Fjölbreyttur nytjaskógur er mjög auðugt vistkerfi og fóstrar mikla líffjölbreytni. Ræktun slíks skóg…
Fjölbreyttur nytjaskógur er mjög auðugt vistkerfi og fóstrar mikla líffjölbreytni. Ræktun slíks skógar má kalla eina leið til vistheimtar. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Í umræðu um landnotkun, landvernd og landeflingu á Íslandi eru deilur áberandi um annað hvort eða. Annað hvort er skógrækt eða sauðfjárrækt. Annað hvort er að stækka skóglendi landsins eða stækka votlendi. Annað hvort er að hætta allri skógrækt eða að lóan og spóinn deyi út. Sannleikurinn er sá að í loftslagsbaráttunni þarf að nota margar góðar aðferðir. Ein þeirra er skógrækt.

Tvíhyggjan er allsráðandi. Svo er sem fólk eigi annað hvort að vera með eða á móti skógrækt, með eða á móti sauðfjárrækt, með eða á móti verndarsvæðum, með eða á móti því að fylla í skurði, með eða á móti birki, með eða á móti furu eða hvað það nú er. Slík umræða er eins og borg með eintómum blindgötum. Fólk lokast inni í eigin botnlanga og sér aðeins í aðra áttina. 

Við þurfum að líta í allar áttir. Descartes kenndi okkur á sínum tíma að trúa aldrei neinu fullkomlega, búast alltaf við því að við hefðum rangt fyrir okkur og leita alltaf að enn betri niðurstöðu, jafnvel þótt okkur fyndist sú síðasta alveg frábær og tryðum því varla að lengra yrði komist. Það er hin gagnrýna hugsun. 

Aðhald er gott

Skógrækt hefur búið við gagnrýni allt frá því að farið var að þoka slíkum málum af stað undir lok 19. aldar. Það hefur verið hollt öllu því fólki sem unnið hefur að skógrækt í landinu og greinin hefur haft mjög gott af sterku aðhaldi úr ýmsum áttum. Að einhverju leyti má þakka þessu stöðuga, gagnrýna aðhaldi að nú er skógrækt á Íslandi mun þróaðri grein en búast mætti við ef litið væri eingöngu til þess hversu lítil hún er og hversu lítinn hluta landsins skógar þekja. Ræktaðir skógar eru nú á tæpu hálfu prósenti Íslands en frá því að Skógræktin tók að friða birkiskóga árið 1905 hefur tekist að breiða þá út á um einu og hálfu prósenti þess. Síðustu gömlu skógarnir voru mjög illa farnir og komnir niður fyrir eitt prósent svo litlu munaði að þeir hyrfu alveg. Árangurinn af útbreiðslu birkis er því miklu meiri en árangurinn af skógrækt með gróðursetningu. En skógrækt á Íslandi þiggur gagnrýnina áfram með þökkum.

Rétt skal þó vera rétt. Skógræktarfólk er ekki á móti því að votlendi sé endurheimt. Að benda á að skógrækt geti verið valkostur á framræstu landi og jafnvel haft svipaðan eða meiri loftslagsávinning í för með sér og endurheimtin er ekki sama sem andstaða við endurheimtina. Allir valkostirnir þrír hafa einhver áhrif. Að láta framræsta landið kjurt, að bleyta það á ný eða rækta á því skóg, allt getur þetta skipt máli fyrir lífríkið ekki síður en loftslagið. Öll breyting á landnotkun breytir tegundasamsetningu lífvera með einhverjum hætti. Við þurfum bara að vanda okkur. Loftslagsávinningur af endurheimt votlendis á framræstu landi felst í því að minnka losun frá viðkomandi landi. Loftslagsávinningur skógræktar á sama landi getur verið jafnmikill og jafnvel meiri samkvæmt tilraunum á Sandlækjarmýri. Báðar leiðirnar eru því góðar. Sums staðar hentar landeiganda að bleyta, sums staðar að rækta skóg, sums staðar hvorugt. Ekkert annað hvort eða, mýri eða skógur.

Skógræktarfólk er ekki á móti sauðfjárrækt þótt það telji óréttlátt að skógareigendur þurfi að girða fé annarra frá skógum sínum í stað þess að fjáreigendur girði fé sitt inni. Í vaxandi mæli er líka bent á þann möguleika að nýta ræktaðan skóg sem beitiland eða jafnvel rækta upp hagaskóg sérstaklega. Ekkert annað hvort eða, kindur eða skógur.

Stöðug binding í nytjaskógi

Að uppnefna ræktaða skóga á Íslandi „plantekrur“ eins og Snorri Baldursson, deildarforseti við LbhÍ, gerði í síðasta tölublaði Bændablaðsins er ekki málefnalegt. Hann talar vel um vistheimt en niður til skógræktar og annarrar ræktunar. Ræktaðir skógar á Íslandi eru langlífir og í þeim þroskast skógarvistkerfi. Grisjun skóganna hjálpar til svo vistkerfi skógarins verði fjölbreytt og heilbrigt. Vissulega er skógurinn loks felldur en ef hann er ræktaður með sjálfbærum hætti hverfur hann ekki. Kolefnisbinding heldur áfram. Skógurinn vex aftur upp, ýmist af fræi eða gróðursettum plöntum. Samfelldur skógur, samfelld binding.

