Unnið að lagningu skíðagönguspors í Haukadalsskógi. Ljósmynd frá Heilsueflandi Uppsveitum
Unnið að lagningu skíðagönguspors í Haukadalsskógi. Ljósmynd frá Heilsueflandi Uppsveitum

Skíðagöngubrautir hafa verið troðnar í Haukadalsskógi frá því fyrir jól og hefur skíðagöngufólk tekið þeim fagnandi. Útlit er fyrir gott færi næstu daga og nægur snjór er í skóginum.

Skíðagöngusporin í HaukadalsskógiVerkefnið Heilsueflandi Uppsveitir kynnti fyrir jól skíðagönguspor sem þá höfðu verið troðin á tveimur stöðum, annars vegar á golfvellinum Selsvelli við Flúðir og hins vegar í Haukadalsskógi. Á Selsvelli eru tvær brautir, einn kílómetri og þrír kílómetrar. Sporin í Haukadalsskógi má líka segja að séu tvö. Annars vegar er spor sem liggur frá Geysi og inn í skóginn þar sem það liggur í hlykkjum og smáhringum. Það spor er að segja má á jafnsléttu en hitt sporið liggur frá starfstöð Skógræktarinnar í skóginum og um skóginn þar norður af hjá svokallaðri Tortumýri en sameinast svo aftur hinu sporinu við Beiná skammt frá Haukadalskirkju. Þetta spor er meira krefjandi í hæðóttu landslagi. Ekki er hægt að treysta því að komast á fólksbíl á bílastæðið í Haukadalsskógi í snjóum og því er upplagt að leggja við Geysi og ganga í skíðasporinu þaðan.

Starfsfólk Skógræktarinnar í Haukadalsskógi er til taks og aðstoðar við lagningu brautanna í skóginum eftir þörfum en annars eru brautirnar þar og á Selsvelli við Flúðir í umsjón Heilsueflandi uppsveita en skíðasporin í Haukadalsskógi eru líka gerð í samvinnu við Hótel Geysi. Sporin í Haukadalsskógi voru troðin 28. desember en nýjustu fréttir af endurnýjun brautanna má finna á Facebook-síðu Heilsueflandi Uppsveita.

Texti: Pétur HalldórssonSkíðagöngubraut troðin í Haukadalsskógi 28. desember 2023. Ljósmynd frá Heilsueflandi Uppsveitum