Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Ljósmynd: Pétur Halldórsson
(Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 18. október 2019)

Skógrækt er rétt leið í baráttunni gegn loftslagsröskun og þjóðir í öllum heimsálfum ráðast nú í stórtæk skógræktarverkefni til að binda. Í Gallup-könnun í maí 2018 töldu 93% svarenda að skógrækt hefði almennt jákvæð áhrif fyrir landið. Þjóðin veit að skógrækt er beitt vopn í loftslagsbaráttunni. 

Leitt er þegar gagnrýni á skógrækt felst í að fara rangt með vísindalegar staðreyndir og afbaka niðurstöður rannsókna. Hér skulu leiðréttar nokkrar alvarlegar rangfærslur sem fram komu í viðtali Morgunblaðsins við Önnu Guðrúnu Þórhallsdóttur prófessor 3. október.

Í viðtalinu er því haldið fram að graslendi bindi meira kolefni í jarðvegi en skógur þegar til lengri tíma sé litið. Jafnvel að kolefni tapist þegar skógur er ræktaður á graslendi. Þetta passar ekki við fyrirliggjandi íslenskar rannsóknir sem hafa ekki sýnt marktækt tap á kolefni úr jarðvegi þegar skógur er ræktaður á graslendi hérlendis. T.d. sýnir nýtt MS-verkefni við LbhÍ að kolefnisbinding er umtalsverð í jarðvegi þar sem greniskógar hafa verið ræktaðir á íslensku graslendi (Owona, 2019). Mikilvægt er líka að hafa í huga, að þó finna megi undantekningar í öðrum löndum þar sem kolefnisforði minnkar með nýskógrækt í graslendi, eykst heildarkolefnisforðinn þegar á heildina er litið því mikið binst ofanjarðar í skóginum.

Kolefnisforði jarðvegs eykst með skógrækt

Villandi er sú mynd Önnu Guðrúnar að graslendi safni kolefni í jarðveg en tré að mestu í trjástofn. Vissulega er rétt að stór hluti þess kolefnis sem geymdur er í þurrlendislífmassa heimsins er geymdur í skógum eða um 65%-75% (FAO FRA 2010 og FRA 2015). Allar rannsóknir á kolefnisbindingu skóga sýna að þar binst líka mikið í jarðvegi og stærstur hluti þess kolefnis sem geymdur er í jarðvegi er í skógarjarðvegi (FAO 2017). Í áðurnefndri meistararitgerð reyndist kolefnisforði íslensks skógarjarðvegs 12% meiri en í jarðvegi skóglausra svæða og sterkt samband virtist vera milli viðarvaxtar og kolefnisbindingar í jarðvegi. Tré binda því álíka mikið kolefni í trjástofnum og jarðvegi. Að jafnaði var forðinn meiri í efstu 30 cm jarðvegs undir barrskógum en birkiskógum, þrátt fyrir minni botngróður barrskóganna. 

Hér eins og í Skandinavíu er nytjaskógrækt byggð á sjálfbærni. Ekki er tekið meira út úr skóginum en verður til í trjánum sem eftir standa og nýjum sem vaxa upp. Þannig er þess gætt að ekki tapist kolefni úr skóginum. Kolefni sem trén binda glatast ekki um leið og skógurinn er höggvinn. Sé viðurinn nýttur í t.d. byggingar eða húsgögn geymist kolefnið þar áfram. Brennsla sjálfbærs timburs er kolefnishlutlaus. Mikið vinnst með því að hætta olíunotkun en nota trjávið í staðinn. Þetta er útskýrt vel í bæklingi Norrænu ráðherranefndarinnar sem nefnist Loftslagsávinningur norrænu skóganna. Íslenska útgáfu er að finna á vef Skógræktarinnar, skogur.is.

Lítill skógur, lítil skýjamyndun

Anna Guðrún Þórhallsdóttir prófessor óttast að meiri skógur valdi aukinni skýjamyndun á Íslandi og stuðli þar með að loftslagsröskun en vísar þó ekki í rannsóknir. Rétt er að stór hluti ársúrkomu í skógi gufar aftur út frá trjánum. Þannig er eðlileg vatnshringrás skógar. En ef skýin draga úr útgeislun frá jörðu, draga þau þá ekki líka úr inngeislun frá sólu með endurkasti sólargeisla út í geiminn? Skýin einangra í báðar áttir rétt eins og steinullin í húsunum okkar. Erfitt er að sjá að aukin skógarþekja á norðurslóðum stuðli að loftslagsröskun. 

