Páll Sigurðsson skógfræðingur stýrir í sumarlok námskeiði á vegum Endurmenntunar Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem kennd verða undirstöðuatriði í skógfræði. Námskeiðið verður bæði bóklegt og verklegt. Farið verður í vettvangsferðir í skóga, heimsóknir til stofnana og fyrirtækja og farið vítt og breitt um fagsvið skógræktar og landgræðslu á Íslandi.

Námskeiðið er hluti af skylduáfanga í búvísindanámi á háskólastigi við Landbúnaðarháskólann en laus pláss eru fyrir nokkra umsækjendur til viðbótar gegnum Endurmenntun LbhÍ. Á námskeiðinu kynnast nemendur fagsviði og sögu skógræktar og landgræðslu á Íslandi, skógarsögu Íslands, gróðurfari við landnám og ástæðum helstu breytinga sem síðan hafa orðið. Einnig verður farið yfir það hverjir stunda skógrækt og landgræðslu í dag, fjallað um helstu trjátegundir í skógrækt og trjárækt á Íslandi, vaxtarhraða skóga í samanburði við skóga í Skandinavíu og hvaða skilyrði henta hverri tegund.

Námskeiðið er bæði bóklegt og verklegt og mætingarskylda í verklega kennslu. Bókleg kennsla er í fjarkennslu. Í verklegri kennslu er farið í vettvangsferðir og heimsóknir til fyrirtækja og stofnana og er verkleg kennsla fyrirhuguð 6. til 7. september og aftur 27. september.

Að námskeiði loknu eiga nemendur að búa yfir hagnýtri almennri þekkingu og leikni í skógfræðilegum efnum, geta skilgreint hvað skógfræði er og kunna skil á skógasögu Íslands og Skandinavíu. Einnig eiga nemendur að kunna skil á fjölþættum markmiðum skógræktar og landgræðslu, helstu trjátegundum til ræktunar og hvar og við hvaða skilyrði hver tegund hentar. Þá eiga nemendur að geta greint til tegundar helstu skógartré Íslands og hafa vald á helstu faghugtökum í skógfræði og landgræðslu.

Þeir nemendur sem sækja þetta námskeið hjá Endurmenntun LBHÍ sitja það ásamt nemendum sem skráðir eru í nám við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þeim þátttakendum sem uppfylla öll skilyrði til próftöku verður gefinn kostur á að fá vottað einingamat í lok námskeiðs. Námskeiðið er á háskólastigi og má meta til sex ECTS-eininga.

  • Kennari: Páll Sigurðsson, doktorsnemi og kennari við LBHÍ
  • Námstími: 14 vikur
  • Kennslufyrirkomulag: Bókleg kennsla fer fram í fjarkennslu og engin mætingarskylda. Verkleg kennsla fer fram á vettvangi og því mætingarskylda í verklega tíma sem eru fyrirhugaðir 6.-7. september og 27. september
  • Tími: Námskeiðið hefst 23. ágúst og lýkur 9. desember
  • Skráningarfrestur: Til og með 9. ágúst
  • Verð: 49.000 kr.

Upplýsingar og skráning