Á námskeiðinu var m.a. kennt hvernig leiðbeina má börnum við að kljúfa eldivið. Ljósmynd: Ólafur Odd…
Á námskeiðinu var m.a. kennt hvernig leiðbeina má börnum við að kljúfa eldivið. Ljósmynd: Ólafur Oddsson

Skógræktarfélag Reykjavíkur hélt í gær námskeið fyrir starfsmenn sína um „skógaruppeldislega nálgun“ í uppsetningu á þátttökustöðvum á viðburðum. Nú er afmælisár hjá félaginu og sérstök áhersla lögð á þátttöku barna og fjölskyldufólks í starfinu.

Mikilvægt er að fólk sem stendur fyrir viðburðum í skógum hafi góða þekkingu, veitt góða fræðslu og boðið upp á verkefni sem virkja fólk og gefa því tækifæri til að spreyta sig sjálft. Ljósmynd: Ólafur OddssonÓlafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktarinnar, sá um námskeiðið og leiðbeindi. Ólafur hefur sérstakan áhuga á að efla þennan þátt í skógaruppeldi landans.

Fjallað var um uppsetningu og fræmkvæmd tálgunarstöðvar þar sem þátttakendur eru að stíga fyrstu skrefin í tálgutækninni í huggulegu skógarumhverfi, hvernig er gott að leyfa börnum á ólíkum aldri æfa sig í að „höggva“ við með stórum tréhamri og öxi og hvers þarf að gæta í því verki s.s. að lesa í viðinn, kljúfa fram hjá kvistum og gæta þess að slasa sig ekki á áhöldunum.

Viðarhöggið er svo tengt uppkveikju og eldun og því að sjá sólina í viðnum.

Þá var fjallað um upplifun og sköpun í skógarumhverfi þar sem lögð er áhersla á notkun skynfæranna við að upplifa skóginn og tjá þær upplifanir í skapandi texta eða á annan hátt s.s. með mynd eða í tónlist.

Að lokum var fjallað um hvernig kynna má börnum uppkvistun með handverkfærum. Þar er lögð áhersla á að útskýra mikilvægi góðrar heilsu trjánna og að sjá hvernig trén sótthreinsa sjálf greinasárin til að koma í veg fyrir sýkingu. Þetta er borið saman við viðbrögð mannsins og heilbrigðisþjónustunnar.

Um tíu manns sátu námskeiðið og voru allir mjög ánægðir með námskeiðið. Til fyrirmyndar er hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur að bjóða sínu fólki upp á slíkt námskeið enda opnar þetta augu fólks fyrir mikilvægi þess að fólk sem stendur fyrir viðburðum í skógum landsins hafi góða þekkingu og hæfni í að veita skógarfræðslu.

Sett á vef: Pétur Halldórsson