Merki Skógræktarinnar
Merki Skógræktarinnar

Um leið og líður að lokum Skógræktarinnar marka áramótin 2023-2024 nýtt upphaf skógræktar á Íslandi. Fyrsta janúar verður til ný stofnun, Land og skógur, og þar með verða á ný sameinuð þau verkefni sem heyrðu undir embætti skógræktarstjóra á árunum 1908-1914. Skógræktin þakkar fyrir sig og óskar nýrri stofnun velfarnaðar.

Skógræktin varð til 1. júlí 2016 með sameiningu Skógræktar ríkisins og fimm landshlutaverkefna í skógrækt sem þjónuðu skógarbændum hvert í sínum landshluta. Starfsár stofnunar undir hinu formlega heiti Skógræktin urðu því sjö og hálft. Óformlega er heitið þó miklu eldra því snemma var farið að tala um embætti skógræktarstjóra sem Skógræktina og þegar stofnunin fékk heitið Skógrækt ríkisins með lögum árið 1940 var hið óformlega heiti Skógræktin áfram notað samhliða hinu formlega.

Frá og með fyrsta janúar 2024 hefst nýr kafli í skógræktarsögu landsins þegar hin nýja stofnun, Land og skógur, tekur við verkefnum og skuldbindingum Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Áfram verður þó unnið að þeim mikilvægu verkefnum sem þessar tvær stofnanir hafa unnið að við eflingu gróðurfars á landinu og verndun mikilvægra gróðursvæða.

Við þessi tímamót lætur Þröstur Eysteinsson af embætti skógræktarstjóra sem hann hefur gegnt frá ársbyrjun 2016. Fram að því hafði hann gegnt stöðu sviðstjóra þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins og þar áður starfað sem fagmálastjóri stofnunarinnar. Upphaflega hóf hann þó störf hjá stofnuninni sem sérfræðingur við rannsóknir eftir að hafa gegnt starfi héraðsfulltrúa Landgræðslu ríkisins á Húsavík.

Skógræktin þakkar Þresti fyrir tryggð og vel unnin störf um langt árabil. Sömuleiðis þakkar stofnunin öllu sínu starfsfólki fyrir hið sama og þjóðinni fyrir stuðning og áhuga á skógrækt í landinu. Að lokum kveður Skógræktin og óskar nýrri stofnun, Landi og skógi, velfarnaðar og skógrækt á Íslandi bjartrar framtíðar. Gleðilegt nýtt skógræktarár!