Ummerki jarðvinnslu hverfa á fáeinum árum en gildi jarðvinnslunnar fyrir lifun trjáplantna og þar me…
Ummerki jarðvinnslu hverfa á fáeinum árum en gildi jarðvinnslunnar fyrir lifun trjáplantna og þar með árangur í skógrækt eru ótvíræð. Hér sést ársgömul TTS-herfing í frjósömu graslendi. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson
Grein eftir Úlf Óskarsson sem birtist í Heimildinni 12. nóvember 2023

Verkefni mannkyns á næstu árum og áratugum er að hægja á aukningu CO2 í andrúmsloftinu, fyrst og fremst með því að minnka losun vegna bruna jarðefnaeldsneytis, en einnig með því að stöðva eyðingu skóga heimsins og auka bindingu í gróðri og jarðvegi, m.a. með nýskógrækt. Ísland er aðili að alþjóðlegum samningum og aðgerðaáætlunum með skilgreind loftslagsmarkmið sem ætlað er að ná mælanlegum árangri.

Stjórnvöld á Íslandi hafa um árabil talið fram bindingu skóga í loftslagbókhaldi landsins. Þessi binding dregst frá losun landsmanna á gróðurhúsalofttegundum. Hún nemur nú árlega um 500.000 tonnum af CO2 og skiptir verulegu máli.1

Langtíma vöktunarverkefni og rannsóknaniðurstöður sýna að íslenskir skógar binda umtalsvert kolefni.2 Þessi binding er hröðust í uppvaxandi skógi og þess vegna er mikilvægt að velja réttar aðferðir, rétt land og réttan efnivið til að auka þrótt og vöxt gróðursettra plantna og stuðla þannig að sem mestri bindingu.

Þriggja ára TTS-herfing í grasmóa á Höfða á Völlum, Fljótsdalshéraði. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonJarðvinnsla er nauðsynlegur undanfari nýskógræktar á sumum svæðum, en skráningar sýna að frá 1990 hefur verið jarðunnið á um 30% skógræktarsvæða (Arnór Snorrason, óbirt gögn). Megintilgangur jarðvinnslu er að bæta lifun og auka vöxt gróðursettra trjáplantna með því að draga úr vexti samkeppnisgróðurs, stuðla að auknum jarðvegshita og auðvelda aðgengi plantnanna að jarðraka og næringu.3 Jarðvinnslan bætir jafnframt úrval gróðursetningarstaða og auðveldar skipulag gróðursetningarinnar.4

Áhrif jarðvinnslu á kolefnisbúskap jarðvegs ráðast m.a. af því hversu stórum hluta jarðvegsyfirborðsins er raskað og hve djúpt er jarðunnið. Áhrifin eru líka breytileg eftir jarðvegsgerðum, sem fer m.a. eftir því hvernig kolefnisforði jarðvegsins er samsettur og hve vel hann þolir tímabundna röskun.3, 5

Jarðvinnsla getur aukið losun kolefnis úr jarðvegi, en það á einkum við um jarðveg sem inniheldur mikið af lítt rotnuðum gróðurleifum.6 Í þurrlendisjarðvegi er stór hluti jarðvegskolefnisins hins vegar geymdur í stöðugum lífrænum efnasamböndum, svokölluðum húmus.7 Jarðvinnsla eykur ekki endilega rotnunarhraða húmussins, en dregur mögulega tímabundið úr nýmyndun húmuss á meðan gróðurþekjan er skert.8

Rotnun húmuss er háð því að rotverur hafi aðgang að ferskri og auðrotnanlegri lífrænni fæðu. Því getur jarðvinnsla hægt á rotnunarhraða í sumum tilvikum, sérstaklega þegar jarðveginum hefur verið bylt þannig að húmus hefur lent á meira dýpi en áður og þannig dregið úr losun kolefnis til skamms tíma.9

Í heildina er tap kolefnis úr forða jarðvegs yfirleitt mjög lítið við undirbúning lands til skógræktar, sérstaklega í samanburði við þá miklu kolefnisbindingu sem á sér stað í uppvaxandi skógi.10 Hérlendar iðufylgnirannsóknir gefa vísbendingar um að áhrif losunar vegna jarðvinnslu séu lítil og skammvinn.11, 12

Með fjölgun skógarkolefnisverkefna og auknum rannsóknum munu fást nákvæmari upplýsingar um kolefnisbúskap mismunandi svæða í upphafi nýskógræktar.

