinn skóg og kjarrivaxnar hlíðar, með fram fossóttum giljum og upp á hæðir þar sem opnast stórkostlegt útsýni í allar áttir. Göngustígurinn í Jafnaskarðsskógi er einn sá besti á landinu, með hæfilegri blöndu af léttum og nokkuð bröttum köflum. Rúma klukkustund tekur frískt fólk að ganga hann allan.

Saga jarðarinnar

Skógræktin keypti jörðina Jafnaskarð árið 1939. Fjórum árum seinna var jörðin seld aftur en 150 hekturum skóglendis haldið eftir. Sama ár, 1943, var bátur keyptur svo hægt væri að komast yfir Hreðavatn með girðingarefni að skóginum. Upphaflega voru þar lágvaxnar kjarrleifar og var landið keypt til að friða þær, auk þess sem hugmyndir voru uppi um að Jafnaskarð yrði aðsetur skógarvarðarins á Vesturlandi en aldrei varð úr því. Skógarvörðurinn hafði aðsetur á Hreðavatni um tíma en starfstöð hans er nú í Hvammi Skorradal.

Trjárækt í skóginum

Þar sem land í Jafnaskarðsskógi var ágætlega gróið var sjálfsáning birkisins hæg þrátt fyrir friðun. Þegar gróðursetning innfluttra trjátegunda hófst að ráði um 1950 var Jafnaskarðsskógur enn mjög gisinn og því var talsvert gróðursett þar. Mest var gróðursett af rauðgreni og skógarfuru og nokkuð af sitkagreni og stafafuru. Skógarfuran drapst að miklu leyti vegna furulúsar og er því lítið af henni eftir. Rauðgrenið óx fremur hægt framan af en er nú komið í góðan vöxt. Sitkagrenið hefur vaxið best enda voru betri svæði valin fyrir gróðursetningu þess auk þess sem sitkagreni er hraðvaxnari tegund að upplagi. Með tímanum hefur birkikjarrið einnig breiðst út og þekur það nú stærstan hluta svæðisins.

Annað áhugavert á svæðinu

Hreðavatn er nokkuð stórt stöðuvatn við skóginn, eða 1,14 m2 og dýpst um 20 m. Veiðileyfi fást að vatninu en í því er smávaxin bleikja og urriði.

Fyrir ofan og innan Hreðavatnsbæinn má finna gamlar surtarbrandsnámur. Þar má einnig finna plöntusteingervinga frá hlýviðrisskeiðum tertíertíma.

Vestan vatnsins sunnan til ganga skógivaxnir ásar þverskornir grasivöxnum geilum, og eru í þeim miklar brekkur vaxnar fjölbreyttum gróðri. Þarna kemur Kiðáin niður í Hreðavatnið í snotru gljúfri og verða æðimiklar grundir við vatnið.

Steinsnar frá skóginum er Bifröst með háskólasetur og hótel, einnig gjallgígurinn Grábrók og Norðurá með marga fallega staði að skoða, Fossinn Glanna, Paradísarlaut og fleira. Af hæðum og ásum ofan skógarins er stórbrotið útsýni til Eiríksjökuls, Langjökuls og Oks. Suður og vestur frá Okinu sjást meðal annars Fanntófell, Skjaldbreið, Botnssúlur og svo Skarðsheiði. Einnig má ganga á Vikrafell. Þaðan blasir Baula við, Tvídægra, Arnarvatnsheiði, Hofsjökull, Eiríksjökull og önnur fjöll í þá átt en til vesturs sér á Langavatn og yfir Langavatnsdal.