Á alþjóðlegum degi skóga á fimmtudaginn var, 21. mars, afgreiddi umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis til annarrar umræðu frumvarp til laga um skóga og skógrækt. Annar varaformaður nefndar­innar telur mikilvægt að loftslagsaðgerðir sem flétta saman mörg markmið, s.s. skógrækt, gróður- og jarðvegsvernd og sjálfbærar nytjar, skuli hafa forgang.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi og annar varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar, tók til máls í sérstakri umræðu um loftslags­mál sem Smári McCarthy, þingmaður Pírata, efndi til á fundi Alþingis 21. mars. Líneik þakkaði fyrir umræðuna og taldi vel við hæfi að ræða loftslagsmál á alþjóðlegum degi skóga. Varðveisla, endurheimt og uppbygging skóga um allan heim væru meðal þeirra viðfangsefna sem skiptu hvað mestu máli við bindingu og geymslu kolefnis í gróðri og jarðvegi.

Þá kom fram í máli hennar að þennan dag hefði umhverfis- og samgöngunefnd afgreitt frumvarp til laga um skóga og skógrækt til 2. umr. og fyrr í vetur hefðu verið samþykkt ný landgræðslulög, hvort tveggja löngu tímabær skref sem stuðluðu að bættum árangri í loftslagsmálum. Gert er ráð fyrir að verkefnis­stjórnir vinni landsáætlanir í landgræðslu og skógrækt sem ráðherra samræmi og Líneik Anna upplýsti að nú væri lagt til að þær áætlanir yrðu kynntar umhverfis- og samgöngunefnd áður en þær taka gildi.

Við gerð þessara landsáætlana telur Líneik anna mikilvægt að forgangsraðað verði þannig að verkefni þar sem næst að flétta saman sem flest markmið aðgerða í loftslagsmálum, skógrækt-, gróður- og jarðvegs­vernd og sjálfbærar nytjar, hafi forgang. Þannig verði árangurinn í loftslagsmálum bestur og á sem flestum sviðum.

Loks sagðist Líneik Anna fagna aukinni fræðslu í skólum og sjónvarpi og vitundarvakningunni sem fylgdi loftslagsverkföllunum. Hún teldi að fræðsla hefði hingað til verið vanmetin sem leið til aðgerða í loftslags­málum því að þekking einstaklinga réði mestu um hvernig heimili, fyrirtæki og stofnanir brygðust við áskorunum í loftslagsmálum.

Texti: Pétur Halldórsson