Nemendur úr Grunnskóla Drangsness að klippa tvítoppa og snyrta tré í skóginum sínum á Klúku í Bjarna…
Nemendur úr Grunnskóla Drangsness að klippa tvítoppa og snyrta tré í skóginum sínum á Klúku í Bjarnarfirði. Ljósmynd: Arnlín Óladóttir

Skógarvinna er reglulegur þáttur í skólastarfi barnanna í Grunnskóla Drangsness. Skógarreitur skólans er á Klúku í Bjarnarfirði og þar fara þau vor og haust til að rækta meira, hlúa að því sem fyrir er, mæla trén, rannsaka annan gróður og njóta lífsins.

Arnlín Óladóttir, skógræktarráðgjafi Skógræktarinnar á Ströndum, sendi meðfylgjandi texta og myndir af efnilegu ungu skógræktarfólki úr skólanum á Drangsnesi þegar þau voru að störfum í skóginum sínum í blíðviðri í síðustu viku en líka myndir frá fyrri árum. Arnlín skrifar:

Það eru ekki miklir skógar á Ströndum en skólabörnin á Drangsnesi hugsa langt fram í tímann og hafa undanfarin 10 ár gróðursett og sinnt um skógarlund á Klúku í Bjarnarfirði með þann draum í farteskinu að næsta kynslóð njóti afrakstursins í skjóli skógarins.

Krakkarnir fara tvisvar á ári í skóginn, að vori og hausti. Þau hafa gróðursett, reytt gras frá smáplöntum og gefið áburð og núna síðustu ár er komið að því að klippa neðstu greinar af völdum trjám. Þá hafa þau farið í ratleik til að þekkja mismunandi trjátegundir, mælt hæð trjánna til að fylgjast með vexti þeirra og skoðað blóm og grös sem vaxa í lundinum.

Þann 19. maí sl. var tekið rösklega til hendinni. Öll tré sem enn eru lítil eða vesæl fengu áburð og umönnun. Einnig voru klipptir tvístofnar og neðstu greinar (og stundum aðeins meira). Síðan voru mæld um 50 tré, lerki og birki. Hæsta tréð er lerki og mældist 2,7 metrar en árið 2017 var hæsta tréð 2,2 metrar. Auðvitað þarf líka að borða nesti og njóta og loks var farið í bað í volga læknum á Klúku.

Skogur.is þakkar þessa gleðilegu sendingu. Gaman er að sjá metnaðarfullt fræðslustarf í grenndarskógum skólanna á landinu. Það eykur bjartsýni um framtíð skóga og skógræktar á Íslandi.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson