Mynd 1. Steinadalur. Myndin er tekin frá hlíðum Staðarfjalls, séð í suðvestur
Mynd 1. Steinadalur. Myndin er tekin frá hlíðum Staðarfjalls, séð í suðvestur

Útbreiðsla stafafuru í Steinadal í Suðursveit er áberandi mest á gróðursnauðum melum en mun minni og nær engin þar sem gróðurþekjan er sem þéttust og mest. Álykta má að furufræin eigi auðvelt með að ná fótfestu á röskuðu landi þar sem samkeppnisgóður er í lágmarki. Engar plöntur af stafafuru fundust hins vegar inni í þéttu birkikjarri og á skógarbotni eldri birkiskógar. Þetta er meðal niðurstaðna í rannsókn á útbreiðslu stafafuru í Steinadal sem sagt er frá í grein í Ársriti Skógræktarinnar 2020.

 

Sjálfsáning stafafuru í Steinadal

Grein eftir Ólaf Eggertsson og Delfina Andrea Castiglia

Birtist í: Ársriti Skógræktarinnar 2020

Hér er greint frá rannsóknum sem fóru fram sumarið 2020 á útbreiðslu stafafuru í Steinadal í Suðursveit út frá skógræktarreit undir Staðarfjalli (Delfina Andrea Castiglia 2020). Sambærileg rannsókn á útbreiðslu stafafurunnar var framkvæmd árið 2010 (Hanna B. Guðmundsdóttir 2012). Markmiðið með núverandi rannsókn var að kanna þær breytingar sem orðið hafa á sjálfsáningu stafafurunnar og útbreiðslu á þessu 10 ára tímabili.

Upphafið að skógrækt í Staðarfjalli í Suðursveit má rekja aftur til ársins 1954 en þá var 0,4 hektara svæði girt af og gróðursetning hafin með „nytjaskógarplöntum, aðallega fór þar niður fura og greni“ . Var gróðursett í reitinn a.m.k. fram til ársins 1969. Árið 1961 var girðingin stækkuð í 2 hektara og árið 1990 var hún fjarlægð að mestu „þar sem menn töldu sig sjá að greniplöntur sem hafði verið plantað utan girðingar nokkrum árum áður virtist fara jafnvel eða betur fram en þær plöntur sem gróðursettar voru sama ár innan girðingar“ (Fjölnir Torfason 2007 og Hanna B. Guðmundsdóttir 2012).

Mynd 2. Loftmynd af rannsóknasvæðinu í Steinadal. Gamli reiturinn er afmarkaður með rauðri línu (2 ha), svarta línan sýnir mörk ystu sjálfsánu trjánna (útlagaplöntur) árið 2010 (20 ha) og hvíta línan mörk útlagaplantna sumarið 2020 (66 ha)Árið 1985 greinir Fjölnir Torfason (2007) frá því að hann hafi fundið stafafurur í moldarbarði rétt utan girðingar í Staðarfjalli og hélt hann í fyrstu að einhver hefði gróðursett þær. Fjölnir áttar sig síðar á því að um sjálfsánar furur er að ræða. Vorið 2007 metur Fjölnir stærð þess landsvæðis þar sem finna má sjálfsánar furur og kemst að því að tegundin hafi dreifst á meira en 50 hektara svæði.

Mynd 3. Yfirlitsmynd sem sýnir hæðir sjálfsáinna stafafuruplantna í Steinadal og staðsetningu sumarhúsa og gróðursettra trjálunda með stafafuru.Markmiðið með þessari rannsókn var að kanna hversu stórt svæðið er sem sjálfsánar stafafuruplöntur í Staðarfjalli hafa dreift sér í frá móðurplöntum frá árinu 1985 og frá fyrri úttekt árið 2010 með því að kortleggja ystu mörk útbreiðslunnar eins og hún er nú (sumarið 2020). Einnig var kannaður þéttleiki og hæð stafafuruplantna í sniði út frá gömlu girðingunni sem afmarkaði upprunalegu gróðursetninguna sem byrjað var á 1954.

Gögn og aðferðir

Vettvangsvinna fór fram síðsumars árið 2020. Byrjað var á því að finna þær sjálfsánu plöntur sem væru lengst frá upprunalegu gróðursetningunni og mæla staðsetningu þeirra með nákvæmu GPS-tæki sem nefnist Emlid REACH RS2 GPS. Síðan var lagt út snið frá gömlu gróðursetningunni í suðvestur og tré mæld (tegund, hæð og þvermál) á 200 m2 fleti með 20 metra millibili þar til engar plöntur var að finna innan mælireits.

Niðurstöður

Mynd 2 sýnir kortlagninguna á þeim plöntum sem fundust fjærst upprunalegum móðurplöntum sem voru gróðursettar á árabilinu 1954-1969. Svæðið sem afmarkað er með rauðum línum sýnir mörk gömlu gróðursetningarinnar. Svarta línan sýnir mörk ystu plantna frá gróðursetningu árið 2010 og hvíta línan mörkin sumarið 2020. Meðalfjarlægð plantna frá gömlu gróðursetningunni árið 2010 var rúmlega 270 metrar og sumarið 2020 var fjarlægðin orðin rúmlega 500 metrar. Útbreiðsluhraðinn á ári var á tímabilinu 1985-2010 um 11 m en 14 m árið 2020. Á milli áranna 2010 og 2010 var „hraðinn“ tæplega 23 metrar á ári. Stærð útbreiðslusvæðis/áhrifasvæðis sumarið 2020 er a.m.k. 66 hektarar.

Í ágúst 2020 bárust fréttir að sjálfsánum stafafurum mun lengra austur frá gömlu gróðursetningunni (Bjarki Þór Kjartansson munnleg heimild). Andrea ákvað að fara aftur á svæðið og kanna staðsetningu þessara plantna og kortleggja, en þær voru í um 1,5 km fjarlægð frá gömlu gróðursetningunni (mynd 3). Rétt þar fyrir austan eru tvö sumarhús og þar hafa verið gróðursettar stafafurur, líklega um og upp úr 1980. Þá er spurningin hvort þessar nýfundnu plöntur eiga uppruna að rekja til gömlu gróðursetningarinnar eða til trjánna sem gróðursett voru við sumarhúsin. Þeirri spurningu er enn ósvarað.

Mynd 4. Fjöldi sjálfsáinna stafafura á 200 fermetra reitum í sniði út frá gömlu gróðursetningunni. Sniðið má sjá á mynd 3Mynd 4 sýnir fjölda sjálfsáinna stafafuruplantna í 200 m2 reitum á sniði út frá móðurplöntum. Fjöldinn er mestur í 20-40 metra fjarlægð frá gömlu girðingunni eða um 7.500 plöntur á hektara (mynd 4 og 5) og fer síðan fækkandi. Þegar komið er í um 200 metra fjárlægð er þéttleikinn aðeins um 50 plöntur á hektara.

Eins og sjá má á myndum 2 og 3 er útbreiðsla stafafurunnar áberandi mest á hinum gróðursnauðu melum en mun minni og nær engin þar sem gróðurþekjan er sem þéttust og mest. Því má álykta að furufræin eigi auðvelt með að ná fótfestu á röskuðu landi þar sem samkeppnisgóður er í lágmarki. Engar plöntur af stafafuru fundust inni í þéttu birkikjarri og á skógarbotni eldri birkiskógar.

Mynd 5. Þéttleiki sjálfsáinna plantna er mestur næst móðurplöntum

 

Ársrit Skógræktarinnar 2020