Fólk á öllum aldri hefur gagn og gaman af skógarfræðslu.Í verkefninu Lesið í skóginn er áhersla lögð á að þátttakendur læri um skóginn, skoði hann og fjölbreyttar hliðar hans. Einnig gefist tækifæri til nytja og upplifunar í skólastarfi og fyrir almenning.

Verkefnið skiptist í tvo hluta:
Annars vegar er um að ræða námskeiðin Lesið í skóginn - tálgað í tré sem eru almenn námskeið um samþætt verkefni í ferskum skógarnytjum, skógarhirðu og tálgutækni. Hins vegar Lesið í skóginn með skólum sem miða að því að þróa verkefni í samþættu útinámi sem tengjast öllum námsgreinum í skólastarfi.

Markmið verkefnisins eru að efla þekkingu og vitund sem flestra á gildi skógarins fyrir náttúruna, manninn, menningu og sögu, samfélag og efnahag þjóðarinnar. Einnig er áhersla lögð á að sinna kennaramenntun og skólasamfélagi með því að safna saman reynslu og þekkingu og miðla henni til annarra.

Verkefnið hefur frá upphafi verið skilgreint sem þróunarverkefni þar sem litið er svo á að þróun þess standi enn yfir þó mikil reynsla og þekking hafi vissulega orðið til og  áherslur og aðferðir breyst með fenginni reynslu, s.s. við skipulag útináms og vinnu í skógarumhverfi.

Kennsluefni

Grunnskólabörn á námskeiði líta upp úr tálguninni. Ljósmynd: Ólafur Oddsson

Á degi íslenskrar náttúru, 16. september 2012, opnaði Lesið í skóginn verkefnabanka. Þar getur þú nálgast verkefni í útikennslu fyrir öll aldursstig grunnskólans, allar námsgreinar og allar árstíðirnar. Í verkefninu hafa safnast mörg verkefni á sviði útikennslu. Ása Erlingsdóttir, Margrét Lára Eðvarðsdóttir og Ólafur Oddsson hafa síðustu ár safnað verkefnunum frá þeim skólum sem tóku þátt í verk­efninu. Þörf kennara fyrir aðgang að rafrænum hugmynda­banka hefur ítrekað komið fram en verkefni á sviði náttúrulæsis geta einnig nýst aðilum í ferðaþjónustu, landvörslu, skógrækt og landbúnaði.

Menntamálastofnun tók svo verkefnabankann að sér árið 2020 og gaf hann út í uppfærðri mynd á vef sínum:

Kennslubókin Lesið í skóginn - tálgað í tré

Forsíða bókarinnarÁrið 2018 kom öðru sinni út kennslubók til notkunar á námskeiðum undir merkjum Lesið í skóginn. Bókina skrifaði Ólafur Oddsson og hún var gefin út í samvinnu Skógræktarinnar og Landbúnaðarháskóla Íslands. Bókinni má hlaða niður hér af vefnum:

Lesið í skóginn - tálgað í tré