Tálguleiðbeinandinn er yfirskrift námskeiðsraðar sem Endurmenntun LbhÍ stendur fyrir í samvinnu við Skógræktina. Að námskeiðunum loknum eiga þátttakendur að geta sett upp og leiðbeint á lengri og skemmri námskeiðum og kynningum á tálgun og ferskum viðarnytjum fyrir ólíka aldurshópa og við ólíkar aðstæður úti og inni.

Fyrir hverja?

Námskeiðsröðin er fyrir þá sem vilja verða leiðbeinendur í tálgun hvort sem það tengist skógartengdu útinámi á öllum skólastigum, í grunnskóla- eða frístundastarfi, náms- og starfsþjálfun, endurhæfingu, sem hluti af dagskrá á skógardegi eða öðrum skógarviðburðum, sem liður í upplifunarfræðslu í skógarumhverfi fyrir ólíka hópa, fyrir almenning sem vill tengja tálgunina lífsstíllsviðfangsefnum í fjölskyldulífi eða sem einstaklingsmiðað tómstundagaman.

Ávinningur

Að lokinni námskeiðsröðinni eiga þátttakendur að geta sett upp og leiðbeint á lengri og skemmri námskeiðum og kynningum á tálgun og ferskum viðarnytjum fyrir ólíka aldurshópa og við ólíkar aðstæður úti og inni. Þeir eiga að þekkja algengustu viðartegundir á Íslandi, einkenni og eiginleika þeirra sem nýta má í ferskum viðarnytjum og eru almennt algengar í garðaumhverfi og skógrækt. Þeir eiga að geta leiðbeint um notkun á öllum bitáhöldum sem almennt eru notuð í ferskri tálgun, umhirðu þeirra og brýningu. Þeir eiga að geta leiðbeint um sköpun, hönnun, líkamsbeitingu og þess að njóta og komast í samband við viðinn og verkefnin. Þeir eiga að geta leiðbeint á persónulegum forsendum og tengt viðfangsefnin við getu þátttakenda og stutt þá og hvatt í vinnu við fjölbreytt tálguverkefni. Þeir munu læra um mismunandi þurrkaðferðir, yfirborðsmeðhöndlun út frá notkun einstakra gripa eða áhalda innan eða utan húss.

Fyrirkomulag

Námskeiðið nær yfir eitt ár, vorönn, sumarönn og haustönn, og er samtals 81 kennslustundir, auk heimanáms. Námið samsvarar 5 einingum á framhaldsskólastigi. Kennslan fer fram hjá LbhÍ. Tvær námskeiðslotur eru á vorönn og aðrar tvær á haustönn, hver um sig kl. 16-19 á föstudegi og kl. 9-16 á laugardegi. Að auki er ein tveggja daga námskeiðslota að sumri eða snemma hausts, hvor dagur kl. 9-16. Auk þess vinna þátttakendur að ýmsum verkefnum heima á milli námskeiðslota. Kennslukerfi LbhÍ verður notað til að halda utan um námskeiðið og koma upplýsingum milli nemenda og kennara.

Forkröfur: Þátttakendur hafi farið á grunnnámskeið í tálgun.

Kennsla: Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktarinnar og verkefnisstjóri Lesið í skóginn, ásamt fleiri sérfræðingum á þessu sviði.

Tími: Námskeiðsröðin hefst í febrúar 2021 og stendur fram í desember 2021.

Verð: 195.000 kr

Hagnýtar upplýsingar: Flest stéttarfélög styrkja félagsmenn sína til að sækja námskeið eða nám.

Námskeið 1 - Tálgun - kennsla

Áhöld og búnaður til notkunar við kennslu í tálgun.

Kennsluaðferðir og tálgutækni.

Æfingar og þjálfun.

Brýningaraðferðir, umhirða og umgengni við bitáhöld.

Innihald: Fjallað verður um helstu áhöld og búnað til notkunar við kennslu í tálgun. Rætt verður um gæði og endingu þeirra áhalda sem notuð eru við tálgun og hvar hægt er að fá þau. Farið verður yfir öryggismál og annað tengt heilsu og öryggi þátttakenda. Farið verður yfir kennsluaðferðir við verklega kennslu og undirstöðuatriði í tálgutækni rifjuð upp, með áherslu á að þátttakendur geti leiðbeint öðrum. Fjallað verður um aðferðir við brýningar á áhöldum og undirstöðuatriði í umhirðu og umgengni við bitáhöld.

Hæfniviðmið: Að námskeiði loknu á nemandinn að vera fær um að nota viðurkenndar kennsluaðferðir til að leiðbeina öðrum um tálgutækni, val á helsta búnaði til tálgunar og umhirðu og umgengni við hann, með öryggissjónarmið að leiðarljósi.

Námskeið 2 - Kennslutilhögun

  • Umgjörð og aðstaða.
  • Hvatning, hrós og stuðningur við einstaka þátttakendur.
  • Líðan.
  • Mismunandi námskeið, hópar, aðstaða og tilefni.

