Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri ræðast við á aðalskrif…
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri ræðast við á aðalskrifstofu Skógræktarinnar á Egilsstöðum. Ljósmynd af vef Austurfréttar

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra heimsótti aðalskrifstofu Skógræktarinnar á Egilsstöðum í morgun og ræddi við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra. Hún segir að hjarta skógræktar á Íslandi sé á Austurlandi.

Austurfrétt greinir frá heimsókninni í frétt á vef sínum og spyr ráðherra þar út í áformaða athugun á fýsileika þess að sameina Skógræktina og Landgræðsluna í eina stofnun. Ráðherra telur samlegð í þekkingu og starfsemi milli stofnana tveggja. Forathugun á málinu muni taka hálft ár ogað henni lokinni verði tekin ákvörðun um næstu skref í málinu. Fara þurfi í gegnum ákveðin álitamál sem kunna að koma upp en fyrstu viðbrögð forstöðumanna stofnananna tveggja séu góð og allir sammála um augljósan framkvæmdalegan ávinning.

Farið er yfir í frétt Austurfréttar að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem hugað sé að sameiningu þessara stofnana. Ráðherra bendi á að verkefni þeirra séu skyld og skarist enn meira eftir því sem áhersla á loftslagsmál eykst, þ.e. verkefni um bindingu kolefnis. „Við teljum það yrði samlegð í bæði þekkingu og framkvæmd. Stofnanirnar eru þegar í miklu samstarfi og með starfstöðvar víða um land,“ er haft eftir Svandísi.

Hún sér ekki ástæðu til að breyta þeim áherslum sem koma fram í nýlega samþykktum lögum um stofnanirnar tvær heldur snúist þetta um formlega sameiningu stofnananna og verkefna þeirra. Málið megi ekki stranda á deilum um hvar höfuðstöðvar skuli vera. Hjarta skógræktar á Íslandi sé á Austurlandi en landgræðslu á Suðurlandi og forstjóri geti mögulega verið hreyfanlegur.

Nánar er fjallað um málið á vef Austurfréttar en á fundinum með Svandísi fór Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri líka yfir margvísleg verkefni Skógræktarinnar, sagði frá stórauknum áhuga ýmissa aðila á verkefnum til útbreiðslu skóga og kolefnisbindingar, ræddi um nauðsynlega uppbyggingu innviða, rannsóknir og fleira.

Texti: Pétur Halldórsson