Heimildir:

1. Keller N., Á. K. Helgadóttir, S. R. Einarsdóttir, R. Helgason, B. U. Ásgeirsson, D. Helgadóttir, I.R. Helgadóttir, B.C. Barr, C. Jónsdóttir Thianthong, K.M. Hilmarsson, L. Tinganelli, A. Snorrason, S.H. Brink & J. Þórsson (2023). National Inventory Report, Emissions of Greenhouse Gases in Iceland from 1990 to 2021. Institution: The Environment Agency of Iceland 14 April 2023 Reykjavík: DOI: https://unfccc.int/documents/627842
2. Skógræktin (2023, október). Íslensk skógarúttekt (ÍSÚ). Vísindaleg og reglubundin söfnun upplýsinga um skóga og skógrækt á Íslandi. Vöktunarverkefni. https://www.skogur.is/is/rannsoknir/rannsoknaverkefni/verkefni-i-vinnslu/islensk-skogaruttekt
3. Mayer, M., Prescott, C. E., Abaker, W. E., Augusto, L., Cécillon, L., Ferreira, G. W., ... & Vesterdal, L. (2020). Tamm Review: Influence of forest management activities on soil organic carbon stocks: A knowledge synthesis. Forest Ecology and Management, 466, 118127. https://doi.org/10.1016/j.foreco.2020.118127
4. Suadicani K. (2003). Site preparation and planting in a shelterwood. In: Maria Iwarsson Wide & Berit Baryd (Eds.), Procedings of the 2nd Forest Engineering Conference Techniques and Methods (p 40-49), 12—15 May 2003, Växjö, Sweden, pp 88. https://www.skogforsk.se/contentassets/357fd4133198432eb9cc8af594f385c4/arbetsrapport-535-2003.pdf
5. Mäkipää, R., Abramoff, R., Adamczyk, B., Baldy, V., Biryol, C., Bosela, M., ... & Lehtonen, A. (2023). How does management affect soil C sequestration and greenhouse gas fluxes in boreal and temperate forests? – A review. Forest Ecology and Management, 529, 120637. https://doi.org/10.1016/j.foreco.2022.120637
6. Gartzia-Bengoetxea, N., Gonzalez-Arias, A., Merino, A., & de Arano, I. M. (2009). Soil organic matter in soil physical fractions in adjacent semi-natural and cultivated stands in temperate Atlantic forests. Soil Biology and Biochemistry, 41(8), 1674-1683. https://doi:10.1016/j.soilbio.2009.05.010
7. Berg, B. (1986). Nutrient release from litter and humus in coniferous forest soils—a mini review. Scandinavian journal of forest research, 1(1-4), 359-369. https://www.researchgate.net/profile/Bjoern-Berg/publication/240525547_Nutrient_Release_from_Litter_and_Humus_in_Coniferous_Forest_Soils-a_Mini_Review/links/565d40b808ae1ef9298208a7/Nutrient-Release-from-Litter-and-Humus-in-Coniferous-Forest-Soils-a-Mini-Review.pdf
8. Smolander, A., Paavolainen, L., & Mälkönen, E. (2000). C and N transformations in forest soil after mounding for regeneration. Forest Ecology and Management 134: 17-28. https://doi.org/10.1016/S0378-1127(99)00242-X
9. Smolander, A., & Heiskanen, J. (2007). Soil N and C transformations in two forest clear-cuts during three years after mounding and inverting. Canadian Journal of Soil Science, 87(3), 251-258. https://cdnsciencepub.com/doi/pdf/10.4141/S06-028
10. Mjöfors, K., Strömgren, M., Nohrstedt, H. Ö., Johansson, M. B., & Gärdenäs, A. I. (2017). Indications that site preparation increases forest ecosystem carbon stocks in the long term. Scandinavian Journal of Forest Research, 32(8), 717-725. https://doi.org/10.1080/02827581.2017.1293152
11. Bjarnadottir B., B. D. Sigurdsson & A. Lindroth (2009). A young afforestation area in Iceland was a moderate sink to CO2 only a decade after scarification and establishment. Biogeosciences, 6, 2895–2906. www.biogeosciences.net/6/2895/2009/
12. Valentini, R., Matteucci, G., Dolman, A. et al. (2000). Respiration as the main determinant of carbon balance in European forests. Nature 404, 861-865. https://doi.org/10.1038/35009084
Texti: Úlfur Óskarsson
Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson