Mynd: Trailteam.is
Mynd: Trailteam.is
Trailteam.is 23. febrúar 2020

Notkun á íslensku timbri er orðin snar þáttur í starfi sjálfboðaliðanna sem starfa á Þórsmörk og nágrenni á sumrin undir merkjum Thórsmörk Trail Volunteers. Vandaðar tröppur koma í veg fyrir gróður- og jarðvegseyðingu og auka þægindi göngufólks.

Leitast er við að nota grjót í tröppur þar sem það er fáanlegt í grennd við stígana. Víða er því ekki að sælda og lítið um hentugt efni við höndina til að gera nauðsynlegar úrbætur. Frá því að sjálboðaliðastarfið undir merkjum Thórsmörk Trail Volunteers hófst sumarið 2010 hafa sjálfboðahóparnir þróað vinnubrögð og tækni við stígagerðina, meðal annars notkun á timbri úr þjóðskógum Suðurlands. Nokkrar mismunandi trjátegundir hafa verið reyndar en mest hefur verið notað af íslensku sitkagreni.

Reynt er að gera nýjar tröppur heldur breiðari en stígurinn sem fyrir er til þess að koma í veg fyrir vatnsrennsli í stígnum og þar með draga úr hættunni á jarðvegsrofi. Miðað er við að tröppur séu að jafnaði ekki hærri en 15 sentímetrar svo að þægilegt sé að ganga þær. Lágar tröppur eru sérstaklega mikilvægar fyrir göngufólk með þungar byrðar. Þá er líka reynt að hafa jafnt bil á milli trappanna. Langir drumbar eru notaðir til að útbúa ræsi sem hleypa vatni út í þéttan gróðursvörð eins og sést á mynd númer tvö hér að neðan. Þetta dregur úr hættunni á að regn- og leysingarvatn grafi úr tröppunum eða komi af stað rofi utan stígsins.

Oft er líka gott að nota timbur til að styrkja hliðar á tröppum, sérstaklega þar sem tröppur eru lagðar yfir grjót og klappir. Þetta tryggir betur að malarefni í tröppum haldist á sínum stað, sjá þriðju myndina hér að neðan. Við nýlegar lagfæringar má gjarnan sjá gróskumikið rýgresi vaxa með fram stígum og tröppum. Þetta er einær eða í mesta lagi tvíær grastegund sem notuð er til að binda saman jarðveginn og mynda set fyrir gróðurinn sem fyrir er á svæðinu. Sáning rýgresis flýtir fyrir því að ummerki um rask vegna framkvæmdanna hverfi og mannvirkin falli sem best inn í landslagið. Ella væri hætt við að laus jarðefni myndu skolast burt á fyrsta vetri eftir framkvæmdirnar.

Í sumar verður haldið áfram við að útbúa stígamannvirki úr íslensku timbri á verndarsvæðunum sem eru í umsjón Skógræktarinnar á Þórsmörk og Goðalandi. Tugir sjálfboðaliða verða þar að störfum með bækistöðvar í bæði í Langadal og Básum. Sjálfboðaliðar taka líka að sér gróðursetningu í þjóðskógunum sem meðal annars er mótvægi við kolefnislosun vegna ferðalaga þeirra til Íslands. Þessa dagana er verið að fara yfir umsóknir og velja úr hæfustu einstaklingana til starfanna í sumar.

Heimild: Forest Service - Trail building with timber
Texti: Pétur Halldórsson