• Eigandi: Skógræktin
  • Staður: Skriðufell/Ásólfsstaðir Þjórsárdal
  • Sveitarfélag: Skeiða- og Gnúpverjahreppur
  • Byggingarár: 1987
  • Stærð: 163,5 m²
  • Skráning og myndir: September 2013

Lýsing: Starfsmannahúsið í Þjórsárdal var byggt 1987 og leysti af hendi gamla vinnuskúra sem höfðu verið vinnuaðstaða starfsmanna allt frá því að framkvæmdir hófust við skógrækt á svæðinu um 1960. Húsið er byggt á steyptri plötu og er 163,5 m². Veggir eru klæddir með standandi borðaklæðningu og þak klætt bárujárni. Pláss er fyrir 12 manns í gistingu. Húsinu er vel við haldið og umgengni inni sem úti til fyrirmyndar. Húsið er hitað upp með heitu vatni úr borholu á Ásólfsstöðum. Heitið Kyrrþeyr hefur fest við starfsmannahúsið í Þjórsárdal. Það er teiknað af Böðvari Guðmundssyni, þáverandi skógarverði, og Helga Garðarssyni húsasmíðameistara sem reisti húsið.

Lóþræll, gamla starfsmannahúsið

  • Eigandi: Skógræktin
  • Staður: Skriðufell/Ásólfsstaðir Þjórsárdal
  • Sveitarfélag: Skeiða- og Gnúpverjahreppur
  • Byggingarár: Um 1962
  • Stærð: um 40 m²
  • Skráning og myndir: September 2013

Lýsing: Fyrsti starfsmannabústaður Skógræktarinnar í Þjórsárdal, reistur um 1962, er timburhús með skúrþaki. Gistirými er fyrir fimm manns. Á síðustu árum hefur það þjónað sem geymsla fyrir áhöld og tæki sem tengjast starfseminni í Þjórsárdal. Lóþræll tekur nafn sitt af þjóðveldisbæ sem stóð í Þjórsárdal en fór í eyði í Heklugosi 1103. Sumarið 2016 var Lóþræll lagfærður að utanverðu og klæddur með standandi viðarklæðningu úr skóginum í Þjórsárdal. Notað var ókantað sitkagreni, Homer, unnið úr trjám sem gróðursett voru 1968. Borðin eru 19 mm þykk og vöru söguð sem aukaefni þegar verið var að saga þakklæðningu fyrir skógarhúsið að Laugarvatni. Borin var á klæðninguna sveppavörn, C-tox, viðarolía yfir. Grisjunina, flettinguna og smíðina unnu þeir Jóhannes S. Sigurðsson, aðstoðarskógarvörður á Suðurlandi, og Magnús Fannar Guðmundsson skógarhöggsmaður.


Sögunarmylla/skemma

Vaxandi þörf er á aðstöðu og búnaði til timburvinnslu í þjóðskógunum. Hlutverk Skógræktarinnar er að þróa slíka starfsemi hérlendis á meðan skógareigendur eru að koma undir sig fótunum, skógar þeirra að vaxa og markaðurinn að verða til. Sumarið 2014 var hafist handa við að reisa skemmu í starfstöð Skógræktarinnar í Þjórsárdal er hýsa skyldi sögunarmyllu og þjóna sem véla- og tækjageymsla, viðargeymsla og fleira. Framkvæmdum lauk í janúar 2015. Skemman er stálgrindarhús á steyptum grunni með einangruðum veggja- og lofteiningum. Í henni er hitaveita og hitinn í gólfinu. Að grunnfleti er skemman um 225 fermetrar og rúmmálið nálægt þúsund rúmmetrum. Lengdin er 17,9 metrar og breiddin 12,5 metrar. Tvennar innkeyrsludyr eru á byggingunni, að sunnan og vestan, hvor um sig fjórir metrar á breidd og 4,2 m á hæð.

  • Eigandi: Skógræktin
  • Staður: Skriðufell/Ásólfsstaðir Þjórsárdal
  • Byggingarár: 2014-2015
  • Stærð: um 225 m², ~1.000 m3
  • Skráning og myndir: Janúar 2015

„Gamla eldhúsið“

  • Eigandi: Skógræktin
  • Staður: Skriðufell/Ásólfsstaðir Þjórsárdal
  • Byggingarár: Um 1962
  • Stærð: um 25 m²
  • Skráning og myndir: September 2013

Lýsing: „Gamla eldhúsið“ í Þjórsárdal var byggt um 1960 og var í upphafi hluti af aðstöðu vinnuflokka sem unnu að skógrækt og grisjun í Þjórsárdal. Byggingin var timburhús með skúrþaki, um 25 m² að flatarmáli. Síðast var aðstaðan nýtt sem verkstæði fyrir mótorsagir og önnur áhöld. Húsið var orðið hrörlegt og var rifið þegar nýja skemman var komin í gagnið.


„Gamla eldhúsið“ í Þjórsárdal