Ung ágrædd lerkitré sem gróðursett voru haustið 2016 í Fræhöllinni á Vöglum Fnjóskadal eru þegar far…
Ung ágrædd lerkitré sem gróðursett voru haustið 2016 í Fræhöllinni á Vöglum Fnjóskadal eru þegar farin að blómstra og bera líklega fræ í fyrsta sinn á komandi hausti. Af þeim fræjum vex lerkiblendingurinn Hrymur sem fjallað er um í myndbandi skógasviðs Nordgen. Ljósmynd tekin 21. mars 2018: Pétur Halldórsson

Í tengslum við þemadag Nordgen sem var liður í Fagráðstefnu skógræktar á Akureyri 2018 var útbúið myndband um starfsemi skógasviðs Nordgen. Meðal annars var sagt þar frá ræktun lerkiblendingsins Hryms sem fram fer í Fræhöll Skógræktarinnar á Vöglum Fnjóskadal. Frævun hófst þar einmitt í dag á alþjóðlegum degi skóga.

NordGen er sameiginleg stofnun Norðurlandaþjóðanna um erfðaauðlindir og innan hennar er svið sem fjallar um erfðaauðlindir trjáa og skóga. Þetta skógasvið Nordgen heldur þemadag tvisvar á ári og skiptast aðildarþjóðirnar á að vera gestgjafar. Fyrri dagur Fagráðstefnu skógræktar 2018 var slíkur þemadagur og fór fram í Hofi á Akureyri. Þar var samankominn góður hópur vísindafólks á sviði skógerfðafræði og meðal þess sem var á dagskránni var skoðunarferð í Vaglaskóg þar sem fram fer stýrð víxlun á úrvalstrjám rússalerkis og Evrópulerkis.

Tákmynd fyrir myndbandiðTekin voru viðtöl við þátttakendur í þemadegi Nordgen á Akureyri og Vöglum og afraksturinn er áðurnefnt myndband. Þar má fá dálitla hugmynd um almennt hlutverk og starfsemi skógasviðs Nordgen en einnig segir Árni Bragason landgræðslustjóri frá því hvernig þetta samstarf gagnast Íslendingum og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri segir frá ræktun Hryms í stóra gróðurhúsinu í Vaglaskógi sem ýmist er kallað Fræhúsið eða Fræhöllin. Segja má að Hrymur öðlist sífellt meiri frægð, meðal annars sem kvikmyndastjarna.

Þessa dagana eru trén í Fræhöllinni einmitt að blómstra og á alþjóðlegum degi skóga í dag, 21. mars hófst frævun í húsinu. Þá er frjó hrist af annarri lerkitegundinni og borið yfir á þau blóm sem eru tilbúin á hinni tegundinni. Venjan er að starfsfólk á Akureyrarskrifstofu Skógræktarinnar komi til aðstoðar við þetta verk sem getur tekið nokkra daga í röð. Útlit er fyrir allgóða blómgun þetta árið, sérstaklega af karlblómum á rússalerkinu.

Brynjar Skúlason skógerfðafræðingur penslar frjói af rússalerki á blóm ungs evrópulerkis sem bera mun Hrymfræ í fyrsta sinn á komandi hausti. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Vorið 2016 voru gróðursett fleiri lerkitré í Fræhöllinni á Vöglum með það að markmiði að auka framleiðslu á Hrymsfræi. Þetta eru sem fyrr stofnar með ágræddum sprotum af þeim trjám sem best hafa reynst í Fræhöllinni og gefa þau því von um góðan árangur. Sum þessara ungu trjáa blómstra nú kröftuglega og munu því væntanlega gefa fræ strax í haust, aðeins þremur árum eftir að þeim var komið fyrir í húsinu. Vonandi verður því góð uppskera í haust af fræi blendingsins sem reynst hefur svo þróttmikill og fljótsprottinn í skógrækt víða um landið.

Ýmislegt fleira fer þó fram í Fræhöllinni á Vöglum. Þar eru í uppeldi ágræddar stafafurur með sprotum af úrvalstrjám til jólatrjáaframleiðslu og einnig lítillega af alaskaösp og fjallaþin svo nokkuð sé nefnt. Allt er þetta hluti af kynbótastarfi Skógræktarinnar á þeim trjátegundum sem eru notaðar í skógrækt á Íslandi.

Valgerður Jónsdóttir, Benjamín Örn Davíðsson og Brynjar Skúlason virða fyrir sér ágræddar stafafurur sem eiga að gefa fræ til ræktunar úrvalsjólatrjáa. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

 

Þótt ágræddu sprotarnir séu bara frá síðasta ári eru þeir strax farnir að blómstra. Hér sjást karlreklar. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Og hér er köngull byrjaður að vaxa á ungum ágræddum stafafurusprota. Þessi bráðþroski helgast af því að ágræðslusprotarnir voru teknir af þroskuðum trjám og því má ef til vill segja að tréð sem á eftir að vaxa upp af þessari grein hafi fæðst gamalt. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Texti: Pétur Halldórsson