Gamalt rauðgrenitré í Tékklandi, dautt af völdum barkarbjöllu. Ljósmynd: Bjarki Þór Kjartansson
Gamalt rauðgrenitré í Tékklandi, dautt af völdum barkarbjöllu. Ljósmynd: Bjarki Þór Kjartansson

Barkarbjöllur hafa herjað mjög á rauðgreni í austanverðri Evrópu undanfarin misseri og meðal annars leikið grenið hart víða í Tékklandi og Slóveníu til dæmis. Tíðari stormar, þurrkar og hitabylgjur hafa veikt mótstöðuafl greniskóganna en vonast er til að aukin blöndun trjátegunda í skógunum geri kleift að rækta rauðgreni áfram.

Bjarki Þór Kjartansson, sérfræðingur á Mógilsá, rannsóknasviði Skógræktarinnar, var á ferð í Tékklandi í lok maí og fór meðal annars um skóg sem er fyrir ofan þorpið Bílá Třemešná í norðanverðu Tékklandi, skammt frá pólsku landamærunum. Barkarbjallan hefur valdið talsverðum skaða á rauðgreni í þessum skógi sem er um 120 hektarar að stærð. Bjarki hefur eftir skógarverðinum, Vladimir, að barkarbjaldan hafi valdið þar miklum vandamálum og greniskógurinn drepist á stórum svæðum. Þroskaðar bjöllur taki sitt fyrsta flug í lok maí og í byrjun júní og í venjulegu árferði komist tvær nýjar kynslóðir á legg á einu sumri. Sé veðurfarið sérstaklega hagstætt barkarbjöllunum nái þær hins vegar að fjölga sér um fjórar kynslóðir á einu sumri. Það hafi til dæmis gerst í fyrra.

Gengið í skóginn í Bílá Třemešná. Ljósmynd: Bjarki Þór KjartanssonSkógurinn í grennd við Bílá Třemešná er 150 ára gamall og í einkaeigu. Bjarki segir að hann sé skemmtilega blandaður af lerki, birki og beyki í bland við rauðgrenið og því hafi hann náð að verjast þessum áföllum allvel. Hins vegar sé efnahagslegur skaði af grenidauðanum umtalsverður fyrir eigandann sem tekur út úr skóginum u.þ.b. 1.200 m3 á ári. Samkvæmt lögum í Tékklandi má ekki ráðast í lokahögg á skógi fyrr en hann hefur náð 80 ára aldri en leyfilegt er að grisja upp að ákveðnu marki þangað til.

Skógarlög Tékklands kveða jafnframt á um að eigandi verði að fella dauð, standandi tré í skóginum því þau geta valdið hættu fyrir fólk og umferð. Í sömu lögum er ákvæði um að almennir borgarar megi ferðast um alla skóga í landinu, tína sveppi, ber og jafnvel nýta fallar greinar í eldivið til einkanota án leyfis eða endurgjalds.

Þegar jafnvægið raskast

Evrópska grenibarkarbjallan sem á latínu kallast Ips typographus er engin nýlunda í rauðgreniskógum meginlands Evrópu. Ef allt er með felldu er hún hluti af jafnvæginu í skóginum. Ýmis áföll og breytingar sem dunið hafa yfir frá árinu 2003 eða svo hafa hins vegar komið af stað barkarbjöllufaraldri. Menn rekja þetta til tíðari þurrka og hitabylgna og sömuleiðis hafa stórviðri valdið tjóni í skógunum, sérstaklega árin 2007 og 2008. Allt veikti þetta mótstöðuafl rauðgreniskógarins gegn barkarbjöllunni og voru stofnar hennar orðnir óvenju stórir árið 2015 þegar sérstaklega slæm hitabylgja geisaði á meginlandi Evrópu. Árið 2017 varð aftur vindfall vegna stórviðra og í byrjun vaxartímans 2018 voru skilyrði sérlega óhagstæð fyrir rauðgrenið sem enn veikti mótstöðu trjánna. Það er því margt sem hefur verið rauðgreninu í óhag undanfarin ár í Tékklandi og víðar. Heilbrigð tré gea varist barkarbjöllunni með því að seyta trjákvoðu sem flæðir út kvikindin og inniheldur jafnvel efni sem drepa þau. Í langvarandi þurrkum dregur úr þessum varnarmætti trjánna og barkarbjallan nær sér á strik.

Í eðlilegu árferði er barkarbjallan mikilvægur hlekkur í lífkeðjunni. Hún hjálpar til við endurnýjun skógarins með því að drepa veikluð tré og flýta fyrir niðurbroti þeirra þannig að næringarefnin komist aftur í umferð. Bjallan og lirfur hennar eru líka mikilvæg næring fyrir náttúrlega óvini hennar. Helsti óvinurinn er spætan sem heggur sér leið í gegnum börkinn til að nærast á bjöllulirfunum sem þrífast undir berkinum. Einhverjir sveppasjúkdómar valda líka afföllum hjá bjöllulirfunum.

Deilt um nytsemi aðgerða

Menn hefur greint á um hvort rétt sé að grípa til aðgerða gegn barkarbjöllufaraldrinum með því til dæmis að rjóðurfella  á blettum þar sem barkarbjöllunnar verður vart. Einnig hefur verið reynt að setja upp „gildrutré“ á ákveðnum tíma í fjölgunarferli barkarbjöllunnar og afbarka þessi tré þegar lirfurnar hafa náð ákveðnu stigi. Jafnframt er talað um að fjarlægja þurfi veikluð og dauð tré úr skóginum. Timburiðnaðurinn þrýstir á um slíkar aðgerðir en margir telja að aðgerðirnar geti gert illt verra og skógurinn muni ná sér að nýju. Meðal annars er bent á að erfitt sé að greina tré sem sýkst hafa af bjöllunni fyrr en það er um seinan.

Á umræddu svæði í norðanverðu Tékklandi eru aðstæður til skógarhöggs frekar erfiðar, brattar hlíðar og stórgrýtt undirlag. Þrátt fyrir skýr lög í landinu um að eigandinn verði að fella dauðu trén hika menn við að ráðast í slíkt því kostnaðurinn við skógarhöggið og flutning á efninu er meiri en það sem fæst fyrir timbrið. Þannig heldur eigandinn að sér höndum með framkvæmdir. Vladimir skógarvörður telur líklegast að í skóginum sem hann sér um verði trén felld og svo látinn liggja og rotna niður í skóginum.

Óvíst er því hvernig fer fyrir rauðgreniskóginum á þessum slóðum. En menn hafa ekki gefist upp á rauðgreninu enn þá enda er þetta mjög mikilvæg tegund fyrir timburiðnaðinn. Vonir eru bundnar við að aukin blöndun annarra tegunda við rauðgrenið styrki mótstöðuafl skógarins. Erfitt er þó að segja um hvaða áhrif loftslagsröskunin í heiminum hefur á komandi árum, hvort þeim áföllum sem dunið hafa yfir í skógunum undanfarin ár linnir eða hvort þau halda áfram og jafnvel versna.

Texti: Pétur Halldórsson
Frásögn og myndir: Bjarki Þór Kjartansson