Ævintýraverur í skóginum á Klaustri. Ljósmynd: Fanney Gunnarsdóttir/klaustur.is
Ævintýraverur í skóginum á Klaustri. Ljósmynd: Fanney Gunnarsdóttir/klaustur.is

Nemendur Kirkjubæjarskóla og Heilsuleikskólans Kærabæjar á Kirkjubæjarklaustri vinna þessa dagana að því að búa til ævintýraskóg í Skógarlundinum á Klaustri í samvinnu við Vatnajökulsþjóðgarð og Skógræktina. Markmiðið er meðal annars að fólk hafi stað til að upplifa jólastemmningu án þess að hafa áhyggjur af sóttvörnum.

Frá þessu er sagt á vef Skaftárhrepps. Nú á þessum fordæmalausu tímum hafi starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs ásamt Skógræktinni ákveðið að bregða á leik og hvetja börn og fullorðna til að nýta sér skóginn á Kirkjubæjarklaustri til útivistar og skemmtunar.

Skógurinn á Klaustri er einn þjóðskóganna. Þar hóf fjölskyldan á Klaustri hóf skógrækt upp úr 1940. Skógurinn er eign Klausturbænda en hefur verið í umsjá Skógræktarinnar í rúma hálfa öld. Í ævintýraskóginum sem börnin á Klaustri hafa verið að vinna að verður jólaþema nú fyrir jólin og hugmyndin er að ekki sé bara hægt að fara um skóginn bæði björtu heldur sé líka upplagt að fara þar í vasaljósagöngu í rökkrinu. Á leiðinni verður ýmislegt á veginum sem örvar ímyndunaraflið, bæði eitthvað jólalegt og ævintýralegt.

Ævintýraskógurinn nær frá Systrafossi og í gegnum dimmasta hluta skógarins (fyrri hluta grænu leiðarinnar). Nemendur skólanna luku við að skreyta skóginn í lok síðustu viku og þar eru nú ýmsar verur komnar á kreik.

Helsta markmið verkefnisins er að búa til stað þar sem fólk getur upplifað jólastemmingu án þess að hafa áhyggjur af sóttvörnum, leikið sér í náttúrunni, kynnst skóginum og örvað hugmyndaflugið.

„Vonandi munu sem flestir geta nýtt sér þetta uppátæki,“ segir á vef Skaftárhrepps, og við tökum heils hugar undir það! Meðfylgjandi myndir bárust

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson