Það eru gagnkvæmir hagsmunir stofnunarinnar og starfsmanna hennar að vellíðan og heilbrigði starfsmanna sé haft að leiðarljósi.Samskipti

Skógræktin vill stuðla að trausti í samskiptum milli starfsmanna sinna, milli starfsmanna stofnunarinnar og samstarfsaðila og almennings. Skógræktin leggur áherslu á að jafnræði ríki í samskiptum starfsmanna stofnunarinnar. Reglur um samskipti, boðleiðir og upplýsingastreymi skulu vera skýrar og einfaldar og aðgengilegar öllum. Skógræktin vill stuðla að góðum starfsanda og að starfsmenn sýni samstarfsmönnum sínum og öðrum tilhlýðilega virðingu, umburðarlyndi og jákvætt viðmót.

Aðgerðir ef samskiptareglur eru brotnar

Starfsmaður, sem með orðum, látbragði eða atferli, ógnar, truflar eða ögrar öðrum á vinnustað, leggur starfsmann í einelti eða sýnir honum kynferðislega áreitni, telst brjóta grundvallarreglur samskipta á vinnustað. Slík hegðun getur leitt til áminningar og starfsmissis.

Vinnuvernd

Stjórnendum ber að stuðla að heilbrigðu vinnuumhverfi. Það eru gagnkvæmir hagsmunir stofnunarinnar og starfsmanna hennar að vellíðan og heilbrigði starfsmanna sé haft að leiðarljósi. Starfsmenn bera ábyrgð á að leggja rækt við eigin heilsu. Vinnuumhverfi skal vera laust við hættuleg efni og aðra vá eins og kostur er. Jafnframt ber starfsmönnum að fylgja þeim kröfum, sem gerðar eru til þeirra, um öryggi og gætni í starfi. Á vinnustað, þar sem meðferð hættulegra efna er nauðsynleg starfseminni, skal tryggja að fyllsta öryggis sé gætt og skýrt kveðið á um hvernig brugðist skuli við óhöppum og hættu. Þá skal þess gætt að yfirvinnu sé haldið innan hóflegra marka.

Vinnustaðir án vímuefna

Skógræktin vill halda vinnustöðum stofnunarinnar reyklausum. Notkun vímuefna starfsmanna við störf er óheimil. Skógræktin veitir starfsmönnum leiðbeiningar og aðstoð til að vinna úr vandamálum sem tengjast misnotkun vímuefna.

Samræming vinnu og einkalífs

Skógræktin vill skapa starfsmönnum sínum aðstæður til að samræma kröfur starfs- og einkalífs eins og kostur er. Skógræktin vill að starfsmenn fái notið sveigjanleika í starfi þar sem hægt er að koma því við. Konum og körlum skal gert kleift að minnka við sig vinnu tímabundið vegna fjölskylduábyrgðar. Starfsmenn skulu eiga kost á hlutastörfum og sveigjanlegum vinnutíma eftir því sem aðstæður leyfa. Stjórnendur skulu hvetja væntanlega feður til að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs. Jafnframt skulu þeir hvetja karla til að vera heima hjá veikum börnum til jafns á við konur.