Myndarlegt birkið er víða illa brotið í Mela- og Skuggabjargaskógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Myndarlegt birkið er víða illa brotið í Mela- og Skuggabjargaskógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Birkiskógurinn í landi Mela og Skuggabjarga í Dalsmynni er illa farinn eftir snjóþyngsli og ofviðri síðasta vetrar. Enn standa þó eftir mörg af hæstu birkitrjánum í skóginum sem eru um 14 metrar á hæð.

Þó að í daglegu tali sé talað um Mela- og Skuggabjargaskóg að þá er stærsti hluti skógarins á svæði sem nefnt var Stórhöfðaskógur og tilheyrði Þverá, jörðinni hinum megin við ána. Skógurinn er þjóðskógur í umsjón Skógræktarinnar. Hann er meðal stórvöxnustu og mestu birkiskóga landsins. Birkið þar er síst lakara en í Hallormsstaðaskógi, Vaglaskógi og Bæjarstaðaskógi.

Þetta er með öðrum orðum einn af stórskógum Íslands en svolítið úr alfaraleið svo að fæst fólk hefur heimsótt hann. Best er að komast að honum með því að aka norður Fnjóskadal að vestan að bænum Draflastöðum. Þaðan liggur jeppavegur áfram gegnum skóginn en leiðin er líka skemmtileg göngu- eða hjólaleið og rómuð reiðleið sem er mikið notuð.

Snjóbrot á liðnum vetri

Veturinn 2019-2020 fóru skógar víða illa á Norðurlandi af snjóþyngslum og hvassviðri. Einkum lék óveðrið sem gekk yfir landið 10. desember 2019 trén illa. Miklu kyngdi niður af blautum snjó sem festist á trjánum og fraus fastur. Hvassviðri í kjölfarið braut víða tré sem sliguð voru af snjó. Birki var víða sérstaklega illa leikið en einnig greni, fura og fleiri tegundir. Verulegar skemmdir urðu í Mela- og Skuggabjargaskógi eins og meðfylgjandi myndir sýna.

Á nokkrum stöðum í Mela- og Skuggabjargaskógi er að finna einhver hæstu villtu birkitré landsins, upp undir 14 metra há. Nokkur þessara stórtrjáa brotnuðu illa síðasta vetur en sem betur fer standa mörg þeirra enn. Rúnar Ísleifsson, skógarvörður á Vöglum, fór með mælistiku í skóginn síðla sumars og tvö hæstu trén í Skuggabjargaskógi mældust þá 13,8 metrar. Mögulega má finna enn hærri tré í skóginum. Ekki er gott að segja um aldur þessara trjáa en áhugavert væri ef gerðar væru rannsóknir á því. Slíkt má gera með því að taka borsýni úr trjánum og telja árhringina. Vafalaust eru sum birkitrén í Mela- og Skuggabjargaskógi vel á aðra öld að aldri.

Vonandi eru vetrarveður eins og komu á liðnum vetri undantekning og vonandi þurfum við ekki að óttast að þau verði algengari í framtíðinni. Það gæti farið illa með marga myndarlegustu birkiskóga landsins.

Teitur Davíðsson og Huldar Valgeirsson, starfsmenn skógarvarðarins á Norðurlandi, voru að störfum við snyrtingu á Mela- og Skuggabjargaskógi þegar skogur.is var þar á ferð í sumarlok. Aflað var hráefnis til eldiviðarvinnslu úr trjám sem féllu eða skemmdust síðasta vetur og skógurinn snyrtur með fram aðalleiðinni þar í gegn. Slík snyrting verður þó aldrei nema eins og dropi í hafið. Óvinnandi vegur er að grisja og lagfæra allan skóginn heldur verður náttúran að sjá um það með tímanum. Líklegt er að mörg ár líði þar til ummerki um snjóbrotið á liðnum vetri sjást ekki meir.

Saga skógarins

Árið 1939 var Skógræktinni falin umsjón með landi ríkisjarðarinnar Skuggabjarga. Þetta sama ár keypti stofnunin allt það land vestan Fnjóskár sem tilheyrði jörðinni Þverá, landspilduna Stórhöfða (Maríuskóg). Tveimur árum síðar, 1941, keypti Skógræktin hluta af landi jarðarinnar Mela, þ.e. Melaskóg og 1948 eignaðist Skógræktin jörðina Skuggabjög og annan hluta jarðarinnar Mela. Jarðirnar voru þá báðar komnar í eyði.

Allur skógurinn innan (sunnan) bæjarstæðisins á Skuggabjörgum var friðaður árið 1941 og ári síðar var Skuggabjargaskógur utan bæjar friðaður. Árið 1943 var girðingunni við Mela breytt og endanlega lokið við girðinguna á Skuggabjörgum. Samtals var lengd girðingarinnar um 8,5 km. Árið 1946 fór talsverður hluti girðingarinnar utan bæjar á Skuggabjörgum í aurskriðum. Var þessi girðing ekki endurnýjuð og hefur svæðið verið ófriðað síðan. Árin 1979 og 1980 var girðingin um svæðið endurnýjuð og girt út fyrir bæjarhúsin á Skuggabjörgum.

Skuggabjörg fóru í eyði 1938 þar sjást lítil merki um húsakost en þó mótar fyrir steyptum vegg í það minnsta. Melar fóru í eyði 1963 eftir stórbruna þar sem bæði íbúðarhús og fjós brann til ösku. Ekki varð manntjón en allar kýrnar drápust, níu að tölu. Fjárhúsin á Melum eru uppistandandi að nafninu til. Annars eru þar eingöngu rústir torfbæja og tún sem aldrei voru unnin á nútímamáta. Að sama skapi er langt liðið síðan skógurinn var nýttur að ráði og því hefur hann þróast sem náttúruskógur. Hægt er að ímynda sér að svona hafi birkiskógar víða litið út við landnám.

Samkvæmt skógarvarðaskýrslum var lítils háttar höggvið til eldiviðar í Mela- og Stórhöfðaskógi framan af, síðast árið 1959. Viður var svo höggvinn í þeim hluta Skuggabjargaskógar sem féll í snjóflóði árið 1975 og árin 1998 og 2007 var höggvið með fram veginum í Mela- og Stórhöfðaskóg. Var sá viður aðallega nýttur í arinviðargerð. Stærstur hluti skógarins hefur þó verið ósnortinn lengi, enda víða óaðgengilegur. Á köflum er skógurinn hins vegar stórvaxinn og vel fær.

Texti: Pétur Halldórsson
Heimild og aðstoð: Rúnar Ísleifsson