Skógræktin hefur gert samkomulag við Límtré Vírnet og Nýsköpunarmiðstöð Íslands um tilraunavinnslu á íslensku timbri til límtrésframleiðslu. Öflun viðar til verkefnisins hefst í næstu viku.

Björn Bjarndal Jónsson, verkefnastjóri afurðamála hjá Skógræktinni, hefur átt í viðræðum við Límtré Vírnet og Nýsköpunarmiðstöð Íslands undanfarin misseri. Hann segist finna fyrir miklum áhuga á vinnslu sem þessari, bæði innan Skógræktarinnar og hjá þessum nýju samstarfsaðilum. Timburvinnslufyrirtækjum sé akkur í því að geta sýnt fram á að tiltekið hlutfall framleiðslunnar sé unnið úr heimafengnu hráefni og vaxandi kröfur verði um slíkt í framtíðinni. Sömuleiðis sé áhugavert að finna aðferðir til að búa til aukin verðmæti úr þeim grönnu bolum sem til falla við grisjun íslenskra skóga. 

Í samningi sem undirritaður var 10. janúar kemur fram að Skógræktin leggi fram án endurgjalds alls fjóra rúmmetra af flettu efni úr furu, ösp, greni og lerki í tilraunavinnslu með þurrkun og límingu. Gerðar verða límtrésprufur úr öllum fjórum viðartegundunum en Límtré Vírnet sér um að þurrka efnið og líma í fyrir fram uppgefnar stærðareiningar. Einnig verður styrkur efnisins prófaður og sér Nýsköpunarmiðstöð Íslands um að túlka niðurstöður mælinganna. Niðurstöður eiga að liggja fyrir um miðbik þessa árs.

Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, segir að strax í næstu viku verði farið að safna efni til þessarar tilraunavinnslu. Á meðfylgjandi mynd er Trausti skógarvörður í miðið og með honum Logi Unnarson Jónsson frá Límtré Vírneti (t.v.)og Eiríkur Þorsteinsson frá Nýsköpunnarmiðstöð Íslands (t.h.).

Texti: Pétur Halldórsson