Hólaskógur í Hjaltadal á fallegum júnídegi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Hólaskógur í Hjaltadal á fallegum júnídegi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Í drögum að nýrri umhverfisstefnu fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð er kveðið á um að binding CO2 úr andrúmsloftinu með skógrækt og endurheimt votlendis skuli aukin verulega í samráði við Land­græðsl­­una og Skógræktina. Sveitarfélagið skuli stefna að kolefnisjöfnun fyrir árið 2040.

Frá þessu er sagt í Bændablaðinu og þar kemur fram að byggðaráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar hafi sam­þykkt að fela sveitarstjóra ásamt umhverfis- og samgöngunefnd að gera umhverfisáætlun fyrir sveitar­félag­ið fyrir árin 2020 til 2040. Áætlunin skuli ná yfir alla þá þætti sem snúa að umhverfismálum í sveitar­félaginu og eitt meginmarkmiða hennar skuli vera að kolefnisjafna sveitarfélagið fyrir árið 2040 sem og að uppfylla þau umhverfismarkmið sem fram koma í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Bókun þessa efnis var samþykkt á fundi byggðaráðs 12. júní. Þar kemur fram að um­hverfis­stefnan skuli vera liður í daglegu starfi sveitarfélagsins, starfsmanna þess og íbúa. Í greinar­gerð með bókuninni segir að áhersla skuli lögð á forystu í úrgangsmálum og sorpflokkun, skoða skuli möguleika á framleiðslu lífdísils úr úrgangi sem til fellur, tryggja aðgang íbúa að hreinu vatni, lofti og náttúru, takmarka alla sóun og Skagafjörður skuli vera leiðandi í orkuskiptum og nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa svo nokkuð sé nefnt.

Þá er sem fyrr segir kveðið á um í greinar­gerðinni að binding CO2 úr andrúmsloftinu með skógrækt og endurheimt votlendis skuli aukin verulega á umræddu tímabili í samráði við Landgræðsluna og Skóg­ræktina.

Þess má geta að Skógræktin hefur að undanförnu sent sveitarfélögum landsins bréf um landshluta­áætl­an­ir í skógrækt og lykilhlutverk sveitarfélaga í loftslagsmálum. Skógræktin óskar eftir fundi með sveitar­félög­un­um til þess að kynna áform sín og ræða hvernig gera megi betur grein fyrir skógrækt og skógræktar­áform­um í aðalskipulagi hvers sveitarfélags. Í fundargerð Byggðaráðs Skagafjarðar frá 26. júní kemur fram að bréf þessa efnis frá Skógræktinni hafi verið lagt þar fram.

Texti: Pétur Halldórsson