Aðalsteinn Þorsteinsson, skógarbóndi á Hjalla, ásamt Benjamín Erni Davíðssyni skógræktarráðgjafa í a…
Aðalsteinn Þorsteinsson, skógarbóndi á Hjalla, ásamt Benjamín Erni Davíðssyni skógræktarráðgjafa í asparreitnum á Hjalla í maí 2019. Ljósmynd: Rakel J. Jónsdóttir

Skógarbændur á Hjalla í Reykjadal Suður-Þingeyjarsýslu hafa dreifplantað sitkabastarði og alaskaösp í plöstuð beð og alið upp í næga hæð til að trén megi gróðursetja í mjög grasgefnu landi. Með réttum aðferðum má ná góðum árangri á slíkum svæðum.

Plönturnar komnar í plöstuð beð sumarið 2013Sama beðið tveimur árum seinna, 2015Sumarið 2013 var alaskaösp og sitkabastarði dreifplantað á plöstuð beð á Hjalla. Markmiðið var að rækta þar plöntur í heppilega hæð fyrir mjög grasgefið skógræktarsvæði sem þar er. Ösp var gróðursett með 33 cm millibili, tvær raðir í plöstuðu beði.

Haustið 2014 var fyrirhugað gróðursetningarsvæði slegið með hagasláttuvél og vorið 2015 var öspin öll gróðursett í það svæði.  Meðalhæð plantnanna á beðum vorið 2015 má sjá í töflu 1. Ákveðið var að  gróðursetja ekki greni  sumarið 2015 heldur bíða með það til sumarsins 2016 til þess að ná því í meiri hæð. Meðalhæð aspanna vorið 2015, fyrir flutning, var um 90 cm en sú hæsta var 112 cm. Lægstu aspirnar voru um 70 cm. Meðalhæð grenisins var 39 cm, hæsta plantan 53 cm.

Vel gekk að stinga upp og flytja asparplöntur á gróðursetningarstað. Notuð var bjúgskófla til þess að stinga þær upp. Að stinga upp 40 plöntur, flytja á gróðursetningarstað og gróðursetja tók tvær manneskjur um 1 klst. Alls voru 430 asparplöntur fluttar og gróðursettar í um 0,4 hektara.

Plönturnar tóku vel við sér um sumarið eins og meðfylgjandi myndir bera með sér. Þær bættu vel við sig þrátt fyrir kalt tíðarfar.

Tegund Fjöldi plantna mældur Meðalhæð í cm
Alaskaösp 47 90
Sitkagreni 50 39

Tafla 1.

Aspargróðursetningin í ágúst 2016. Í hlutfalli við bílinn sést stærð plantnanna nokkuð velFramkvæmdir og mælingar 2016

Í byrjun vors var greni mælt á beðunum. Meðalhæð reyndist um 70 cm. Nokkur tré hafði kalið þó nokkuð um veturinn. Aðalsteinn flutti svo greni í reit sem var um 0,16 ha. Aspir sem færðar höfðu verið árið áður litu afar vel út. Hæstu tré voru þá orðin yfir 2 m á hæð.

Úttekt í maí 2019

Elstu gróðursettu aspirnar á Hjalla eiga nú að baki 3 vaxtartímabil. Gerðar voru mælingar á þeim 14. maí 2019. Alls var 41 ösp hæðarmæld með því að velja raðir tilviljanakennt og ganga síðan á raðirnar. Meðalhæð reyndist vera 194 cm. Mesta hæð var 3 m, sú minnsta 1 metri.

Gerðar voru hæðarmælingar á sitkabastarði sem gróðursettur var 2016, 2017 og 2018. Mæld voru 44 tré. Meðalhæð reyndist vera 90 cm, mesta hæð 131 cm og minnsta hæð 51 cm. Lifun og þrif voru mjög góð.Slegið var með ruddasláttuvél haustið 2012 og rakað saman í garða til að sjá hvort heyið gæti haldið aftur af samkeppnisgróðri eftir gróðursetningu að ári. Trúlega er vænlegra að nota venjulega sláttuvél til að fá umfangsmeiri garða.

Að sögn Aðalsteins útheimtir þessi aðferð mjög mikla vinnu en árangurinn af henni skilar sér fljótt og vel í miklum vexti og góðri lifun í þessu erfiða landi. Eftir á að hyggja hefði mátt útbúa beðin á svæðinu þar sem stóð til að gróðursetja þær, svo spara mætti tímann sem fer í flutning.

Einnig má hugsa sér að nota aðrar aðferðir til að þekja uppeldisbeðin. Aðalsteinn hefur prófað þá aðferð að nota hey til þess að þekja með. Haustið 2012 sló hann tún með ruddasláttuvél og rakaði saman í garða til þess að athuga hvort heyið gæti orðið til þess að halda aftur af samkeppnisgróðri þannig að nýgróðursettar plöntur kæmust á legg. Sama ár gerði mikið hret í september og snjó tók ekki upp það árið aftur. Þess vegna var aftur rakað saman í garða vorið 2013 en þeir urðu ekki eins stórir og vonast hafði verið eftir. Í þá var samt gróðursettur sitkabastarður þetta vor.

Við skoðun 2014 fundust fáar plöntur á svæðinu vegna mikils grasvaxtar. En þegar litið var yfir þetta svæði í maí 2019 sást að lifunin er fín og grenið er að komast á legg. Aðalsteinn telur að bæta megi aðferðina með því að nota ekki ruddasláttuvél sem saxar heyið smátt þegar hún slær heldur venjulega sláttuvél svo umfangið á görðunum verði meira. Þannig megi halda lengur aftur af grasvexti í kringum plönturnar.

Texti og ljósmyndir: Rakel Jónsdóttir
Lagað að vef: Pétur Halldórsson