Af Síðu. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Af Síðu. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Á síðasta starfsdegi Alþingis fyrir sumarleyfi, föstudaginn 9. júní, var samþykkt frumvarp um sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í nýja stofnun sem á að heita Land og skógur. Sameiningin gengur í gildi um áramótin.

Frumvarp Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um málið fór átakalaust gegnum nefndastörf og umræður á þinginu. Við aðra umræðu lagði Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fram breytingartillögu þar sem lagt var til að hin nýja stofnun myndi heita Folda en við þriðju umræðu dró hann tillöguna til baka. Heitið verður því Land og skógur eins og ráðherra lagði til í frumvarpinu.

Gert er ráð fyrir að sameiningin verði um næstu áramót og á næstunni verður auglýst eftir forstjóra hinnar nýju stofnunar. Núverandi skógræktarstjóri og landgræðslustjóri munu starfa með nýjum forstjóra þar til að sameiningunni kemur. Undirbúningur sameiningarinnar hefst af krafti með haustinu. Ekki er þó gert ráð fyrir að miklar breytingar verði strax um áramótin. Starfsfólki verður ekki sagt upp og engum starfstöðvum lokað.

Sameiginlegur fundur ráðherra með starfsfólki Skógræktarinnar og Landgræðslunnar verður á fimmtudag, 15. júní.

Texti: Pétur Halldórsson