Skógarnefnd FAO, COFO, kemur saman 5.-9. október á fundi sem halda átti í júní en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Meðal viðfangsefna fundarins eru áhrif COVID-19 á skógargeirann í heiminum og hvernig bregðast megi við afleiðingunum en einnig verður rætt um skógrækt sem náttúrlega lausn gegn loftslagsvandanum, farið yfir undirbúning næstu alheimsráðstefnu um skóga og fleira.

Fundinn átti upphaflega að halda 22.-25. júní í höfuðstöðvum FAO í Róm, sá tuttugasti og fimmti í röðinni. Í stað hans var þá efnt til fundaviku á vefnum þar sem einmitt var rætt um uppbyggingu í skógargeiranum eftir veirufaraldurinn undir ensku yfirskriftinni Building back better: COVID-19 pandemic recovery contributions from the forest sector. Horfa má á efni vikunnar á eftirfarandi hlekkjum:

Dagskrá fundanna í júní er að finna á COVID-19 Forestry Webinar Week.

 

Skógar og áratugur aðgerða vegna Heimsmarkmiða SÞ
- leiðir fyrir loftslag, líffjölbreytni og fólk

Veirufaraldurinn sem enn geisar í heiminum hefur áhrif á allan heiminn en þau áhrif eiga enn eftir að koma að fullu í ljós. Nú þegar hefur hann haft víðtæk félagsleg, efnahagsleg og umhverfisleg áhrif. Skógrækt og skógartengdar greinar verða ekki bara fyrir áhrifum af faraldrinum heldur hefur skógargeirinn beinlínis mikilvægt hlutverk til að milda áhrif faraldursins og byggja upp samfélögin á ný með sjálfbærum leiðum.

En umræddur veirufaraldur breytir því ekki að áfram eru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sameiginleg sýn heimsbyggðarinnar til að kveða niður fátækt, bjarga jörðinni og skapa frið í heiminum. Aðeins eru tíu ár til stefnu og því er þurfa jarðarbúar að taka höndum saman svo að markmiðin náist árið 2030. Stjórnvöld í fleiri löndum verða að stökkva á vagninn en líka almenningur og fyrirtæki þannig að allir setji sér eigin markmið.

Fram undan er sem fyrr segir 25. fundur COFO og um leið verður í sjöunda sinn efnt til sjöundu heimsviku um skóga, World Forest Week. Þar verður hugað að því hvað skógargeirinn geti lagt til málanna á áratug aðgerða vegna Heimsmarkmiðanna,  SDG Decade of Action. Sömuleiðis verður rætt um hvernig skógargeirinn geti náð sér á strik aftur þegar COVID-19 hefur sleppt takinu á okkur ásamt leiðum til að vinna gegn loftslagsbreytingum, efla líffjölbreytni og styrkja samfélög mannanna. Á þessum 25 ára afmælisfundi skógarnefndar FAO verða kynntar tvær tímamótaskýrslur. Annars vegar er ný skýrsla um stöðu skóga heimsins, State of the World’s Forests 2020, og hins vegar mat á skógarauðlindum heimsins, Global Forests Resources Assessment 2020 (FRA2020).

Skóganefnd FAO tekur nokkur heimsmál til sérstakrar skoðunar á fundinum:

  • Áhrif COVID-19 á skógargeirann og möguleg viðbrögð
  • Ástand skóga heimsins 2020 - samhengi skóga, líffjölbreytni og fólks
  • Megninniðurstöður FRA2020 og leiðin fram undan með áherslu á stafrænu byltinguna
  • Stefna FAO um að tvinna áherslu á líffjölbreytni inn í allar greinar landbúnaðar
  • Skógar sem náttúrleg lausn gegn loftslagsvandanum
  • Hlutverk skóga í framþróun matvælakerfa
  • Framlög til áratuga fjölskyldubúskapar og endurhæfingar vistkerfa hjá SÞ
  • Undirbúningur 15. alheimsráðstefnunnar um skóga
  • Framþróun matvælakerfa með aukinni baráttu gegn skógareyðingu og leiðtogafundur SÞ um matvælakerfi 2021
  • Stefna og sýn á starf FAO að næringarmálum

Á fundi COFO verður vettvangur til umræðu og skoðanaskipta um öll þessi efni meðal þátttakenda og fundinum er ætlað að leggja drög að stefnumiðum FAO í skógarmálum fyrir komandi tíð.

Í samstarfi tækninefnda FAO verður sömuleiðis haldið áfram að starfa með Heimsmarkmið SÞ að leiðarljósi við þróun matvælakerfa, endurhæfingu vistkerfa, aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og til verndar líffjölbreytni. Á næstu fundum COFO og annarra tækninefnda FAO gefast mikilvæg tækifæri til að styrkja stefnu FAO, samhæfa aðgerðir og auka samlegð í starfinu.

Sjöunda heimsvikan um skóga

Röð funda og viðburða sem haldin er í tengslum við fund COFO er kölluð heimsvikan um skóga og fer nú fram í sjöunda sinn. FAO stendur fyrir þessari viku ásamt samstarfsstofnunum og -samtökum. Þar gefst þátttakendum einstakt tækifæri til að skiptast á þekkingu og skoðunum, mynda tengsl og finna úrræði fyrir skógargeirann á þeim viðfangsefnum sem rædd verða á COFO25-fundinum. Þar eru einkum nefnd viðfangsefnin sem fyrr hefur verið minnst á, kórónuveirufaraldurinn, aðgerðir vegna Heimsmarkmiða SÞ, loftslagsbreytingar, líffjölbreytni og fólk.

Að taka þátt í COFO

Aðild að skógarnefnd FAO (COFO) er opin öllum aðildarríkjum FAO sem óska eftir því við aðalritara stofnunarinnar og vilja taka þátt í starfinu. Ísland hefur ekki sótt um aðild enn sem komið er.

Heimild: Forests and the SDG Decade of Action: solutions for climate change, biodiversity and people
Texti: Pétur Halldórsson