Gestir í Hallormsstaðaskógi geta nú skilað frá sér lífrænum úrgangi og rafhlöðum, auk þeirra fimm so…
Gestir í Hallormsstaðaskógi geta nú skilað frá sér lífrænum úrgangi og rafhlöðum, auk þeirra fimm sorpflokka sem voru í boði fyrir. Flokkun á lífrænum úrgangi gengur mjög vel. Ljósmynd: Bergrún Arna Þorsteinsdóttir

Gestir á tjaldsvæðunum í Atlavík og Höfðavík Hallormsstaðaskógi geta nú flokkað úrgang sinn enn betur en fyrr því nú hefur sorpflokkum verið fjölgað í sjö. Æ betur gengur að fá fólk til að flokka. Aðsókn að tjaldsvæðunum í skóginum hefur verið góð það sem af er sumri og maímánuður sá besti í sögunni.

Góð og snyrtileg aðstaða til sorpflokkunar er mikilvæg svo að vel takist til. Ljósmynd: Bergrún Arna ÞorsteinsdóttirTveim flokkum sorps var nýverið bætt við þá fimm sem fyrir voru. Annars vegar eru komin ílát fyrir lífrænan úrgang (matarafganga) og hins vegar er nú hægt að skila af sér rafhlöðum sem talsvert fellur til af á tjaldsvæðum. Þar með eru komnir 7 flokkar sem gestir Hallormsstaðaskógar geta losað sig við en fyrir voru ílát fyrir pappír, plast, málm, gashylki og skilagjaldsskyldar umbúðir. Spennandi verður að sjá hvernig þessi viðbót mælist fyrir og eru tjaldgestir hvattir til að taka þátt í þessu umhverfisskrefi Skógræktarinnar.

Að sögn Bergrúnar Örnu Þorsteinsdóttur aðstoðarskógarvarðar gengur alltaf betur og betur að fá fólk til að flokka og þeir gestir sem á annað borð flokka geri það vel. Hún nefnir sem dæmi ílátin fyrir lífrænan úrgang. Þau voru sett upp á föstudaginn 3. júlí og hingað til hefur allt verið rétt flokkað í þau og svo verði vonandi áfram. Vissulega séu þó alltaf einhverjir sem hendi í skökk ílát en það tíni starfsfólk Skógræktarinnar  upp og setji á réttan stað. Enn virðist því nokkuð í land að flokkunin sé eins og best væri á kosið.

Góð aðsókn það sem af er

Aðsóknin að tjaldsvæðunum í Hallormsstaðaskógi hefur verið góð framan af sumri. Bergrún Arna segir að maímánuður hafi verið sá besti í sögunni og júnímánuður sá næstbesti. Íslendingar hafa verið í miklum meirihluta og útlendingar sáust varla í maí og framan af júnímánuði. Þeim hefur þó verið að fjölga jafnt og þétt að undanförnu og munar þar mestu um farþega sem koma með Norrænu til landsins. Bergrún Arna telur þó að þeir útlendingar sem hingað koma nú séu einkum fólk sem hefur sérlega mikinn áhuga á landinu, gefi sér góðan tíma og séu því mjög verðmætir og góðir gestir.

Útivistarleiðir á Wikiloc

Svona lítur leiðin um Trjásafnið á Hallormsstað út á Wikiloc-vefnum. Smellið á myndina til að sjá leiðinaÍ sumar hefur verið unnið að því að hnita leiðir í Hallormsstaðaskógi, bæði göngu- og hjólaleiðir. Þessar leiðir eru vistaðar á Wiciloc sem er alþjóðlegur vefur þar sem hver sem er getur bætt við útivistarleiðum um allan heiminn. Leiðirnar í Hallormsstaðaskógi bera kenninafnið „Hallormur“ og auðveldast er að slá það heiti inn í leitargluggann á síðunni til að sjá leiðirnar í skóginum. Hér er líka hlekkur beint á þessar leiðir:

Texti: Pétur Halldórsson