Skaftárhreppur vill skoða með Skógræktinni og Landgræðslunni hvaða svæði henta þar til skógræktar- o…
Skaftárhreppur vill skoða með Skógræktinni og Landgræðslunni hvaða svæði henta þar til skógræktar- og landgræðsluverkefna. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Sveitarstjórn Skaftárhrepps vill að stofnaður verði samráðshópur með Skógræktinni og Land­græðsl­unni sem skoði tillögur að svæðum í Skaftárhreppi sem komi til greina fyrir aðgerðir í skógrækt og landgræðslu. Ávinningur af slíku geti verið fjölþættur.

Fjallað var um málið á fundi sveitarstjórnar 14. febrúar og þar voru tilnefndir tveir fulltrúar Skaftárhrepps í slíkan hóp. Sveitarstjóra var falið að óska eftir tilnefningum fulltrúa Skógræktarinnar og Landgræðslunnar, tveimur frá hvorri. Í fundargerð segir að verkefni sem þetta geti haft í för með sér fjölþættan ávinning með tilliti til loftslagsmála, líf­fræði­legr­ar fjölbreytni, aukins þols gagnvart náttúruvá og aukinna möguleika í atvinnu­mál­um.

Í frumvarpi til nýrra skógræktarlaga sem er liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir að gerðar verði lands­hluta­áætl­an­ir í skógrækt og þær áætlanir myndi saman landsáætlun. Frumkvæði Skaftárhrepps er gott innlegg í það starf sem fram undan er við gerð þessara áætlana og ánægjulegt að sjá þann áhuga á landbótamálum sem sveitarstjórnin sýnir. Jafnframt er ánægjulegt að sjá þann skilning sem þar er á þeim fjölbreyttu já­kvæðu áhrifum sem aukinn gróður og meiri skógur hefur á náttúru og samfélag.

Orðrétt segir í fundargerð sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 14. febrúar:

Sveitarstjórn óskar eftir að komið verði á fót samráðshóp Skaftárhrepps, Skógræktar og Land­græðsl­unn­ar til að skoða tillögur að svæðum í Skaftárhreppi sem koma til greina fyrir skógrækt og/eða land­græðslu­að­gerð­ir. Verkefnið getur haft í för með sér fjölþættan ávinning m.t.t. lofts­lags­mála, líffræðilegrar fjöl­breytni, aukins þols gagnvart náttúruvá og aukinna möguleika í atvinnumálum. Sveitarstjóra falið að óska eftir tilnefningum tveggja fulltrúa hvorrar stofnunar fyrir sig. Sveitarstjórn tilnefnir Jón Hrafn Karlsson og Jónu Björk Jónsdóttur fulltrúa sveitarfélagsins í samráðshópinn.

Texti: Pétur Halldórsson