Jafnvel þótt ein eða fáar trjátegundir séu ríkjandi í skógi hefur það ekkert gildi að uppnefna skóginn plantekru. Íslenskir birkiskógar eru að mestu ein trjátegund, birki, með stöku reynivið og víði inn á milli. Í frumskógum víða um heim er gjarnan ein tegund ríkjandi þótt það eigi ekki við um regnskóga hitabeltisins. Tegundafjölbreytni í íslenskum nytjaskógum er síst minni en víða er í villtum skógum. Nytjaskóga má rækta með þeim hætti að þeir verði öflug, fjölbreytt og gjöful vistkerfi og það er gert á Íslandi.

Áðurnefndur deildarforseti LbhÍ, sem raunar er yfirmaður skógfræðináms við skólann, gefur ranga mynd af nytjaskógrækt í grein sinni í síðasta Bændablaði. Hann segir að í nytjaskógunum sem hann uppnefnir plantekrur bindist vissulega mikið kolefni á stuttum tíma en ofanjarðarhluti þess kolefnis sé fjarlægður eftir einhverja áratugi og mestu af því brennt aftur og losað út í andrúmsloftið. Sannarlega er iðnviður til brennslu mikilvægur því það er miklu betra að fá brenni úr skógi en nota kol, olíu eða gas. Þetta er alkunna. Svo er það keppikefli í íslenskum skógarnytjum að þróa notkunarmöguleika viðarins sem fela í sér varðveislu kolefnisins í honum til lengri tíma, t.d. í byggingum eða húsgögnum.

Bæði náttúruskóga og nytjaskóga

Snorri gefur í skyn að skógrækt sé ekki lausn á loftslagsvanda mannkyns heldur viðhaldi hún þvert á móti neyslusamfélaginu og skyndilausnum þess. Hann vitnar til greinar eftir Simon L. Lewis í tímaritinu Nature þar sem fullyrt sé að endurheimt náttúruskóga í hitabeltinu sé mun áhrifaríkari og varanlegri leið til að binda kolefni en „plantekruskógar“ eins og hann kýs að kalla nytjaskóga. Munurinn geti verið allt að fertugfaldur, náttúruskógum í vil.

Asparskógur á Mógilsá. Með ræktun alaskaaspar má fá verðmætar afurðir á aldarfjórðungi. Eftir skógarhöggið vaxa aspirnar upp aftur, binda nýtt kolefni og gefa aftur verðmætar afurðir eftir aldarfjórðung eða minna. Ljósmynd: Pétur HalldórssonHér er verið að afvegaleiða lesendur sem er ekki gott. Í grein Lewis er einungis fjallað um samanburð á ræktuðum skógum Eucalyptus- og Acacia-tegunda í hitabeltinu, sem eru ræktaðir í mjög þröngum tilgangi til pappírsframleiðslu, og náttúrlegum regnskógum sem ekki eru felldir. Trén í fyrrnefndu skógunum eru felld eftir 10 ár eða svo frá gróðursetningu. Ekkert af því sem þarna er til umfjöllunar á við um skógrækt á Íslandi, ekki einu sinni um asparrækt á 25 ára lotum. Því síður er hægt að bera saman annars vegar regnskóga með 100 trjátegundir á hektara, tré sem verða 80 m há, og hins vegar íslenska náttúruskóga sem að mestu eru ein trjátegund, tré sem oftast eru undir 2 m á hæð og verða sjaldnast nema 50 ára gömul.

Þegar allt kemur til alls er hér á ferðinni tvíhyggjan sem ég nefndi í upphafi. Að við eigum ekki að rækta nytjaskóg af því að það sé miklu réttara að útbreiða náttúruskóga. Að við eigum ekki að rækta nytjaskóg af því að aðrar aðferðir séu betri í loftslagsbaráttunni. Skógræktin hefur unnið að því að friða og útbreiða náttúruskóga á aðra öld og heldur því áfram. Birkiskógarnir hafa á þeim tíma breiðst margfalt meira út en ræktuðu skógarnir. Ræktuðu skógarnir binda hins vegar miklu meira á hverjum hektara lands, gefa annars konar verðmæti en birkiskógar og líffjölbreytni er síst minni. Gerum hvort tveggja áfram!

Engin ein leið

Loks svolítið um hugtakið vistheimt. Hvað er verið að heimta með því? Eitthvað sem áður var? Getur einhver náttúrufræðingur með vísindalegum hætti haldið því fram að hægt sé að endurskapa í náttúrunni eitthvað sem áður var en er nú horfið? Nei, náttúran er síbreytileg. Við getum náð miklum loftslagsárangri með því að breiða birkiskóglendi út á ný en þeir skógar verða ekki eins og þeir sem hér voru við landnám, hvað þá þegar meðalhiti hækkar. Í þeim verða margar lífverur sem þá fundust ekki á Íslandi. Samt er mjög gott að stækka sem mest á ný þau vistkerfi sem líkjast meira eða minna þeim sem áður voru. Skógar annarra tegunda líkjast reyndar birkiskógum á ýmsan hátt og því er ræktun þeirra ákveðin vistheimt sömuleiðis. Hvort tveggja gildir. 

Við getum líka bundið mjög mikið kolefni með nytjaskógum og það á örlitlu broti landsins. Nú þegar binda nytjaskógar á Íslandi um 10% á móti losun landsmanna, jafnvel þótt þeir séu einungis á hálfu prósenti landsins. Ef þeir væru tíu sinnum stærri byndu þeir allt kolefnið sem þjóðin losar. Samt væru þeir bara á 5% landsins sem þætti þó enn lítil skógarþekja í samanburði heimsins. Engin ein leið er „eina ásættanlega leiðin“ til að bæta kolefnisbúskap landsvæða. Við þurfum að nota margar leiðir.

Texti: Pétur Halldórsson