Margt getur komið í stað plasts. Hér má sjá pappaöskju undan litlu raftæki, tróð úr umbúðum og einno…
Margt getur komið í stað plasts. Hér má sjá pappaöskju undan litlu raftæki, tróð úr umbúðum og einnota hnífapör úr viði. Allt eru þetta skógarafurðir. En fyrsta spurningin þarf alltaf að vera hvort ég þarf örugglega það sem ég er að hugsa um að kaupa. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Skógræktin tekur þátt í Plastlausum september sem er árvekniátak á vegum grasrótarsamtaka um þennan viðburð til að vekja fólk til umhugsunar um plastnotkun og þann plastúrgang sem fellur til daglega og leita leiða til að minnka notkunina. Starfsfólk Skógræktarinnar er hvatt til að kaupa frekar matvöru í pappaumbúðum en plasti, nota ekki einnota borðbúnað úr plasti og plokka rusl í umhverfi sínu.

Á vef átaksins má fræðast um plastlausan lífstíl og fá góð ráð um hvernig hægt sé að byrja að feta sig út úr plastflóðinu. Hluti af því að draga úr plastnotkun er að neytendur þrýsti á með vali sínu á neysluvörum að dregið sé úr plastnotkun og leitast sé við að notaðar séu annars konar umbúðir sem auðveldara er að endurvinna eða koma inn í hringrásir náttúrunnar.

Það fyrsta sem fólk ætti alltaf að spyrja sig þegar neysla er annars vegar ætti alltaf að vera hvort það þurfi örugglega vöruna sem það er að hugsa um að kaupa. Því næst ætti að huga að vörunni sjálfri og umbúðunum.

Skógræktin vekur athygli á að ýmsar afurðir trjánna geta leyst plast af hólmi á margvíslegan hátt. Á síðustu misserum hefur sést meir og meir að framleiðendur ýmissa vara eru farnir að nota pappaumbúðir í auknum mæli í stað plasts og nú eru lítil raftæki gjarnan varin í pappaöskjum innan í umbúðunum í stað frauðplasts. Tróð til að fylla upp í holrúm í umbúðum eða verja innihaldið fyrir hnjaski er æ oftar úr pappa frekar en plasti og æ fleiri matvörur eru nú í pappaumbúðum í stað plasts. Pappi er timburafurð og ef tryggt er að timbrið hafi verið tekið úr sjálfbærri skógrækt þar sem jafnmikill eða meiri skógur vex í stað þess sem felldur er telst pappinn vera betri kostur en plast. Þá er auðvelt að endurvinna pappa eða nýta hann sem orkugjafa. Og berist pappaumbúðir út í náttúruna eru þær fljótar að brotna niður og eru hættulausar lífríkinu.

Sömuleiðis er rétt að benda á að nú fást margvíslegar vörur úr pappa, viði eða bambus sem síðustu áratugi hafa aðallega verið framleiddar úr plasti. Þar er nærtækt að nefna einnota glös, diska og hnífapör en auðvitað líka varanlegri búnaður eins og sleifar og þvörur, skurðarbretti, skálar, hankar fyrir föt, leikföng og þannig mætti áfram telja. Rétt er að hvetja fólk til að taka slíkar vörur fram yfir vörur úr plasti eins og unnt er.

Skógræktin hvetur starfsfólk sitt til að hafa eftirfarandi í huga í Plastlausum september og nýta þetta tækifæri til að hugsa um þessa hluti og athuga hvort taka megi einhver varanleg skref í átt að lífi með minna plasti, einkum því plasti sem er einnota.

Við hjá Skógræktinni tökum þátt í Plastlausum september með því að:

  1. Kaupa frekar matvöru í pappaumbúðum en plasti
  2. nota ekki einnota borðbúnað úr plasti
  3. plokka rusl í kringum starfstöðvar
  4. fræðast um plast og afleiðingar af ofnotkun þess
Texti: Pétur Halldórsson