Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Verkefnisstjórn um gerð landsáætlunar í skógrækt hefur tekið saman drög að lýsingu þar sem gerð er grein fyrir þeim áherslum sem fyrirhugað er að hafa við gerð áætlunarinnar, svo sem um forsendur, viðfangsefni og fyrirhugaða kynningu og samráð við mótun áætlunarinnar. Frestur til að skila umsögnum um drögin rennur út 31. janúar.

Til umsagnar

Umsagnarfrestur rennur út 31. janúar 2020. Umsagnir eru birtar á Samráðsgátt stjórnvalda jafnóðum og þær berast. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem berast.

Málsefni

Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði verkefnisstjórn um gerð landsáætlunar í skógrækt í júní 2019. Meðal fyrstu verka verkefnisstjórnarinnar var að taka saman drög að lýsingu sem birt var á Samráðsgátt stjórnvalda 18. desember. Í lýsingunni skal gerð grein fyrir þeim áherslum sem fyrirhugað er að hafa við gerð áætlunarinnar, svo sem um forsendur, viðfangsefni og fyrirhugaða kynningu og samráð við mótun áætlunarinnar.

Lýsing vinnu við landsáætlun í skógrækt

Verkefnisstjórn um gerð landsáætlunar í skógrækt, sem skipuð var af umhverfis- og auðlindaráðherra í júní sl., hefur tekið saman drög að lýsingu þar sem gerð er grein fyrir þeim áherslum sem fyrirhugað er að hafa við gerð áætlunarinnar, svo sem um forsendur, viðfangsefni og fyrirhugaða kynningu og samráð við mótun áætlunarinnar.

Landsáætlun í skógrækt er gerð til tíu ára í senn. Í henni skal kveða á um stefnu stjórnvalda þar sem fjallað er um stöðu og framtíð skóga í landinu, ásamt tölusettum markmiðum um árangur í skógrækt með hliðsjón af markmiðum laganna. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna skal í áætluninni gera grein fyrir:

  • forsendum fyrir vali á landi til skógræktar með tilliti til náttúruverndar, minjaverndar og landslags
  • vernd og endurheimt náttúruskóga
  • ræktun skóga til uppbyggingar skógarauðlindar og umfangi og horfum hvað varðar nýtingu
  • sjálfbærri nýtingu skóga
  • áhrifum skógræktar á atvinnuþróun og byggð
  • aðgengi fólks að skógum til útivistar
  • skógrækt í samhengi líffræðilegrar fjölbreytni
  • skógrækt í samhengi loftslagsbreytinga
  • öflun þekkingar á skógum og skógrækt og miðlun hennar
  • eftirliti með ástandi og nýtingu skóga
  • eldvörnum og öryggismálum

Jafnframt skal horft til þess að ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla og samþætta áætlunina við aðrar áætlanir ríkis og sveitarfélaga sem og alþjóðlegar skuldbindingar.

Áherslur ráðuneytisins

Með vísan til markmiða laga um skóga og skógrækt og ákvæða 4. gr. um innihald landsáætlunar leggur ráðuneytið áherslu á að verkefnisstjórn fjalli um hvernig unnið verði að þeim markmiðum, sett verði fram framtíðarsýn til langs tíma og skilgreind markmið og aðgerðaáætlun með skilgreindum mælikvörðum á árangur. Jafnframt er lögð sérstök áhersla á að í landsáætlun í skógrækt sé fjallað um endurheimt náttúruskóga á stórum samfelldum svæðum og skógrækt í samhengi loftslagsmála og líffræðilegrar fjölbreytni. Gera skal sérstaklega grein fyrir notkun tegunda í skógrækt og tryggja að ekki verði notaðar ágengar framandi tegundir sem numið geta land og dreift sér. Mikilvægt er að skoðað sé sérstaklega hvernig auka megi þátttöku einstaklinga, félagasamtaka, sjálfboðaliða o.fl. í skógræktarstarfinu og hvernig útfæra megi samstarf einkaaðila og ríkisins.

Þar sem mikil tengsl eru milli viðfangsefna við gerð landsáætlunar í skógrækt og við gerð landgræðsluáætlunar sbr 6. gr. laga nr 155/2018 um landgræðslu skal verkefnisstjórn um gerð landsáætlunar hafa samráð eins og þurfa þykir við verkefnisstjórn um gerð landgræðsluáætlunar til að tryggja samræmingu vinnulags og viðfangsefna.

Gert er ráð fyrir að verkefnisstjórnin skili tillögum að landsáætlun í skógrækt til ráðherra fyrir 1. september 2020.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan

Sett á skogur.is:  Pétur Halldórsson