Þekja ræktaðra skóga á Íslandi er nú um hálft prósent landsins og skógar dreifðir. Jafnvel þótt samanlögð þekja villtra og ræktaðra skóga yrði 12% eins og stefnt hefur verið að til ársins 2100 yrðu skógar áfram dreifðir um landið og vandséð að úr þeim yrðu til öflug skýjamyndandi kerfi. 

Svartar auðnir hita upp heiminn, ekki skógarnir

Því hefur áður verið haldið fram að dökkur greniskógur að vetrarlagi dragi mikinn hita í sig samanborið við snævi þakið land og stuðli því að hlýnun. Í grein dr Brynhildar Bjarnadóttur, lektors við HA, o.fl. í Bændablaðinu 8. mars 2018 er sagt frá mælingum á endurskini frá sandauðnum, uppgræddu landi, birki- og  barrskógum á Suðurlandi. Þar sést að skógarvistkerfin tvö höfðu vissulega lægsta endurskinið að vetri til og endurskin birkiskóga var enn minna en barrskóga. Á þeim árstíma er hins vegar lítið og veikt sólskin og áhrifin lítil. 

Öðru máli gegnir þegar sól er hátt á lofti. Þá taka sandauðnir og uppgrætt land í sig meiri hita en birki- og barrskógar. Auk þess binda svartir sandar ekkert kolefni. Á uppgræddu landi, birkiskógi og barrskógi binst hins vegar kolefni á vaxtartíma plantnanna. Það vegur upp á móti skortinum á endurskini sólarljóssins. Því er villandi að vekja fólki ugg um að norðlægir skógar hiti upp heiminn af því að þeir séu dekkri en snjóbreiður á veturna. Skylda okkar er að græða svörtu auðnirnar upp til að vinna gegn hlýnuninni.

Fjölbreytni í skóginum

Loks eilítið um þá staðhæfingu Önnu Guðrúnar að gróðursetning skóga dragi úr líffræðilegum fjölbreytileika en fjölbreytnin sé í birkiskóg- og graslendi. Í rannsóknarverkefninu SkógVist, sem helstu náttúruvísindastofnanir landsins stóðu að á árunum 2002-2005, voru rannsökuð tvö svæði á Austur- og Vesturlandi. Í ljós kom að með skógrækt á mólendi eykst tegundafjöldi fyrstu árin en þegar birta minnkar á skógarbotni dregur aftur úr fjölda háplöntutegunda. Aðrar lífverur, svo sem sveppir og jarðvegsdýr, njóta hins vegar góðs af auknum lífmassa og tegundum þeirra fjölgar, jafnt í þéttum barrskógum og birkiskógum. Varppörum fugla fjölgar líka mjög (Ásrún Elmarsd. o.fl., 2011 Náttúrufræðingurinn 81(2)). Svipaðar niðurstöður komu fram í annarri rannsókn á líffjölbreytni asparskógar og graslendis á Suðurlandi. 

Engin trjátegund sem hér er notuð til ræktunar hefur verið dæmd í flokk ágengra framandi tegunda lífvera eins og hugtakið er skilgreint í Náttúruverndarlögum. Tré geta orðið hávaxin og varpað skugga á botngróður. Það þýðir þó ekki að þau minnki líffjölbreytni eða útrými öðrum tegundum. Þvert á móti hafa innlendar rannsóknir bent til þess að með réttri umhirðu skóga aukist fjölbreytni í skógum samanborið við skóglaust land.

Rétta leiðin er skógrækt

Loftslagsváin er ein helsta ógn mannkyns. Brýnt er að draga úr losun en einnig að binda kolefni. Ná má verulegum loftslagsárangri með ræktun gjöfulla trjátegunda á örlitlu broti landsins. Jafnvel þótt skógrækt yrði margfölduð yrði Ísland áfram meðal skóglausustu landa í Evrópu. Engum stafar ógn af skógrækt, hvorki fólki, fuglum, vistgerðum, landbúnaði, fæðuöryggi landsmanna, tegundum lífvera né öðru. Til að vernda lóu og spóa skulum við græða upp auðnir. Til að tryggja beitiland skulum við stýra gróðurauðlindinni betur. Til að vernda vistgerðir, fornminjar og tegundir lífvera skulum við gera vandaðar áætlanir, líkt og ræktunaráætlanir sem gerðar eru fyrir megnið af nýskógrækt í landinu. Skógræktin hefur nú hafið vinnu við gerð lands- og landshlutaáætlana í skógrækt þar sem allt þetta verður tekið með í reikninginn og meira til.

Pétur Halldórsson