„Það væri gaman að vita hvað framtíðin ber í skauti sér og hvað næstu kynslóðir segja um aðgerðir ok…
„Það væri gaman að vita hvað framtíðin ber í skauti sér og hvað næstu kynslóðir segja um aðgerðir okkar við loftslagsvánni. Verkfærin eru mörg og við skulum nota þau öll,“ segir í greininni. Mynd: Hlynur Gauti Sigurðsson

Framkvæmdastjóri Landssamtaka skógareigenda, Hlynur Gauti Sigurðsson, fjallar um helstu trjátegundir sem notaðar eru í skógrækt á Íslandi í grein sem birtist í Bændablaðinu 21. nóvember. Þar bendir hann meðal annars á þann góða eiginleika gróðurs að geta ljóstillífað og tekið kolefni úr andrúmsloftinu. Tré séu stærst allra plöntutegunda og þar af leiðandi kolefnisþyrstust, eins og Hlynur orðar það. Tré séu því eitt þeirra mörgu verkfæra sem nota megi gegn loftslagsvánni og þau beri öll að nota.

Grein Hlyns er á þessa leið:

 

Um þessar mundir er fólk heims­kringlunnar í óðaönn að slást við loftið. Hvað er hægt að gera svo ekki fari verr en illa, þegar fram í sækir? Fyrir alla er þetta áskorun en fyrir suma er þetta tækifæri. Líklega er þetta bara spurning af hvaða sjónarhóli maður horfir á það. Komandi kynslóðir munu svo dæma um hvernig til tókst.

Aðgerðir geta verið af ýmsum toga og því ber að fagna. Vissulega greinir okkur stundum á um hversu hentugar og árangursríkar þær eru. Það er allt í lagi, svo lengi sem við gerum eitthvað af öllu þá eru allir ánægðir.

Fögnum fjölbreytninni

 Íslenskar aðstæður einfaldaðar í einni mynd. Mynd: Hlynur Gauti SigurðssonÞað er mun meira heillandi að vinna með mörg úrræði en bara fá. Sum munu hafa meiri áhrif en önnur og er þar mikilvægt að taka tímann með í reikninginn. Sem dæmi um aðgerðir sem draga úr losun eru samgöngurnar. Á höfuðborgarsvæðinu er unnið að fjölbreyttu samgöngumynstri þar sem borgarbúar verða hvattir til að nota fleiri samgöngumáta en nú eru einkennandi fyrir borgina, svo sem göngu, hjól, strætó eða rafbíl. Þessu ber að fagna. Það sama á við um aðgerðir til að binda óæskilegar lofttegundir úr andrúmsloftinu. Þar er ýmsum ráðum beitt og munar um þær allar.

Skógleysið er tækifæri

 Dæmi um notkun tegunda við íslenskar aðstæður. Mynd: Hlynur Gauti SigurðssonÞað er svo margt skemmtilegt við tré, að það þarf ekkert að fjölyrða um þau. Maður sér það bara á þeim að þau eru öflugt verkfæri til að binda kolefni. Sennilega eru tré áhrifaríkasta verkfærið við loftslagsvandann. Aðgerðin heitir „ljóstillífun“. Allur gróður á þetta sammerkt, en tré eru stærst og þar af leiðandi kolefnisþyrstust, ef svo má segja. Ísland er misvel gróið land. Hálendið er eyðimörk en grösugra er þegar neðar dregur. Til eru tré sem lifa við svo til allar aðstæður Íslands, ýmist dafna eða tóra. Hér á eftir verður fjallað nánar um þær tegundir sem helst hafa verið notaðar í nytjaskógrækt hér á landi, en það eru einmitt þær tegundir sem mest gæti munað um í slagnum við loftið. Flestar rekja þær uppruna sinn til annarra heimshluta en hafa getið sér gott orð hérlendis. Allar hafa þær vaxið hér í minnst 75 ár, sumar meira en öld, og því verður fjallað um þær hér sem íslenskar séu.

Stafafura þrífst svo til alls staðar

Stafafura þrífst svo til alls staðar. Ljósmynd: Hlynur Gauti SigurðssonMargar furutegundir hafa verið prófaðar hérlendis og ber stafafuran höfuð og herðar yfir hinar. Hún aðlagast vel íslenskum aðstæðum og hefur bæði getið sér gott orð á rýrum melum og meira að segja í deiglendi. Hún á sér fáa náttúrulega óvini hérlendis og hefur veitt skjól og bætt búsvæði fyrir fugla og ferfætlinga. Mörg kvæmi hafa verið prófuð og er „Skagway“ eflaust þeirra þekktast vegna fallegs þétts vaxtarlags, en stafafura af Skagway-kvæmi hefur skapað sér sess sem eitt vinsælasta íslenska jólatréð. Önnur kvæmi eru einnig notuð, oft nefnd innlandskvæmi, en vaxtarlag þeirra hentar mun betur til timburframleiðslu. Eins og áður sagði unir stafafuran sér vel við íslenskar aðstæður og nær gjarnan að mynda þroskuð fræ eftir um 20 ára aldur. Hún er mjög skilvirk í kolefnisbindingu, svo ekki sé minnst á vistheimtina, landgræðslu og nytjarnar sem af henni skapast.

