Talið er að yfir 3.000 hafi sótt Jólaköttinn í þetta sextánda sinn sem markaðurinn er haldinn. Ljósm…
Talið er að yfir 3.000 hafi sótt Jólaköttinn í þetta sextánda sinn sem markaðurinn er haldinn. Ljósmynd: Þór Þorfinnsson

Talið er að rúmlega þrjú þúsund manns hafi sótt jólamarkaðinn Jólaköttinn á Héraði nú á aðventunni. Meðal annars komu gestir bæði frá Akureyri og Hornafirði en til sölu voru margvíslegar vörur frá um fimmtíu aðilum.

Jólakötturinn er árlegur markaðsdagur á vegum Skógræktarinnar á Hallormsstað og Félags skógarbænda á Austurlandi. Markaðurinn var að þessu sinni haldinn sextánda desember og var það sextánda skiptið. Aðsóknin var feykigóð í ár og áætlar forsvarsfólk Jólakattarins að ríflega þrjú þúsund manns hafi komið á markaðinn. Lengst af fór Jólakötturinn fram að Valgerðarstöðum í Fellum en nú var vettvangur hans húsnæði sem Landsnet hefur nýlega fest kaup á til stækkunar. 

Við gestum tók ilmandi hangikjöts- og skötulykt en auðvitað líka ilmur af ferskum íslenskum jólatrjám. Gestir komu víða að, meðal annars allt frá Hornafirði og Akureyri, en um 50 söluaðilar buðu margvíslegar vörur til sölu á markaðnum. Mikill fjölbreytileiki var í handverki af ýmsu tagi og um tuttugu söluborð af ýmiss konar matvöru. Auk Skógræktarinnar buðu átta skógarbændur til sölu jólatré af ýmsum tegundum úr skógum sínum.

Mikil gleði var ríkjandi á markaðnum og skemmtiatriði vöktu mikla lukku. Þetta var því glaðlegur Jólaköttur og meðfylgjandi myndir sendi Þór Þorfinnsson, skógavörður á Austurlandi, til birtingar á skogur.is.

Texti: Pétur Halldórsson 
Heimild: Þór Þorfinnsson