Samsett mynd með talnaefni úr nýútkomnum hagtölum um norrænu skógana: SNS
Samsett mynd með talnaefni úr nýútkomnum hagtölum um norrænu skógana: SNS

Jafnvel þótt á Norðurlöndunum sé einungis að finna 1,6 prósent af skógarþekju heimsins eru þetta mjög mikilvægir skógar fyrir heiminn allan. Af öllum timburvörum og pappír á heimsmarkaðnum koma koma sextán prósent frá Svíþjóð og Finnlandi og fjórtán prósent af allri kvoðu til pappírsgerðar. Þetta er meðal staðreynda sem finna má í hagtölum norrænna skóga sem nýkomnar eru út í aukinni mynd frá fyrstu útgáfunni 2020.

Forsíða ritsinsHver skyldi vera algengasta ræktaða nytjatrjátegundin á Íslandi? Svarið við þessu er meðal þess sem er að finna í ritinu nýja sem ber enska titilinn Nordic Forest Statistics 2023. Fram kemur að á Íslandi sé nú unnið að því að efla líffjölbreytni landsins og draga úr landrofi með því að stækka skóglendi landsins á ný. Sú nytjatrjátegund sem mest hefur verið gróðursett á landinu er rússalerki.

Löng hefð er fyrir virkum skógarnytjum í sérstaklega Svíþjóð og Finnlandi. Mörgum kann að koma á óvart sú staðreynd að jafnvel þótt þessar skógarnytjar hafi stóraukist í báðum þessum löndum hefur nýtanlegur viðarforði tvöfaldast þar síðustu hundrað árin. Í Finnlandi eru fjórir hektarar af skógi á hvern íbúa landsins. Í Evrópu að Norðurlöndunum frátöldum eru einungis 0,2 hektarar af skógi á mann. Þessar tölur segja sína sögu.

Norrænu skógarnir eru mikilvægir fyrir líffjölbreytni Evrópu og þá sérstaklega samfellda rótgróna skóglendið sem er að finna í norðanverðri Skandinavíu. Sextíu og tvö prósent af öllu skóglendi Evrópu sem nýtur algjörrar verndar er að finna í skógum Norðurlandanna, fyrst og fremst þó í Finnlandi og Svíþjóð. Þar fyrir utan eru Svíþjóð, Noregur og Finnland einu Evrópulöndin þar sem líffjölbreytni er skilgreind yfir viðmiðunarmörkum heimsins.

Skýrslan nýja með hagtölum um norrænu skógana er 53 síður að stærð. Þar er að finna upplýsingar í anda þess sem hér er rakið að framan, tölur um stærð auðlindanna, iðnað sem tengist skógum og skógrækt, verslun með skógarafurðir, verðlag, umhverfi og loftslagsmál. Ritið gefur skýra heildarmynd af norræna skógargeiranum og gerir kleift að bera norrænu löndin saman frá ýmsum sjónarhornum.

Allar töflur og gröf í ritinu byggjast á opinberu talnaefni en í sumum tilfellum hafa höfundarnir sérstaklega matreitt slíkt efni fyrir útgáfu ritsins, þeir Mats Hannerz og Håkan Ekström. Útgefandi er Norrænar skógrannsóknir (SNS) sem reknar eru með fjármagni frá Norrænu ráðherranefndinni. Ritið er öllum aðgengilegt og ókeypis.

Frétt: Pétur Halldórsson
Heimild: SNS