Lerki býr í haginn fyrir birkið

Lerkið sem mest er notað í skógrækt hérlendis er ættað frá Rússlandi. Á norður- og austurhluta landsins þrífst það mjög vel. Af þeim tegundum sem hér eru til umræðu er lerki sú tegund sem unir sér best á rýrum melum. Lerki er frumherjategund, líkt og birki og fura, og býr jafnan í haginn fyrir aðrar plöntur. Þar sem lerkið er svo þrautseigt hefur það gjarnan verið nefnt að það sé „tilvalinn undanfari fyrir birki“, ef ætlunin er að endurheimta birkiskóg. Lerki er gott timburtré en skilyrði til fræmyndunar eru sjaldan til staðar hérlendis svo það sáir sér sjaldan út. Lerki vex tiltölulega hratt og á um 20 árum má gera beitarskóg úr landi sem áður var melur. Bundnar eru miklar vonir við kynblending af rússalerki og evrópulerki, að nafni Hrymur, sem vex ekki einungis helmingi hraðar en það sem á að venjast, heldur hentar hann einnig fyrir Suður- og Vesturland.

Sitkagreni vill aðeins það besta

Það á gjarnan við um fyrstu kynslóð skóga (tré sem er gróðursett á berangur) að trén eiga það til að vera fjölstofna og bogin. Greni er sú tegund sem hefur bestu eiginleika til að mynda reglulegan stofn. Það er löng hefð fyrir greni og víða má sjá gamla grenireiti um landið. Nokkrar tegundir af greni hafa verið prófaðar hérlendis en sitkagrenið ber af hvað vaxtarhraða og aðlögun varðar. Grenið vex við ýmsar aðstæður en kann best við sig í hallandi landi. Það gerir kröfur á jarðveg og dafnar til dæmis illa í lyngmóum. Það er algengt að sitkagreni sái sér út á Íslandi, en tré sem það gera eru oft orðin nokkurra áratuga gömul. Viðurinn úr sitkagreni er eftirsóknarverður smíðaviður, enda trén gjarnan beinstofna. Sitkagreni getur orðið æði stórt og ber það af hvað varðar kolefnisbindingu.

Alaskaösp er kröfuhörð raketta

Alaskaösp er sú tegund sem bindur mest kolefni á skemmstum tíma. Hún gerir einnig kröfur á jarðveg. Ljósmynd: Hlynur Gauti SigurðssonÁður fyrr var vinsælt að gróðursetja alskaaspir í heimagarða vegna þess að þær uxu svo vel. Vinsældirnar hafa aðeins dalað í þéttbýlinu þar sem þær vaxa kannski aðeins of vel. Alaskaösp er kannski ekki vinsælasti nágranninn en hún er vissulega frábær kolefnisfangari. Hún skilur aðrar tegundir eftir í rykmekki hvað hraða kolefnisbindingar varðar. Hún gerir reyndar kröfur um bestu landgerðina og er því helst hentug á frjósömu landi, ekki síst því sem búið er að gera frjósamt, t.d. með lúpínu. Ríkur grasmói, áreyrar eða framræst land hentar vel fyrir alaskaösp. Stundum er nefnt að hægt sé að rækta ösp eins og korn á akri og er það að vissu leyti rétt. Hún hefur þann eiginleika að búa til teinung og rótarskot þegar hún er felld. Það hentar mjög vel þegar um endurtekna ræktun er að ræða. Einnig hentar ösp mjög vel í skjólbelti með fram túnum eða til að stýra vindi. Öspin hefur öðruvísi viðareiginleika en flestar aðrar trjátegundir ræktaðar hérlendis. Hún hefur stærri flísar og er vandmeðfarin hvað þurrkun varðar. Hún er þó afbragðs viður og vel hægt að nýta sem borð og planka.

Birkið er seigt

Birki verður ekki eins stórvaxið og hinar tegundirnar sem hér eru nefndar og bindur því ekki kolefni úr andrúmsloftinu jafn hratt. Eins og með hinar tegundirnar skiptir líka miklu máli að velja rétt kvæmi, svo úr verði skógur en ekki kjarrkræða. Sé það gert getur birki verið gjöful tegund á margan hátt ekki síður en hinar: landgræðsla, útivist, búsvæði margra lífvera, eldivið og smíðavið svo dæmi séu nefnd. Það er duglegast trjáa á Íslandi að sá sér og er því með skilvirkustu tegundum til landgræðslu. Það vex í margs konar landi, jafnvel votlendi en það á ekki síst að vera markmið með endurheimt votlendis að endurheimta viðarmýrar þar sem birki og gulvíðir skapa búsvæði sem glataðist algjörlega hér á landi.

Það væri gaman að vita hvað framtíðin ber í skauti sér og hvað næstu kynslóðir segja um aðgerðir okkar við loftslagsvánni. Verkfærin eru mörg og við skulum nota þau öll.

Hlynur Gauti Sigurðsson,
framkvæmdastjóri
Landssamtaka skógareigenda

Greinin á vef Bændablaðsins

Vefur Landssamtaka skógareigenda

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson