Börn úr sjöttabekk í Ártúnsskóla tala af innlifun um það hvernig skógurinn er notaður í skólastarfin…
Börn úr sjöttabekk í Ártúnsskóla tala af innlifun um það hvernig skógurinn er notaður í skólastarfinu og hvað þau hafa lært um skóginn. Hlynur Gauti Sigurðsson með tökuvélina. Ljósmynd: Ólafur Oddsson

Um þessar mundir standa yfir tökur á myndefni sem notað verður í fréttaflutningi Krakkafrétta í Sjónvarpinu. Efnið verður einnig notað til að búa til myndband Skógræktarinnar um alþjóðlegan dag skóga 21. mars sem helgaður er skógum og fræðslu þetta árið

Leitað var eftir samstarfi við Ártúnsskóla í Reykjavík sem hefur allt frá árinu 2004 notað grenndarskóg sinn í skólastarfi með margvíslegum hætti.

Nemendur í sjötta bekk skólans taka þátt í verkefninu og skiptast á að taka að sér mismunandi hlutverk við myndbandsgerðina. Fjallað hefur verið um skógarhirðu, kolefnisbindingu og súrefnisframleiðslu heilbrigða skógarins, uppkvistun í skóginum, tré hafa verið felld eftir þéttleikamælingu og viðurinn hafður til viðarnytja s.s. til hljóðfæragerðar og eldiviðarvinnslu. Eftir er að fjalla betur um eldiviðinn, eldbakstur og tálgun í skapandi skólastarfi. Næstu tökur verða föstudaginn 8. febrúar.

Handritsgerð er í höndum Ólafs Oddssonar, fræðslustjóra Skógræktarinnar, en Hlynur Gauti Sigurðsson sér um myndatöku. Anna Sigríður Skúladóttir og Sesselja Guðmundsdóttir, kennarar í Ártúnsskóla, sjá um það skipulag verkefnisins sem að skólanum snýr.

Spennandi verður að sjá útkomuna í Krakkafréttum á Krakkarúv næstu mánuði og svo auðvitað myndbandið sem Ísland leggur fram á alþjóðlegum degi skóga 21. mars.

Texti: Ólafur Oddsson og Pétur Halldórsson
Ljósmyndir: Ólafur Oddsson