Jónatan Garðarsson (t.v.), formaður Skógræktarfélags Íslands, flytur ávarp við útnefningu á tré ársi…
Jónatan Garðarsson (t.v.), formaður Skógræktarfélags Íslands, flytur ávarp við útnefningu á tré ársins 2021 í skóginum við Rauðavatn. Tréð sést í baksýn. Með Jónatan á myndinni eru Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Jóhannes Benediktsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, og Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri félagsins. Ljósmynd af reykjavik.is.

Skógræktarfélag Íslands hefur útnefnt gamlan hegg við Rauðavatn í Reykjavík tré ársins 2021. Heggurinn stendur á svæðinu þar sem ein fyrsta trjáræktarstöð landsins hóf starfsemi árið 1901 og er að öllum líkindum sprottinn upp af rótum trés sem gróðursett var þar á upphafsárunum.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók við viðurkenningarskjali úr höndum Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Reykjavíkur, við athöfn sem fram fór við hegginn aldna á stofndegi Rauðavatnsstöðvarinnar í gær, 25. ágúst. Þar hefur verið sett upp upplýsingaskilti um Rauðavatnsstöðina og upphaf skógræktar í Reykjavík.

Við hegginn gamla er komið upplýsingaskilti um tréð og Rauðavatnsstöðina sem markar upphaf skógræktar í Reykjavík fyrir 120 árum. Ljósmynd af reykjavik.isTréð sem um ræðir er að öllum líkindum vaxið upp af rótum heggs sem gróðursettur var á upphafsárum Rauðavatnsstöðvarinnar og þótt upphaflegir stofnar séu fallnir eru þeir sem nú standa af sama meiði. Tréð var horfið inn í greniskóg en nú hefur verið hreinsað frá því og útbúinn áningarstaður sem vert er að sækja heim til að minnast upphafsára skógræktar á Íslandi. Við mælingu reyndist heggurinn um átta metra hár.

Ástæða er til að hvetja skógarunnendur og allt annað útivistarfólk að heimsækja skóginn við Rauðavatn. Margir staldra við á Olís-stöðinni við Suðurlandsveg en leiða ekki hugann að skóginum myndarlega sem þar er norðan við veginn. Þar eru söguslóðir sem ástæða er til að gefa gaum og vonandi fær þessi skógur að vera í friði fyrir öðrum framkvæmdum en skógarumhirðu Skógræktarfélags Reykjavíkur sem hefur umsjón með honum.

Nánar er sagt frá tré ársins 2021 og viðburðinum við Rauðavatn á vef Reykjavíkurborgar og á vef Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Texti: Pétur Halldórsson