Hér er Jón Auðunn Bogason, skógarvörður á Vesturlandi, ásamt starfsfólki sínu að ganga frá trjáplönt…
Hér er Jón Auðunn Bogason, skógarvörður á Vesturlandi, ásamt starfsfólki sínu að ganga frá trjáplöntusendingu í dreifingarstöðinni á Kleppjárnsreykjum. Ljósmynd: Sæmundur Kr. Þorvaldsson

Um 400 þúsund plöntur verða gróðursettar hjá skógarbændum á Vesturlandi í sumar og um 200 þúsund á Vestfjörðum. Starfsfólk Skógræktarinnar tók á móti sendingu af plöntum í dreifingarstöðinni á Kleppjárnsreykjum í gær.

Skógræktendur á Vesturlandi er farið að klæja í fingurna að hefja gróðursetningu rétt eins og í öðrum landshlutum. Gott veður var á Kleppjárnsreykjum þegar flutningabíll frá Sólskógum kom þar með sendinguna í gær.

Sæmundur Kr. Þorvaldsson, skógræktarráðgjafi á Vesturlandi, segir að margar umsóknir um nýja skógræktarsamninga hafi borist frá forráðamönnum lögbýla á Vesturlandi að undanförnu. Nú séu fjórtán nýjar jarðir ýmist komnar með saminga eða samningar komnir vel á veg. Víðast hvar gangi vel að ljúka þeim formsatriðum sem snerta samningsgerðina nema einna helst í Dölunum þar sem hægar gangi einhverra hluta vegna. Hann segir að nú sé kappkostað að gera ekki of stóra samninga í upphafi heldur bæta frekar við síðar eftir því hvernig fram vindur. Á þessu séu þó undantekningar og nú sé stærsti nýi samningurinn um skógrækt á hátt í 200 hekturum.

Nú má því segja að þeirrar aukningar í skógrækt sem boðuð hefur verið með loftslagsáætlun stjórnvalda sé farið að gæta. Sæmundur segir að nú hafi nýskógrækt vestra náð hálfum afköstum miðað við það sem var á árunum 2003-2004. Betur má þó ef duga skal.

Texti: Pétur Halldórsson