Wiki-mynd: Pxhere.com.
Wiki-mynd: Pxhere.com.

Hönnuðir hjá fyrirtækinu Límtré-Vírneti sem vinna að tilraunum með framleiðslu byggingareininga úr íslensku timbri sjá fyrir sér að hægt verði að hefja blómlegan timburiðnað á Íslandi á næstu árum og áratugum. Fjallað var um timburháhýsi og íslenskt límtré í Samfélaginu á Rás 1 í síðustu viku.

Friðrik Páll Jónsson fjallaði í vikulegum pistli sínum í Samfélaginu 30. apríl um vaxandi áhuga víða um heiminn á að nota timbur í stað stáls og steinsteypu í húsbyggingar til að draga úr loftslagsáhrifum byggingariðnaðarins. Friðrik Páll lýsti gerð hæsta timburhúss heims sem nú stendur, Mjøstårnet í Noregi og áætlunum um enn stærri háhýsi úr timbri, til dæmis fjórfalt hærra húsi sem Japanar hyggjast reisa.

Fram kemur í pistlinum að kosturinn við timburhús sé margvíslegur. Kolefnissporið sé miklu minna, byggingartími styttri, þau séu gerð úr einingum sem framleiddar eru í verksmiðjum og enn fremur sé auðvelt að taka þau í sundur og byggja ný samkvæmt breyttum kröfum og minna af efninu fari til spillis. Sömuleiðis sé akstur vörubíla til og frá byggingarsvæði timburhúss  miklu minni en við steypubyggingar svo nokkuð sé nefnt. Lesa má pistilinn eða hlusta á hann hér.

Á fimmtudaginn, 2. maí,  var síðan rætt í sama útvarpsþætti við tvo sérfræðinga um byggingatimbur, þá Bjarna Ingibergsson og Loga Unnarson Jónsson, hönnuði hjá Límtré Vírneti. Fyrirtækið vinnur nú að því í samvinnu við Skógræktina og Nýsköpunarmiðstöð Íslands að gera tilraunir með framleiðslu á límtré og krosslímdum byggingareiningum úr fjórum íslenskum viðartegundum. Þetta er greni, fura, ösp og lerki. Nú hefur timbrið verið þurrkað og þessa dagana er að hefjast vinna við að líma. Að því búnu tekur Nýsköpunarmiðstöð við samlímdu einingunum og gerir á þeim ýmis próf, meðal annars á burðarþoli.

Þeir Bjarni og Logi segja að mikil þróun sé á þessu sviði í heiminum. Stórhýsi úr timbri séu að minnsta kosti jafnörugg og hús úr stáli og steinsteypu, jafnvel öruggari, til dæmis í jarðskjálftum og eldsvoða. Þykkar einingar úr samlímdu timbri séu lengi að brenna og burðarþol eininga í húsum eins og Mjøstårnet í Noregi haldist að minnsta kosti tvo klukkutíma í bruna.

Umhverfisvænasta hús sem hægt er að hugsa sér er reist úr timbri sem fengið er úr garðinum við húsið, segja þeir félagar. Það er því mikill akkur í því fyrir Íslendinga að geta notað timbur úr eigin skógum í hús framtíðarinnar. Og þótt skógarnir séu ungir sjá þeir möguleika á því að nota granna boli, jafnvel grisjunarefni, í framleiðslu á samlímdum einingum til húsbygginga. Þeir sjá því fyrir sér að hægt verði að hefja blómlegan timburiðnað á Íslandi á næstu árum og áratugum.

Íslensku viðartegundirnar eru ólíkar. Til dæmis er lerki nokkuð harður viður en öspin mjúk og líklega með heldur minni styrk. Þeir Bjarni og Logi segja hins vegar spennandi að sjá hvernig öspin kemur út því hún vex hratt og sýnilegt að talsvert framboð verði á henni á næstunni, til dæmis með grisjunum. Þeir segja að þróun hafi verið mjög hröð undanfarin ár í heiminum, sérstaklega í framleiðslu á krosslímdum byggingareiningum sem meðal annars má gera úr lakari og ódýrari viði en hefðbundnar límtréseiningar.

Texti: Pétur Halldórsson