Innihald: Farið verður yfir þá umgjörð og aðstöðu sem þarf að vera til staðar við leiðbeiningu um tálgun. Kynntar verða aðferðir til að hvetja, hrósa og styðja við einstaka þátttakendur, með kennslufræðileg sjónarmið að leiðarljósi og að hverjum þátttakanda sé mætt á þeim stað þar sem hann er staddur hverju sinni. Rætt verður um líðan þátttakenda og hvaða áhrif hún hefur á upplifun á námskeiði. Fjallað verður um þarfir mismunandi hópa, hvernig hægt er að búa til námskeið fyrir þá og rætt um mismunandi nálgun fræðslunnar eftir því við hvaða tilefni hún á sér stað.

Hæfniviðmið: Að námskeiði loknu á nemandinn að vera fær um að leggja mat á gæði umgjarðar og aðstöðu. Hann á að geta lesið í stöðu einstakra hópa og sett fram fræðslu sem hentar við mismunandi tilefni og fyrir mismunandi þarfir og getu einstaklinga.

Heimaverkefni 1 – unnið milli námskeiða 2 og 3, skiladagur ákveðinn af kennara. Netkynning í vikunni fyrir.

Námskeið 3 - Sumarnámskeið

Sumarnámskeið – tenging við náttúruna (2 dagar í sumar 2021, nákvæm tímasetning ákveðin síðar)

  • Tenging við náttúruna, upplifun – vistfræði skógar og áhrif umhverfis á viðargæði.
  • Grisjun.
  • Getutengt verkefnaval og viðartegundir.
  • Fjölbreytni.
  • Hvaða trjátegundir eru notaðar í einstök verkefni og hvers vegna?
  • Eldiviðargerð, þurrkun, uppkveikja og útieldun. Búnaður og aðstaða.

Innihald: Sumarnámskeiðið er tveggja daga námskeið sem leggur áherslu á tengingu við náttúruna og upplifun í skógi. Fjallað verður um vistfræði skógar, mismunandi trjátegundir og áhrif umhverfis á viðargæði. Fjallað verður um val á trjátegundum í einstök verkefni og lögð áhersla á fjölbreytni í tegundavali. Farið verður yfir mismunandi verkefni og hvernig hægt er að stilla þeim upp miðað við mismunandi getu þátttakenda. Í lok námskeiðsins verður farið yfir eldiviðargerð, þurrkun og uppkveikju og hvers konar búnað og aðstöðu þarf til útieldunar í skógi.

Hæfniviðmið: Að námskeiði loknu á nemandinn að vera meðvitaður um grunnþætti í vistfræði skógar og gildi skógar sem svæðis til upplifunar og hluta af náttúru. Nemandinn hefur yfirsýn yfir mismunandi trjátegundir í skógi og hvernig þær nýtast í afurðir. Hann er fær um að útbúa verkefni við hæfi mismunandi hópa og hvaða aðstöðu og búnað þarf til þess.

Heimaverkefni 2 – unnið milli námskeiða 3 og 4, skiladagur ákveðinn síðar af kennara.

Námskeið 4 - Efnisöflun, þurrkaðferðir

  • Efnisöflun, grisjun og geymsla ferskviðar.
  • Þurrkaðferðir.
  • Yfirborðsmeðhöndlun og lokafrágangur.
  • Efni og aðferðir.

Innihald: Fjallað verður um leiðir til efnisöflunar í skógi og görðum, markmið og tilgang grisjunar og hvernig grisjunarefniviður nýtist í kennslu. Farið verður yfir aðferðir við geymslu ferskviðar og helstu þurrkaðferðir fyrir mismunandi trjátegundir og ólík verkefni. Fjallað verður um yfirborðsmeðhöndlun á efniviði úr skógi/garði og hvernig lokafrágangi er háttað og rætt um helstu efni og aðferðir sem notuð eru í þeim tilgangi.

Hæfniviðmið: Að námskeiði loknu getur nemandinn valið viðeigandi efni úr skógi, geymt það við réttar aðstæður og valið aðferðir til þurrkunar, yfirborðsmeðhöndlunar og frágangs sem henta viðkomandi efniviði/verkefni.

Heimaverkefni 3 – unnið milli námskeiða 4 og 5, skiladagur ákveðinn af kennara.

Námskeið 5 - Afurðir og nytjar

Nytjahlutir og skrautmunir.

Fjölbreytt verkefni og menningarverðmæti.

Verðmætamat á efni sem notað er.

Nemendur kynna heimaverkefni 3.

Innihald: Fjallað verður um helstu nytjahluti og skrautmuni sem einfalt er og algengt að búa til á tálgunámskeiðum, út frá þekkingu og getu þátttakenda. Farið verður yfir framkvæmd verkefnanna og þau tengd við menningu eftir því sem við á. Fjallað verður um verðmætamat á afurðum úr skógi og hvernig hægt er að verðleggja nytjahluti og vinnu leiðbeinenda.

Hæfniviðmið: Að námskeiði loknu á nemandinn að geta valið viðeigandi nytjahluti og/eða skrautmuni sem viðfangsefni á tálgunámskeiðum, sett upp verkefnið og framkvæmt það og miðlað upplýsingum um tengingu afurðanna við menningu á viðkomandi svæði. Nemandinn getur lagt mat á verðmæti afurða og eigin vinnu.