„Að vera innflutt, sá sér lítillega út og vera áberandi er ekki það sama og að vera „ágeng“ lífvera …
„Að vera innflutt, sá sér lítillega út og vera áberandi er ekki það sama og að vera „ágeng“ lífvera sem skv. lögbundinni skilgreiningu veldur rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni.“ Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Grein eftir Þröst Eysteinsson sem birtist í Morgunblaðinu 11. október 2021

Í aðsendri grein eftir Svein Runólfsson og Andrés Arnalds 28. september er spurt hvort ekki sé löngu tímabært að hætta notkun stafafuru hér á landi. Svarið er nei. Hvorki stafafura né aðrar trjátegundir eru ágengar hér á landi.

Að vera innflutt, sá sér lítillega út og vera áberandi er ekki það sama og að vera „ágeng“ lífvera sem skv. lögbundinni skilgreiningu veldur rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni. Enda hefur grein þeirra félaga í raun ekkert með stafafuru að gera. Þetta er fremur tilraun til að úrtala skógrækt og draga úr möguleikum hennar sem aðferð við að takast á við loftslagsbreytingar. Spyrja má hvað þeim gangi til með því.

Í drögum að landsáætlun í skógrækt er lagt til að skógrækt megi nota til að takast á við hraðfara loftslagsbreytingar af mannavöldum og hjálpa til við að Ísland nái að verða kolefnishlutlaust árið 2040, eins og stjórnvöld hafa sett stefnu um og skógræktarlög gera ráð fyrir. Landsáætlun í skógrækt fylgir því mjög vel stefnu stjórnvalda. Enn fremur er lagt til að efla skógrækt til að ná þeim markmiðum, að stórum hluta með birki. Stóraukin ræktun birkis er raunar mesta stefnubreytingin í landsáætluninni, sem þeir félagar virðast ekki gera sér fyllilega grein fyrir en viðurkenna aðeins með semingi. Einnig verða áfram ræktaðar innfluttar trjátegundir sem vaxa hraðar, binda meira kolefni og skila meiri hagrænum verðmætum en birkið. Að sleppa notkun þeirra væri glapræði. Við höfum 120 ára reynslu af innfluttum trjátegundum og vitum hvers við megum vænta af kolefnisbindingu þeirra og vistfræðilegri hegðun. Þar er reyndar stafafura meðal bestu trjáa sem við höfum, enda vex hún vel á rýru landi sem nóg er af hérlendis og aðrar tegundir vaxa illa á eða ekki.

Þeir félagar titla sig áhugamenn um náttúruvernd, en kjósa að afneita gagnsemi skógræktar í baráttunni við loftslagsbreytingar. Ef okkur tekst ekki að stöðva uppsöfnun koltvísýrings í andrúmsloftinu og draga hann niður í skóg og jarðveg blasir við að hér muni hlýna um 2-4 °C fyrir næstu aldamót, tíðni hamfaraveðra eykst og sjór súrnar ótæpilega. Ef það gerist er tómt mál að tala um vernd lífríkisins í óbreyttri mynd. Allt mun breytast. Í drögum að landsáætlun í skógrækt er viðleitni til að hægja á breytingunum svo samfélagið og náttúran hafi tíma til að aðlagast þeim. Hvað hafa þessir ágætu áhugamenn um náttúruvernd til þeirra mála að leggja? Er það að vilja banna skógrækt? Ekki er annað að lesa á grein þeirra félaga.

Texti: Þröstur Eysteinsson
Vefstjórn: Pétur Halldórsson