Ljósmyndir: Aðsendar myndir úr Feyki
Ljósmyndir: Aðsendar myndir úr Feyki

Hópfjármögnun á Karolinafund vegna endurbóta á Blettinum á Hvammstanga tókst vel og safnaðist ein milljón króna.

Sagt var frá því í héraðsfréttablaðinu Feyki 7. júní að hópfjármögnun væri hafin á Karolinarfund vegna viðhalds á Blettinum á Hvammstanga. Bletturinn er skógræktarsvæði sem Hvammstangabúarnir Ingibjörg Pálsdóttir og Sigurður Helgi Eiríksson hófu að rækta 1958. Þar hafa þau unnið mikið starf æ síðan en verkið hefur reynst þeim erfiðara síðustu ár vegna aldurs. Nú þarfnast Bletturinn mikils viðhalds og umhirðu.

Takmarkið var að ná að safna 8.500 evrum eða rúmri milljón íslenskra króna. Þegar söfnuninni lauk í upphafi júlímánaðar var takmarkinu náð. Féð verður nýtt til að gera svæðið aðgengilegra fyrir gesti og gangandi. Lagfæra þarf göngustíga og brýr yfir læki, endurbæta snyrtingar og sömuleiðis þarf að gera við sláttuvélar og dráttarvélar.

Ingibjörg Pálsdóttir og Sigurður H. Eiríksson, oftast kölluð Lilla og Siggi, hafa búið á Hvammstanga öll sín búskapaár og lagt mikið til ungmennastarfs og annarra félagsmála sem þau gera enn þótt komin séu níræðisaldur. Fyrir 60 árum fengu þau úthlutað landi til ræktunar, grýtt tún sem ekki var talið nýtilegt til búskapar. Þar sem áður var hrjóstrugur blettur er nú gróskumikið ræktunarsvæði sem gengur einmitt ætíð undir heitinu Bletturinn.  Þar er að finna trjátegundir frá öllum heimshornum, sumar hverjar sjaldséðar á Íslandi, gróðurhús þar sem helst eru ræktaðar mismunandi tegundir af plómum og fjöldan allan af lundum þar sem hægt er að setjast niður og njóta náttúrunnar.

Ánægjulegt er að sjá samtakamátt fólks verða til þess að viðhalda mikilvægum gróðurreitum eins og Blettinum á Hvammstanga og stuðla þannig að betri vitund um mikilvægi skógræktar fyrir land og lýð. Skógur.is óskar þeim Lillu og Sigga og öllum íbúum Húnaþings vestra til hamingju með áfangann og sextíu ára afmæli Blettsins.

Texti: Pétur Halldórsson