Jólatré hafa verið ræktuð á Íslandi frá því laust fyrir miðja 20. öld. Ræktunin hefur að mestu farið fram á skógræktarsvæðum og í birkiskógum eða birkikjarri. Framleiðsla jólatrjáa á ökrum hefur lítið verið stunduð hérlendis og því er lítil staðbundin þekking til á þessu sviði. Í útlöndum er algengt að jólatré séu ræktuð á frjósömum ökrum og jólatrjáaræktun er stunduð sem sjálfstæð búgrein með markvissa og umfangsmikla framleiðslu.

Óvíst er hvernig þessi búgrein á eftir að þróast hér á landi, hvort hún verður aðallega blönduð annarri skógrækt, til dæmis með ræktun undir skermi eldri trjáa eða hvort akurræktun á eftir að vaxa fiskur um hrygg. Hvort sem verður þarf ávallt að sinna væntanlegum jólatrjám meira og minna allt árið og á þessari síðu má finna leiðbeiningar um þau störf sem vinna þarf á mismunandi árstímum.

Á þessari síðu eru gefnar leiðbeiningar um þau verk sem gott er að vinna í tilteknum mánuðum ársins.

Dagatal jólatrjáabóndans

Mars

Í mars er mjög gott að staldra við og skipuleggja starfið fram að jólum. Ef til vill liggur nú þegar fyrir hversu mikið verður pantað af trjáplöntum til gróðursetningar og þá má fara að setja niður fyrir sér hvar skuli gróðursett, hvaða tegundir hvar o.s.frv. Einnig er gott að skipuleggja umhirðu eldri trjáa og áætla umfang þeirra verka sem vinna þarf.

Apríl

Í apríl er kominn tími til að að huga að jólatrjánum úti í skógi eða á akrinum, klippa tvítoppa, botnklippa, forma trén og bera á þau ef þörf er á.

Maí

Ef vel vorar er snjór á bak og burt og hægt að snúa sér að útiverkum af krafti. Það sem ekki var hægt að gera í apríl vegna veðurs eða tímaskorts verður að gera í maí. Klipping tvítoppa, formun og botnklipping ásamt áburðargjöf, eru hefðbundin vorverk en nú er líka komið að gróðursetningu.

Júní

Brumbrot á að fara fram frá byrjun júní og fram að Jónsmessu. Ef vorið er kalt getur þessu seinkað eitthvað. Með því að brjóta brum er hægt að þétta trén og jafnvel hægja nokkuð á toppvextinum.

September

Bein sáning er ódýr og einföld aðferð til að fjölga barrtrjám og vert að nýta góða septemberdaga til frætínslu. Tré sem sáð er beint í jörð geta orðið beinvaxnari að jafnaði en gróðursettar plöntur.

Október

Þegar kemur fram í október er tímabært að fara út á ræktunarsvæðið til að velja og merkja tré sem eru tilbúin til sölu. Í kjölfarið má hafa samband við verslanir og aðra seljendur jólatrjáa og bjóða þeim tré og greinar til sölu.

Nóvember

Í nóvembermánuði má byrja að höggva furur sem selja á sem jólatré þetta árið en rétt er að bíða um sinn með grenið. Framleiðendum ber að sjá til þess að öll tré sem send eru á markað uppfylli gæðakröfur.

Desember

Ýmis verkefni blasa við jólatrjáabóndanum í desember en ef hann hefur ekki búið vel í haginn síðustu mánuði getur sú vinna reynst torveld.