Skýrsla vinnuhópsins kom út í nóvember á liðnu ári en nú er komið að því að kynna drög að viðmiðum e…
Skýrsla vinnuhópsins kom út í nóvember á liðnu ári en nú er komið að því að kynna drög að viðmiðum eða gæðastöðlum um valkvæð kolefnisverkefni. Mynd af norden.org

Íslendingar taka þátt í vinnu hóps á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem vinnur að því að móta vinnureglur eða viðmið um vottuð kolefnisverkefni sem meðal annars má ráðast í til að kolefnisjafna með ábyrgum hætti rekstur fyrirtækja og stofnana. Drög að þessum viðmiðum verða opin til umsagnar frá og með 8. júní.

Merki vinnuhópsinsVinna þessa hóps er sambærileg vinnu hóps sem hefur verið í gangi hérlendis undanfarin misseri undir forystu Staðlaráðs Íslands. Markmiðið er að móta viðmið og siðareglur um vottuð kolefnisverkefni á hinum svokallaða valkvæða markaði til að tryggja að slík verkefni séu raunverulega í þágu loftslagsbaráttunnar en ekki friðþæging eða grænþvottur fyrir áframhaldandi losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.

Norræni hópurinn kallast á ensku Group for the Nordic Dialogue on Voluntary Compensation og er vinna hópsins fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni. Gunnlaugur Guðjónsson, sviðstjóri rekstrar hjá Skógræktinni, tekur þátt í þessari vinnu fyrir hönd Skógræktarinnar en frá Íslandi eru einnig Guðmundur Sigbergsson frá Loftslagsskrá Íslands, Haukur Logi Jóhannsson frá Staðlaráði og Arnar Gauti Guðmundsson frá Icelandair. Alls eru þrjátíu manns í hópnum, hvaðanæva af Norðurlöndunum.

Sem kunnugt er hefur Skógræktin mótað viðmið um kolefnisverkefni með skógrækt á Íslandi sem kallast Skógarkolefni. Þessi íslensku viðmið hafa fengið viðurkenningu vottunaraðila og eru gjaldgeng til skráningar í Loftslagsskrá Íslands. Þessi vinna hefur jafnframt fengið góða umsögn í norræna vinnuhópnum og er því gott innlegg í sameiginlega vinnu norrænu ríkjanna. Hvað varðar skógrækt á Íslandi búum við nú að þeirri vönduðu vinnu sem farið hefur fram á vegum rannsóknasviðs Skógræktarinnar með áratuga skógmælingum Íslenskrar skógarúttektar, miðlun talna um íslenska skóga til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og ýmissi þekkingarvinnu sem farið hefur fram í tengslum við þetta. Einn ávöxturinn af þessu starfi er til dæmis Skógarkolefnisreiknir sem gerir fólki kleift að áætla bindingu mismunandi trjátegunda hvar sem er á láglendi Íslands þar sem á annað borð kemur til greina að rækta skóg.

Miðvikudaginn 8. júní kl. 11 verður haldin rafræn kynning á þeim drögum að viðmiðum sem nú liggja fyrir. Kynningin er öllum opin og jafnframt er öllum frjálst að gera athugasemdir við drögin. Nánar er hægt að kynna sér málið á vef verkefnisins þar sem meðal annars er myndband með kynningu á skýrslu um verkefnið sem kom út í október.

Texti: Pétur Halldórsson