Upphafsmynd myndbandsins sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur gefið út um varnir gegn gróðureldu…
Upphafsmynd myndbandsins sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur gefið út um varnir gegn gróðureldum

Snemma árs og fram í sumarbyrjun er eldhættan mest í gróðurlendi. Mikilvægt er að huga vel að brunavörnum og eiga handhægan búnað sem fljótlegt er að grípa til ef eldur kviknar í gróðri. Skógræktin tekur ásamt nokkrum öðrum stofnunum, fyrirtækjum og samtökum þátt í að efla fræðslu um varnir gegn gróðureldum. Út er komið fræðslumyndband hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um þessi efni.

Mest er eldhættan í gróðurlendi af dauðu efni frá fyrra ári sem legið hefur og þornað, svo sem sinu og dauðum trjágreinum en líka grisjunarefni sem skilið hefur verið eftir, jafnvel hrúgað upp í og við skóga þar sem það hefur fengið að þorna, sem ætti að forðast að gera. Lifandi gróður á miðju sumri er aftur á móti ekki mjög eldfimur. Til dæmis er ekki auðvelt að kveikja í lifandi trjám í skógi. En ef eldur nær á annað borð að magnast og breiðast út, til dæmis í sinu og öðru dauðu efni, getur hitinn orðið svo mikill að einnig kviknar í lifandi gróðri, þar á meðal trjám. Þá er erfitt að ráða við eldinn.

Þess vegna er allramikilvægast að koma í veg fyrir að eldur kvikni í gróðurlendi og í öðru lagi að fólk sé viðbúið strax og slíkur eldur kviknar. Þá þarf að eiga búnað til að slökkva eld í fæðingu en líka hafa í huga flóttaleiðir, eiga símanúmer hjá nágrönnum í sumarbústaðabyggðum og þess háttar. Á þessa hluti er bent í nýju  myndbandi sem komið er út á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Myndbandið er hluti af átakinu Eldklár sem stofnunin hefur forystu um. Fyrstu viðbrögð við gróðureldi ef ekki tekst að kæfa hann í fæðingu eru alltaf að hringja í neyðarnúmerið 112 og láta fólk í nágrenninu vita.

Klöppur

Tvær sinuklöppur festar á vegg sumarhúss, til taks ef eldur kviknar í gróðri. Mynd af vef EldvarnamiðstöðvarinnarEitt það mikilvægasta sem þarf að vera til í sumarhúsum, á bændabýlum og víðar þar sem fólk býr eða dvelur á gróðursælum svæðum eru svokallaðar klöppur eða sinuklöppur. Þetta eru eins konar kústar úr málmi eða öðrum óeldfimum efnum sem nýtast vel til að bæla niður sinueld og annan gróðureld áður en hann fer úr böndunum. Góðar skóflur úr málmi koma líka að góðum notum. Þessi verkfæri má ekki fela í geymslum þar sem þau geta týnst undir öðru dóti. Klöppur eða skóflur ætti að festa upp á hús- eða skjólveggi þar sem hver sem er getur gripið til þeirra þegar þörf krefur. Eldvarnamiðstöðin er helsti seljandi þessara vara hérlendis. Garðslanga eða vatnsfata getur líka dugað til að kæfa lítinn eld í fæðingu.

Margt í deiglunni

Nú er unnið að þýðingu bókar um varnir gegn gróðureldum sem ætluð er til fræðslu og þjálfunar lögreglufólks, slökkviliða og björgunarsveita. Veðurstofan vinnur að áframhaldandi þróun og útvíkkun á viðvörunarkerfi sínu þar sem hugmyndin er að taka meðal annars gróðureldahættu með í spilið. Í undirbúningi er líka útgáfa á fræðsluefni um gróðureldavarnir í frístundabyggðum. Hvað varðar skóga og skógrækt hefur Skógræktin unnið að því að koma eldvörnum inn í skógræktaráætlanir, meðal annars með því að hugað verði að flóttaleiðum, skógarvegir verði merktir á kort eftir burðarþoli með tilliti til þyngri farartæki á borð við slökkvibíla, að hugað verði að vatnstökustöðum og fleiru.

Oft má slökkva gróðureld í fæðingu með klöppu, skóflu eða jafnvel vatnsfötu. Ef hann breiðist út skal strax hringja í 112 og láta nágranna vita. Skjámynd úr myndbandi HMSÞað er því margt í deiglunni en mörgu ólokið. Aðalatriðið er að koma í veg fyrir að gróðureldar kvikni. Það gerum við fyrst og fremst með því að fara varlega með eld, nota örugg eldstæði, fylgjast með hvort neistar berast frá eldstæðum, eða grillum, hafa eldhættu í huga þegar unnið er með slípirokka eða önnur tæki sem gefa frá sér eld, henda ekki sígarettustubbum í gróðurlendi og þess háttar. Bílvél í gangi getur gefið frá sér svo mikinn hita að eldur kviknar, til dæmis út frá pústkerfi. Bílar eða vélar sem taka niðri á grjóti geta gefið neista sem kveikir gróðureld. Glerflaska í sólskini getur verkað eins og stækkunargler og kveikt í sinu. Allt þetta þarf að hafa í huga og vera viðbúin ef eldur kviknar. Hér neðst

Texti: Pétur Halldórsson

Eldklár - kynningarspjald