Námskeiðið er opið öllum þeim sem áhuga hafa á uppgræðslu og trjárækt á rýru landi. Námskeiðið er hluti af námskeiðaröð Grænni skóga á Suður- og Vesturlandi.

Fjallað verður um vaxtarskilyrði á rýru landi, þá þætti sem móta það (jarðveg, rof, frosthreyfingar, vind og vatn) og leiðir til að bæta þau. Kynntar verða helstu aðferðir og tegundir sem notaðar eru við uppgræðslu á rýru og örfoka landi og fjallað um þá þætti sem ráða vali á aðferðum hverju sinni. Sérstaklega verður fjallað um leiðir til að koma trjágróðri í örfoka land og hvernig hægt sé að stuðla að sjálfsáningu þeirra trjá- og runnategunda sem notaðar eru í Hekluskógaverkefninu. Aðferðir við gróðursetningu og beinstungu græðlinga verða sýndar og sagt verður frá því hvernig haga skuli að áburðargjöf á plöntur og græðlinga.

Farið verður yfir hvernig landeigendur á Hekluskógasvæðinu geta tengst eða komið að Hekluskógaverkefninu. Farið verður í vettvangsferð á Þorlákshafnasanda við Þrengslavegamót og ræktun við erfiðar aðstæður skoðuð.

Kennarar: Hreinn Óskarsson, skógfræðingur hjá Skógræktinni, og Úlfur Óskarsson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Tími: Fös. 3. maí. kl. 16:00-19:00 og lau. 4. maí. kl 9:00-16:00 hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi (14 kennslustundir).

Verð: 22.000 kr. (Innifalið eru gögn, kaffi á námskeiðinu og matur í hádeginu á laugardeginum).

Skráning til 26 apríl.

Sækja um