Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Fjölbreytt og þverfagleg meistaraverkefni við rannsóknir er tengjast endurheimt birkiskóga eru nú í boði innan verkefnisins Endurheimt birkivistkerfa á 21. öld - áskoranir, leiðir og ávinningur (BirkiVist) sem nýlega hlaut styrk úr markáætlun um samfélagslegar áskoranir. Að verkefninu standa Landbúnaðarháskóli Íslands, Landgræðslan, Háskóli Íslands, Listaháskóli Íslands, og Skógræktin í samstarfi við við fleiri stofnanir, sprotafyrirtæki og aðra aðila á sviði landgræðslumála.

Að útbreiða birkivistkerfi landsins á ný er mikilvæg leið til að varðveita líffjölbreytni og gefur möguleika á mikilli kolefnisbindingu úr andrúmsloftinu í jarðvegi og gróðri. Markmið BirkiVistar er að stuðla að endurheimt birkivistkerfa í stórum stíl og greina umhverfislegan og samfélagslegan ávinning þess. Áhersla er lögð á þverfræðilega nálgun og að niðurstöðurnar nýtist til að þróa vistfræðilegar og stjórnsýslulegar lausnir og verkfæri til að auka skilvirkni við þessi verkefni. Afrakstur verkefnisins á að styrkja stefnumótun á sviði umhverfismála og stuðla að því að Ísland geti uppfyllt markmið Parísarsamkomulagsins og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Verkefnin 6

Í boði eru sex meistaraverkefni (5-10 mán. laun hvert). Nemar í verkefninu verða skráðir við deild náttúru og skóga við Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) og líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands (HÍ) eins og fram kemur hér að neðan. Námsverkefnin eru:

  • Meistaranemi 1 (LbhÍ). Verkefnið er þverfaglegt og krefst grunn vistfræðiþekkingar. Verkefnið snýst um að greina kerfislæga og samfélagslega þætti sem hafa jákvæð eða neikvæð áhrif á vernd og endurheimt birkivistkerfa og nýta niðurstöðurnar til að þróa verkferla til að bæta samsetningu og virkni stjórnkerfisins (e. governance system) sem tengist vernd, endurheimt og nýtingu birkivistkerfa (umsjónarm. Þórunn W. Pétursdóttir, thorunn.petursdottir@landgraedslan.is.
  • Meistaranemi 2 (LbhÍ). Verkefnið er þverfaglegt og krefst grunnþekkingar á vistfræði. Verkefnið snýst um að meta mikilvægi og áhrif ólíkra haghafa á vernd og endurheimt birkivistkerfa, greina samfélagslegar áskoranir og tækifæri og skoða hvernig stuðla má að árangursríkri þátttöku og samstarfi haghafa þvert á geira. Umsjónarmaður er Jónína S. Þorláksdóttir, joninasth@lbhi.is.
  • Meistaranemi 3 (HÍ). Verkefnið er þverfaglegt og felst í að skoða í gegnum viðtöl viðhorf og upplifanir fólks af afmörkuðum svæðum birkivistkerfa og greina á grundvelli þeirra fagurferðilegt gildi landslagsins á svæðunum. Verkefnið byggist á notkun bæði eigindlegra og megindlegra rannsóknaraðferða. Umsjónarmenn eru Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, gudbjorgr@lhi.is og Edda R.H. Waage, erw@hi.is.
  • Meistaranemi 4 (HÍ). Verkefnið byggir á greiningu lífríkis í jarðvegi á ólíkum stigum í framvindu birkiskóga. Athuganir á DNA í jarðvegi (eDNA) verða notaðar til að greina helstu hópa örvera, sveppa og heilkjörnunga og hvernig samsetning þeirra tengist gróðurframvindunni. Umsjónarmenn eru Edda Sigurdís Oddsdóttir, edda@skogur.is, og Snæbjörn Pálsson, snaebj@hi.is.
  • Meistaranemar 5 og 6 (HÍ). Annað verkefnið miðar að greiningu á á stöðu birkiskóga meðal helstu landslagsgerða á Íslandi og sjónrænum einkennum en meginmarkmið hins verkefnisins er að lýsa þeim sjónrænu breytingum sem verða þegar birki vex upp á skóglausu landi og greina tengsl milli líffræðilegrar fjölbreytni og sjónrænnar fjölbreytni í landslagi. Gagnasöfnun verður sameiginleg fyrir bæði verkefnin. Umsjónarmaður Þóra Ellen Þórhallsdóttir, theth@hi.is.

Upplýsingar og skilyrði

Nemendur fá tækifæri til að vinna saman í öflugum rannsóknahópi með vísindafólki frá mörgum stofnunum óháð því í hvaða deild þeir eru skráðir.

Æskilegt er að umsóknir berist sem fyrst en tekið verður áfram við umsóknum þar til búið er að finna nemendur í öll verkefnin. Miðað er við að verkefnin hefjist ekki síðar en í júní 2021.

Umsækjendur um meistaraverkefnin skulu hafa lokið BS- eða BA-námi á viðeigandi sviði. Ferilskrá og einkunnir úr grunnnámi skulu fylgja umsókn.

Athugið að mörg verkefnanna krefjast umtalsverðar útivinnu og ferðalaga víða um land, sem kallað geta á samfellda fjarveru í langan tíma. Reynsla af vettvangsvinnu er æskileg. Sjálfstæð vinnubrögð og hæfni til að vinna sem hluti af teymi eru nauðsynleg.

Umsóknir og fyrirspurnir skal senda á umsjónarmenn viðkomandi námsverkefna (sjá hér að ofan) eða á verkefnisstjóra, Ásu L. Aradóttur, asa@lbhi.is.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson