Formaður staðlaráðs segir Ísland aftarlega á merinni þegar samkeppnishæfni ríkja heimsins er mæld, ekki síst í samanburði við nágrannalöndin. Góðir staðlar eru lykillinn að samkeppnishæfni á alþjóðlegum mörkuðum og Skógræktin er nefnd sem einn þeirra aðila á Íslandi sem hafi áttað sig á þessu. Stofnunin hefur unnið að því undanfarin ár að koma upp stöðlum fyrir vottuð kolefnisverkefni.

Grein Helgu Sigrúnar í Fréttablaðinu 13. júlí 2022Þetta kemur fram í grein sem Helga Sigrún Harðardóttir, formaður Staðlaráðs, skrifar í Fréttablaðið 13. júlí undir fyrisögninni Eftirbátarnir á Íslandi. Þar kemur fam að Viðskiptaráð hafi nýverið birt niðurstöður alþjóðlegrar úttektar á samkeppnishæfni ríkja. Ísland sitji þar í 58. sæti af 63 þegar kemur að alþjóðaviðskiptum.

Skilvirkni vinnumarkaðarins, hæfni stjórnvalda og hár kostnaður eru nefndar sem helstu ástæður þess að við rekum lestina að sögn Helgu Sigrúnar. Hins vegar leggi frændþjóðir okkar, Danir, Svíar, Finnar og Norðmenn, mikið upp úr traustu og góðu samstarfi og stuðningi við staðlasamtök sín enda eiga þau sæti meðal níu efstu landanna í þessari alþjóðlegu úttekt. Þessar þjóðir viti að sterk staðlasamtök eru lykillinn að samkeppnishæfni á alþjóðlegum mörkuðum, hagkvæmni, aukinni framleiðni, kostnaðarlækkun, meiri árangri, sameiginlegum skilningi og trausti.

Áhugaleysi stjórnvalda áþreifanlegt

Helga Sigrún bendir einnig á að notkun staðla og virk þátttaka í stöðlunarstarfi sé jafnframt snar þáttur í lausnum á mörgum stærstu áskorunum samtímans, s.s. loftslagsmálum. Staðlar verði aftur á móti ekki til úr engu og því miður sé áhugaleysi íslenskra stjórnvalda á staðlatengdum málefnum áþreifanlegt.

„Eftir hrun rifti ríkið samkomulagi um fjármögnun einhliða. Samkomulagi um að lögbundið stöðlunarstarf væri greitt af atvinnulífinu með hlutdeild Staðlaráðs í tryggingagjaldi. Án umræðu. Fagráðherrar staðlamála hafa síðan skammtað stöðlunarstarfi fjármagn. Úr hnefa. Með geðþóttaákvörðunum, því kostnaðarmat lögbundinna verkefna hefur aldrei farið fram. Ríkið hefur á tíu árum haldið eftir 420 milljónum af þeim fjármunum sem atvinnulífið hefur greitt til staðlastarfs. Ekki er lengur unnt að veita fyrirtækjum og ríkisstofnunum þjónustu sem atvinnulífið hefur þó greitt fyrir. Ekki er lengur unnt að fræða og upplýsa um staðlatengd mál sem varða íslenska viðskiptahagsmuni,“ skrifar Helga Sigrún orðrétt.

Ísland ekki samkeppnishæft?

Hún bendir á að án þess að nota staðla í atvinnulífinu og stjórnsýslunni geti Ísland ekki orðið samkeppnishæft. Of flókið verði að eiga viðskipti við Íslendinga til að slíkt svari kostnaði. Hún tekur þó fram að hér séu vissulega fyrirtæki og stofnanir sem hafi áttað sig á þessum málum og viti að staðlanotkun er lykill að alþjóðlegum mörkuðum og fjármagni. Hún nefnir WTO, Marel, Össur, Carbfix og Skógræktina sem dæmi um aðila sem þetta vita.

Í lokin nefnir Helga Sigrún að stjórnendur og sérfræðingar 40 fyrirtækja og opinberra stofnana hafi nýlega sent stjórnvöldum áskorun um að tryggja fé til staðlastarfs. Þeirri áskorun hafi ekki verið svarað enn þá. Samkeppnishæfni ríkja sé forsenda aukinna lífsgæða, efnahagslegra framfara og sjálfbærrar verðmætasköpunar. „Það er þó tómt mál að tala um þegar stefnt er hraðbyri í einangrun og stöðnun,“ segir hún í lokaorðum greinar sinnar.

Staðlar fyrir kolefnisverkefni

Skógræktin hefur í nokkur ár haft frumkvæði að því með verkefninu Skógarkolefni að koma upp viðurkenndum stöðlum fyrir kolefnisverkefni til að gera mögulegt að búa til alþjóðlega vottaðar kolefniseiningar með skógrækt á Íslandi eða öðrum verkefnum sem ýmist auka bindingu kolefnis eða draga úr kolefnislosun. Skógræktin tekur nú þátt í þróunarstarfi undir forystu Staðlaráðs.

Vottaðar kolefniseiningar má nota í grænu bókhaldi á móti losun til að viðkomandi geti sýnt fram á ábyrga og viðurkennda kolefnisjöfnun í rekstri. Staðlarnir tryggja ásamt vottuninni að verkefnin séu ekki grænþvottur í því skyni að geta haldið áfram að menga sem fyrr, því krafa er gerð um að dregið sé úr losun samhliða kolefnisjöfnunarverkefnum. Vottaðar kolefniseiningar eru skráðar líkt og verðbréf og geta gengið kaupum og sölum þangað til þær eru notaðar á móti losun. Vaxandi markaður er með slíkar einingar og allt útlit fyrir að verð á þeim muni hækka.

Skráning eininganna tryggir að hver eining verður einungis notuð einu sinni á móti losun. Góðir staðlar og vottun er trygging fyrir því að allt ferlið sé ábyrgt og í sátt við lög og náttúru. Vottun fær enginn nema farið sé eftir viðurkenndum stöðlum og vottunarfyrirtæki taka ekki þá áhættu að votta nema staðlar standist ítrustu kröfur því annars eiga þau á hættu að missa vottunarleyfi sitt. Staðla er þörf.

Texti: Pétur Halldórsson