Verkleg kennsla í gæðaflokkun timburs í sögunarmyllu Skógræktarinnar á Skriðufelli í Þjórsárdal. Skj…
Verkleg kennsla í gæðaflokkun timburs í sögunarmyllu Skógræktarinnar á Skriðufelli í Þjórsárdal. Skjámynd úr myndbandi Kviklands

Fjörutíu manns tóku þátt í vikulangri vinnusmiðju TreProX-verkefnisins sem fram fór í október á liðnu hausti. Viðfangsefnið var viðargæði og viðmið um viðarflokkun sem og aðferðir sem notaðar eru til að hámarka gæði timburs í skógrækt. Út er komið myndband um vinnusmiðjuna þar sem fæst góð mynd af TreProX-verkefninu.

Vinnusmiðjan fór fram dagana 10.-16. október 2021 og voru þátttakendur og leiðbeinendur frá Íslandi, Svíþjóð, Danmörku, Nýja-Sjálandi, Nepal og Kína. Á fjölbreyttri dagskránni voru bæði fyrirlestrar og vettvangsferðir á áhugaverða staði. Í vinnusmiðjunni var boðið upp á bæði fyrirlestra og vettvangsferðir á áhugaverða staði, fyrstu tvo dagana í Borgarfirði þar sem heimsóttir voru skógar og fyrirlestrar haldnir í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Þriðja daginn var rannsóknasvið Skógræktarinnar heimsótt á Mógilsá og farið í skóginn á Heiðmörk og síðustu tvo dagana fór fram námskeið í gæðaflokkun timburs á Reykjum í Ölfusi með verklegum æfingum í sögunarmyllu Skógræktarinnar að Skriðufelli í Þjórsárdal.

Aðdragandinn að TreProX-verkefninu var samkomulag um samstarf í gæðamálum viðarnytja sem gert var árið 2018 milli Skógræktarinnar, Landssamtaka skógareigenda, Landbúnaðarháskóla Íslands og Skógræktarfélags Reykjavíkur, fyrir hönd Skógræktarfélags Íslands. Markmiðið með þessu samstarfi er að unnið verði samkvæmt stöðlum með þær íslensku trjátegundir sem nýta má til timburframleiðslu. Til að svo megi verða þurfa að vera fyrir hendi staðlar fyrir hverja og eina viðartegund. Upp úr þessu spratt TreProx-verkefnið sem er evrópskt samstarfsverkefni undir hatti áætlunarinnar Erasmus+. TreProX er stytting á „Innovations in Training and Exchange of Standards of Wood Processing“ sem þýðir nýsköpun í fagþekkingu og miðlun á stöðlum til viðarvinnslu. Styrkur til verkefnisins nam um 40 milljónum íslenskra króna og lýkur verkefninu um næstu áramót. Aðilar að verkefninu eru Landbúnaðarháskóli Íslands, Skógræktin, Trétækniráðgjöf sfl., Linné-háskólinn í Svíþjóð og Kaupmannahafnarháskóli.

Ein afurðin af þessu TreProX-samstarfinu var útgáfa á riti sem hefur að geyma viðskiptaflokkun á timbri úr íslenskum barrtrjám. Ritið heitir Gæðafjalir - Viðskiptaflokkun á timbri úr barrtrjám. Reglur um slíka flokkun eru mikilvægt skref í uppbyggingu timburiðnaðar hérlendis.

Skógræktin hefur nú gefið út myndband sem Hlynur Gauti Sigurðsson og Kolbrún Guðmundsdóttir hjá Kviklandi gerðu um vinnusmiðju TreProX-verkefnisins.

Texti: Pétur Halldórsson