Þessi mynd úr Íslenskum sjávarháttum eftir Lúðvík Kristjánsson sýnir rekajarðir á Íslandi samkvæmt J…
Þessi mynd úr Íslenskum sjávarháttum eftir Lúðvík Kristjánsson sýnir rekajarðir á Íslandi samkvæmt Jarðabók Eggerts og Bjarna frá 1703. Myndin er birt í grein Ólafs Eggertssonar og félaga

Ólafur Eggertsson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, er meðal höfunda nýrrar vísindagreinar sem birtist í júníhefti vísindatímaritsins Global and Planetary Change. Þar er uppruni rekaviðar á norðanverðu Langanesi rakinn að mestu til vatnasviðs Yenisei-fljótsins um miðbik Síberíu og timbrið er að stórum hluta lerki og fura sem óx upp á síðustu öld. Gangi spár um minnkandi hafís eftir gera greinarhöfundar ráð fyrir því að enginn hafís berist lengur til Íslands eftir um fjörutíu ár.

Fyrsti höfundur greinarinnar er TomášKolář sem starfar við deild viðartækni og viðarfræða við háskólann í Brno í Tékklandi. Þrír aðrir höfundar eru frá Tékklandi, tveir frá Rússlandi, einn Breti og einn Svisslendingur auk Ólafs Eggertssonar sem starfar sem sérfræðingur í fornvistfræði og viðarfræðum á rannsóknasviði Skógræktarinnar.

Forsenda byggðar landnámsfólks

Viðarreki skipti sköpum um möguleika norrænna manna til forna að nema ný lönd svo sem á Íslandi og Grænlandi. Hér uxu engir stórviðir sem dugðu vel í húsbyggingar, bátasmíði og aðrar hefðbundnar timburnytjar. En stórviðir lágu víða í fjörum og höfðu mikla þýðingu fyrir byggð í landinu lengi vel. Segja má að rekaviðurinn hafi verið mikilvæg forsenda þess að fólk gat sest hér að.

Frá vatnasvæði Yenisei-fljóts

Hér sjást hafstraumar á leið rekaviðarins til Íslands og sýnatökustaðir í rannsókninni. Mynd úr grein Ólafs og félagaEnn í dag eru mannabyggðir á norðurslóðum þar sem rekaviður er mikilvæg auðlind. Aftur á móti er fátt vitað með vissu um ástæður þess að reki fer minnkandi og hvaða áhrif varanlegar breytingar á reka hafa á samfélög fólks í norðrinu. Í rannsókninni sem fjallað er um í greininni var tímatal byggt á árhringjum trjáa notað til að greina aldur og uppruna 289 rekaviðarsýna sem safnað var í tveimur atrennum í fjörum á norðanverðu Langanesi, þeirri fyrri árið 1989 og þeirri síðari árið 2019, þrjátíu árum síðar.

Til viðmiðunar voru notaðar 240 tímatalsraðir sem unnar höfðu verið upp úr breidd árhringja trjáa frá barrskógabeltinu víðs vegar í Síberíu. Trjátegundirnar voru síberíulerki, rauðgreni og skógarfura. Með þessu tókst að greina uppruna 73 prósenta þeirra trjáa sem rekaviðarsýnin voru af. Niðurstöðurnar sýna að rekaviðurinn er að langmestu leyti skógarfura og lerki sem ættað er af vatnasviði Yenisei-fljótsins um miðbik Síberíu sem rennur til norðurs í Kara-haf. Þaðan er því íslenski rekaviðurinn að langmestu leyti kominn.

Mestallt úr skógarhöggi

Rannsóknin leiðir í ljós að hratt hefur dregið úr viðarreka til Íslands frá níunda áratug síðustu aldar og það rímar vel við reynslu bæði sjómanna og bænda hér heima. Vísindafólkið telur að þrátt fyrir bein og óbein áhrif á bæði skógarnytjum í Síberíu og hegðun hafstrauma muni sú bráðnun hafíssins sem spáð er á komandi áratugum leiða til þess að viðarreki til Íslands muni alveg heyra sögunni til þegar kemur fram til ársins 2060.

Margt fleira áhugavert kemur fram í greininni, meðal annars að tré sem fallið hafa af náttúrlegum orsökum eru ekki nema 17% af rekaviðartrjánum sem sýni voru tekin af á Langanesi. Meirihlutinn er því tré sem menn hafa fellt í skógum Síberíu. Hlutföll trjátegundanna þriggja í rekaviðnum eru í góðu samræmi við hlutföll þeirra í síberísku skógunum og í ljós kemur líka að þetta er hægvaxinn viður, líklega að mestu sprottinn upp langt norðan við sextugustu gráðu norðlægrar breiddar. Trén reyndust hafa verið á aldrinum frá 37-414 ára þegar þau féllu en þó voru langflest þeirra frá síðustu öld.

Bættar nytjar í Rússlandi ekki eina skýringin

Ýmsir samverkandi þættir hafa áhrif á nokkurra ára ísinn sem nauðsynlegur er til að bera rekavið langar leiðir yfir höfin til Íslands. Mynd úr grein Ólafs og félagaGreinarhöfundar telja að jafnvel þótt minni viðarreki á Íslandi hafi verið í takti við þjóðfélagsbreytingar eftir fall Sovétríkjanna nægi sú skýring ekki. Breytingar á hafísnum skipti þarna máli líka. Til að rekaviðurinn geti borist þúsundir kílómetra án þess að sökkva til botns þarf að vera til staðar hafís sem endist lengur en veturinn. Eftir því sem ísbreiðan á norðurskautinu lætur undan síga með hlýnandi loftslagi minnka líka líkurnar á að eldri ís en frá síðasta vetri geti borið rekaviðinn til okkar.

Grein Ólafs Eggertssonar og félaga er aðgengileg á vefnum Sciencedirect.com.

Texti: Pétur Halldórsson