Aaron Zachary Shearer, nýr skógræktarráðgjafi á Vesturlandi
Aaron Zachary Shearer, nýr skógræktarráðgjafi á Vesturlandi

Aaron Zachary Shearer skógfræðingur hefur verið ráðinn til starfa sem skógræktarráðgjafi á Vesturlandi. Aaron hefur víðtæka reynslu af skóg- og trjárækt, bæði á skógræktarsvæðum og í þéttbýli og er að ljúka meistaragráðu í þéttbýlisskógrækt.

„Ég er áhugasamur trjáræktarmaður og skógræktarráðgjafi sem hefur eytt síðasta áratug lífs síns í að læra og vinna með tré á alls kyns sviðum,“ segir Aaron, spurður út í eigin hagi. Áður en hann flutti til Íslands vann hann hjá ýmsum einkareknum ráðgjafarfyrirtækjum sem sérhæfðu sig í fjölbreyttum verkefnum, allt frá þéttbýlisskógrækt og gömlum trjám yfir í vinnu með skóglendi og skógrækt. Sjálfur var hann í forsvari fyrir margvísleg verkefni sem snerust um allt frá mati á trjám, vistkerfisþjónustu þeirra og áhættu yfir í hlutverk trjáa við þróun og skipulag þéttbýlis (s.s. mat á áhrifum, mótvægisaðgerðir, verndun) en einnig áætlanagerð fyrir skógrækt og umhirðu skógarsvæða.

Með fram fullu starfi hefur Aaron síðustu þrjú árin unnið að meistaragráðu í þéttbýlisskógrækt (Urban Forestry) og hefur nú skilað frá sér lokaritgerðinni. Hann er spenntur fyrir nýja starfinu hjá Skógræktinni og segir um það:

„Síðan ég flutti til Íslands fyrir um ári hef ég verið í sambandi við og starfað við hlið margs konar fólks og reynt að miðla af þekkingu minni og sérhæfingu. Með því nýja tækifæri sem felst í vinnunni hjá Skógræktinni vonast ég til eflast sem skógræktarráðgjafi og að viðbótarþekking mín geti komið að góðum notum.“

Frétt: Pétur Halldórsson